Veiðiheimildir smábáta
Mánudaginn 17. desember 1990


     Forseti (Guðrún Helgadóttir) :
    Vegna orða hv. 14. þm. Reykv. um hver hefði verið orsökin fyrir þessari umræðu hér í dag þá vil ég taka alveg skýrt fram að staðreyndir málsins eru þessar: Hv. 4. þm. Norðurl. e. kom að máli við forseta fyrir viku síðan og bað um hálftíma umræðu á fimmtudaginn var. Þá stóð til, eins og fram fór, að afgreiða 2. umr. fjárlaga, þannig að þingmaðurinn féllst á að fresta þessari hálftíma umræðu þangað til í dag. Það voru síðan tveir hv. þm. Sjálfstfl. sem kröfðust þess af forseta að þessi umræða yrði lengri án þess að þeir hefðu beðið um umræðu utan dagskrár. Reynt var að komast að samkomulagi um að hv. 4. þm. Norðurl. e. fengi að hafa þessa umræðu eins og hann bað um. Það samkomulag tókst ekki og þess vegna sitjum við hér.
    Ég bið hv. þm. lengstra orða, vitandi hvers konar vinnuvika er hér fyrir höndum, að þeir sýni forseta þingsins þá virðingu, eftir að þessi umræða hefur staðið síðan kl. 2 í dag, að stytta nú mjög mál sitt. Það eru langir og strangir fundir fram undan og hv. þm. hljóta bráðum að vera búnir að ræða þetta mál að sinni. ( StG: Þetta er mikið mál.) Forseti hefur aldrei mótmælt því að hér sé um mikið mál að ræða, en það eru einhver takmörk fyrir vinnuálagi á starfsfólk hér í húsinu svo og hv. þm. Þess vegna bið ég um samkomulag um það að menn fari að ljúka þessari umræðu.