Húsnæðisstofnun ríkisins
Mánudaginn 17. desember 1990


     Frsm. félmn. (Jóhann Einvarðsson) :
    Hæstv. forseti. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef er þetta eina bréfið sem hefur farið á milli þessara embætta, fjmrn. og félmrn., um þetta mál og ég setti sjálfur eintak af þessu í hólf hv. þm. fyrir helgi. Bara til þess að skýra málið ætla ég að lesa þetta bréf upp. Það skýrir sig mjög vel sjálft og ég hygg að það þurfi ekki fleiri vitnanna við. Bréfið hljóðar svona og var sent öllum innheimtumönnum ríkissjóðs, í Reykjavík borgarfógeta, og er dags. 11. des. 1990:
    ,,Þann 1. júní 1990 tóku gildi lög nr. 70/1990, um breytingu á lögum nr. 86/1988, um Húsnæðisstofnun ríkisins. Var með þeim lögum ákveðið að skuldabréf félagslegra íbúða skyldu undanþegin stimpilskyldu. Á hinn bóginn var eigi kveðið sérstaklega á um framkvæmdalánasamninga í umræddu ákvæði 94. gr. laga nr. 86/1988, sbr. 3. gr. laga nr. 70/1990. Enda þótt ráðuneytinu væri kunnugt um þann vilja höfunda lagafrv. að láta framkvæmdalánasamninga vera undanþegna stimpilgjaldi, taldi ráðuneytið sér ekki fært að skýra ákvæðin svo rúmri skýringu, enda engin vísbending um slíka túlkun í lögskýringargögnum.
    Embætti ríkislögmanns var falið að gefa álit sitt á túlkun á umræddu ákvæði laganna um Húsnæðisstofnun ríkisins. Varð niðurstaða ríkislögmanns sú að eigi væri hægt að skýra undanþáguákvæði þetta svo rúmri skýringu að undir það féllu umræddir framkvæmdalánasamningar.
    Í ljósi þessa hefur í samvinnu félmrn. og fjmrn. verið samið frv. til laga um breyting á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Er þar kveðið á um það að umræddir framkvæmdalánasamningar séu undanþegnir stimpilgjaldi. Einnig er þar kveðið á um heimild til handa fjmrh. að endurgreiða stimpilgjald sem innheimt hefur verið af framkvæmdalánasamningum sem stimplaðir voru eftir 1. júní 1990.
    Ráðuneytið hefur ákveðið að fallið skuli frá innheimtu á stimpilgjaldi af framkvæmdalánasamningum gegn því að þinglýsingarbeiðandi ábyrgist greiðslu á stimpilgjaldinu fari svo að frv. þetta verði eigi að lögum. Skal þetta gert með sérstakri ábyrgðaryfirlýsingu sem lögð skal fram þegar skjal er afhent til stimplunar.``
    Undir þetta bréf skrifa fyrir hönd ráðherra Snorri Olsen og Bragi Gunnarsson og afrit af þessu bréfi er sent til Ríkisendurskoðunar, Húsnæðisstofnunar ríkisins, félmrn. og Búseta, Laugavegi 17. Þetta hygg ég að skýri málið nægilega vel.