Húsnæðisstofnun ríkisins
Mánudaginn 17. desember 1990


     Halldór Blöndal (um þingsköp) :
    Herra forseti. Það er nú komið í ljós að bréfaskipti hafa ekki einungis verið um þetta mál milli Húsnæðisstofnunar og fjmrn. heldur hefur ríkislögmaður og félmrn. blandast inn í þetta mál og einnig Búseti. Ég óska eftir því að áður en umræða um málið heldur áfram fái ég einnig þau bréfaskipti sem orðið hafa um málið við Búseta, við ríkislögmann og aðra þá sem málið varðar. Ég held að það sé alveg dæmalaust að þingmenn skuli hvað eftir annað þurfa að standa hér upp til þess að biðja um lágmarksupplýsingar.
    Ég mun ekki víkja að sinni að því máli sem varðar hæstv. sjútvrh. Okkur hefur ekki unnist tími til að hittast sem erum í sjútvn. Nd. út af því máli, en ég vil í þessu litla efni óska eftir þessu. Auðvitað veit ég hvar valdið liggur í þinginu, auðvitað veit ég að hæstv. forseti getur haldið umræðum áfram eins og ekkert hafi í skorist, en fundur verður kl. 4 og þá heldur umræðan áfram.