Veiðiheimildir smábáta
Mánudaginn 17. desember 1990


     Guðmundur H. Garðarsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég hef alltaf sýnt embætti hæstv. forseta Sþ. tilhlýðilega virðingu þannig að það er ekki því til að dreifa í sambandi við þetta. En það er eins og hv. 3. þm. Norðurl. v. greip hér inn í að hér er náttúrlega um stórmál að ræða sem er þess eðlis að þegar einstakir þingmenn standa upp, og þar á meðal sá sem hér talar, og tala í 10 eða 20 mínútur, sem er ekki mikið þegar litið er á það málefni sem hér er rætt um, þegar það er einnig haft í huga að við hv. þm. Sjálfstfl. höfum ekki eytt jafnmiklum tíma í þessa umræðu og æskilegt væri og sjálfsagt, þá held ég að það þurfi nú ekki, virðulegur forseti, að brýna mig eða okkur hv. þm. Sjálfstfl. í þeim efnum að vera stuttorðir.
    En varðandi stöðu 4. þm. Norðurl. e. vil ég taka skýrt fram, og það kom fram í minni ræðu, að ég hef fullan skilning á því að hann skuli með þeim hætti sem hann hefur gert fjalla um þetta mál, fullan skilning á því. Og ég virði hann fyrir að hann skuli hafa tekið þetta upp sem sitt fyrsta mál, ef ég veit rétt, í sölum Alþingis, að þá skuli það einmitt vera þetta mál, fiskveiðistjórnun. Þetta er meginmál og grundvallarmál sem grípur mjög víða inn í, ekki aðeins veiðarnar heldur líka inn í stöðu Íslands í bandalagi þjóða í framtíðinni. Málið er því miklu stærra í sniðum en menn vilja kannski gera sér grein fyrir einmitt núna á þeim tímamótum sem Íslendingar standa frammi fyrir því á næsta ári verður á hinu háa Alþingi örugglega mikið rætt um stöðu Íslands gagnvart Evrópubandalaginu. Þá koma þessi mál inn í umræðuna sem grundvallaratriði og þá munu hv. þm. þurfa að gera það upp við sig hvar þeir standa, ekki bara í kvótamáli heldur í stöðunni gagnvart eignarhaldi Íslendinga í sjávarútvegi og fiskvinnslu. Það er mál sem bíður síns tíma eftir áramót.
    En ég vil ítreka það, virðulegur forseti, að ég var ekki með athugasemdir í þeim skilningi að ég væri að gagnrýna 4. þm. Norðurl. e., nema síður væri.