Veiðiheimildir smábáta
Mánudaginn 17. desember 1990


     Kristinn Pétursson (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Þar sem ég er víst búinn að tala tvisvar í þessari umræðu er mér ekki leyfilegt að tala oftar. Ég óska því eftir að fá að ræða hér örstutt um þingsköp og þá þann þátt þessa máls sem lýtur að stjórnarskránni.
    Ég tel að þingmönnum eigi að vera leyfilegt að ræða ákvæði stjórnarskrárinnar. Ef þeir telja að lög fari í bága við stjórnarskrána sé óhætt að ræða það undir þingsköpum. Ég tók eftir því í dag og í kvöld að hæstv. ráðherra og hans stuðningsmenn hafa engar athugasemdir gert við þær hugmyndir mínar og skoðanir að þessi löggjöf fari í bága við stjórnarskrána og ég lít þá þannig á að þeir séu mér sammála um að fram eigi að fara úttekt á þessu máli og ég vísa aftur, hæstv. forseti, í lögfræðilega úttekt sem Lagastofnun gerði og ekki hefur farið fram nein umfjöllun um hér í þinginu. Ég tel það vera mjög alvarlegt mál að þingnefndir skyldu ekki fá að fjalla um þetta efnislega því að þarna vorum við einmitt komnir á rétta leið í málinu því að samkvæmt niðurlagi álits Lagastofnunar teljast atvinnuréttindi eign og njóta verndar 67. gr. stjórnarskrárinnar. Þessi texti er ákaflega ótvíræður. Enn fremur stendur hérna um atvinnuréttindin: ,,Löggjafanum er heimilt að setja þeim almenn takmörk, enda sé jafnræðis gætt.``
    Hæstv. forseti. Ég er sannfærður um það og fullviss að jafnræðis er ekki gætt í þessari framkvæmd. Þó ásetningur þeirra manna sem hafa að þessu unnið sé góður er mismunun manna það mikil í þessu að það ... ( Forseti: Ég hlýt að benda hv. þm. á að þetta eru nú tæplega umræður um þingsköp. Bið ég hv. þm. að misnota ekki þann rétt sem þingmenn hafa til þess að ræða þingsköp.) Ég tók það fram hér í upphafi, hæstv. forseti, að ég tel að óhætt sé að ræða ákvæði sem brjóta í bága við stjórnarskrána undir þingsköpum. Og ég ítreka það, hæstv. forseti, að réttarstaða þolandans í þessu máli er það sem við eigum að skoða. Það er skylda alþingismanna að virða stjórnarskrána og sé það gert í þessu máli og lögin gegnumlýst með tilliti til ákvæða í stjórnarskrá um atvinnufrelsi og jafnréttisreglu verði gerðar á þessum lögum --- með því að nota þessi sjónarmið --- nauðsynlegustu lagfæringar þannig að borgararnir geti þolað þetta bærilegar en ella. Það er það sem ég er að fara, hæstv. forseti.