Flm. (Björn Valur Gíslason) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir þáltill. um eflingu Akureyrar og Eyjafjarðarsvæðisins sem miðstöðvar fræðslu og rannsókna á sviði sjávarútvegs og er till. svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að á Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu skuli byggja upp miðstöð fræðslu og rannsókna á sviði sjávarútvegs.
    Alþingi felur því ríkisstjórninni að láta gera tímasetta áætlun sem miði að uppbyggingu sjávarútvegsbrautar Háskólans á Akureyri og sjávarútvegsbrautarinnar á Dalvík og eflingu hvers kyns rannsóknar - og þróunarstarfsemi á svæðinu.``
    Markmiðið með þessari till., nái hún fram að ganga, er að hefja nú þegar vinnu að heildarskipulagi rannsókna - og menntastofnana í sjávarútvegi, tengja þessa þætti betur saman og auka samvinnu við starfandi sjávarútvegsfyrirtæki á svæðinu. Á þann hátt tel ég að mestur árangur náist við þekkingaröflun og með þessum aðgerðum lærum við betur að nýta okkur auðlindir sjávar og auka verðmæti sjávarafurða.
    Í grg. er till. rökstudd m.a. með tilvísun til þess að við Eyjafjörð séu nú fyrir mjög mörg og öflug fyrirtæki í sjávarútvegi hvert á sínu sviði. Stór útgerðarfyrirtæki hafa skotið þar rótum á undanförnum árum og í kjölfar þeirra hefur fjölbreytni í verkun sjávarafla aukist að mun. Þekking sú, sem nú þegar er fyrir hendi hvað þessi mál varðar, ætti því að vera aðgengileg fyrir stofnanir þær sem nefndar eru í till. Um þetta segir m.a. í grg., með leyfi forseta:
    Fiskveiðar og vinnsla hafa til langs tíma verið ein mikilvægasta undirstaða atvinnulífs við Eyjafjörð líkt og annars staðar í landinu.
    Fjölbreytt útgerð báta og skipa af ýmsum stærðum hefur treyst útgerðina við Eyjafjörð og stuðlað að meiri fjölbreytni og sérhæfingu fiskvinnslufyrirtækja en víðast hvar annars staðar þekkist.
    Frá Eyjafirði er gerður út öflugur togarafloti sem telur yfir 20 skip og hefur vaxið ört á undanförnum árum. Einnig er gerður þaðan út stór floti nóta - og rækjuskipa auk mikils fjölda annarra báta. Sameiginlega hefur þessi floti allur náð að skapa mikla fjölbreytni í vinnslu sjávarafurða á Eyjafjarðarsvæðinu.
    Ýmis þjónustufyrirtæki í sjávarútvegi hafa náð að festast í sessi á Eyjafjarðarsvæði og er þar víða um brautryðjendastarf að ræða. Jafnframt hafa nokkur sérhæfð fyrirtæki náð fótfestu á svæðinu og hafa náð að skapa sér nafn í þjónustu við sjávarútveginn.
    Þekktasta þjónustufyrirtæki sjávarútvegsins í Eyjafirði er auðvitað Slippstöðin hf. á Akureyri sem í áratugi hefur verið leiðandi í skipasmíðum hér á landi auk þess að sjá um viðhald og endurbætur á stærsta hluta stórskipaflota landsins. Einnig skulu nefnd fyrirtækin Sæplast hf., sem sérhæft hefur sig í framleiðslu á plastkerum til geymslu og flutninga á fiski og mörgu öðru þessu tengdu, svo og fyrirtækið Fiskmiðlun Norðurlands hf. sem vinnur að markaðssetningu sjávarafurða og hefur orðið vel ágengt. Þessi fyrirtæki auk fjölmargra annarra hafa náð rótfestu á Eyjafjarðarsvæðinu og njóta virðingar hvert á sínu sviði hér á landi og víða erlendis. Nokkrar menntastofnanir í sjávarútvegi hafa verið settar á laggirnar í Eyjafirði nú á síðustu árum. Þessar stofnanir hafa að því er mér er kunnugt átt mjög gott samstarf við útgerðar - og fiskvinnslufyrirtæki á svæðinu sem allir hafa notið góðs af og leitt hefur í ljós að til þess að sem bestur árangur náist þarf samvinna þessara aðila auðvitað að vera mjög náin.
    Fyrir nokkrum árum hófst kennsla í skipstjórnarfræðum við sjávarútvegsbrautina á Dalvík og eru nú útskrifaðir frá skólanum sjómenn með full réttindi til starfa á íslenskum fiskiskipum. Nú eru 30 nemendur við nám í þessum stýrimannaskóla á Dalvík og hefur aðsókn vaxið á undanförnum árum.
    Einnig er við sjávarútvegsbrautina nýtekinn til starfa fiskvinnsluskóli sem útskrifar sína fyrstu nemendur í vor. Skólinn hefur á þeim stutta tíma sem hann hefur starfað sýnt það og sannað að löngu var orðið tímabært að fiskvinnslunám væri í boði á landsbyggðinni. Báðir þessir skólar hafa átt mikið og gott samstarf við útgerðar - og fiskvinnslufyrirtæki á Norðurlandi og hafa sýnt það og sannað að samstarf þessara aðila er mjög nauðsynlegt.
    Nýhafin er kennsla við Háskólann á Akureyri í sjávarútvegsfræðum og eru miklar vonir bundnar við þessa deild Háskólans meðal þeirra sem starfa við sjávarútveginn í landinu. Markmið sjávarútvegsdeildar Háskólans á Akureyri er að mennta einstaklinga í öllum undirstöðuatriðum íslensks sjávarútvegs og þjálfa þá í beitingu faglegra vinnubragða við stefnumörkun, ákvarðanatöku og stjórnun í greininni. Er þetta í fyrsta sinn sem þessi kennsla í sjávarútvegsfræðum fer fram hér á landi, þ.e. kennsla á háskólastigi.
    Í fskj. I, II og III með till. eru markmið þessara stofnana kynnt auk þess sem farið er yfir helstu námsgreinar sem kenndar eru. Þar kemur glöggt fram að gert er ráð fyrir víðtæku samstarfi við stofnanir í sjávarútvegi og fyrirtæki í greinum fiskveiða og vinnslu.
    Á Akureyri á nú að fara að opna útibú Hafrannsóknastofnunar auk þess sem Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins er þar fyrir með ýmsa starfsemi. Í fskj. IV eru markmið Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins rakin og sést af þeim að starfsemi þessarar stofnunar fer vel saman við þá starfsemi sem fyrir er.
    Það er því alveg ljóst að samstarf þessara stofnana auk annarra ókominna við starfandi fyrirtæki í sjávarútvegi á þessu svæði verður í framtíðinni að vera mjög náið.
    Eins og hér hefur komið fram er fjölbreytt atvinnulíf í sjávarútvegi við Eyjafjörð og talsvert um nýjungar á mörgum sviðum sem varða þessa atvinnugrein. Það hlýtur því að vera freistandi fyrir stjórnvöld sem gera sér grein fyrir mikilvægi sjávarútvegs að nýta sér þá þekkingu og reynslu sem fyrir er á þessu svæði og taka af fullum krafti þátt í þeirri uppbyggingu sem þarna á sér stað. Frá byggðasjónarmiðum ætti auðvitað ekki að vera nein spurning um vilja stjórnvalda til að byggja upp miðstöð sjávarútvegs á

Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu.
    Þessi till. felur það í sér að á Akureyri og í Eyjafirði verði í framtíðinni höfuðstöðvar fræðslu og rannsókna á sviði sjávarútvegs og framtíðaruppbygging á vegum ríkisins hvað þetta varðar fari hér eftir fram í Eyjafirði. Það er mjög mikilvægt að slík miðstöð sjávarútvegs verði byggð upp þar sem þekking og reynsla er til og allar ytri aðstæður sem með þarf eru fyrir hendi.
    Því er lagt til að ríkisstjórnin geri nú sem fyrst áætlun um uppbyggingu á slíkri miðstöð sjávarútvegs í Eyjafirði og verði sú áætlun lögð fyrir Alþingi fyrir lok þessa kjörtímabils.
    Ég hef nú lokið máli mínu um þessa þáltill. og legg til að henni verði vísað til félmn.