Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Mánudaginn 17. desember 1990


     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Eyjólfur Konráð Jónsson) :
    Herra forseti. Hér er á ferðinni gamall kunningi okkar alþingismanna eða gamall draugur kannski. En það er ekki ástæða til að fjölyrða mjög um þetta mál. Ég vil aðeins geta þess sem menn ættu nú að vera farnir að skilja að allir skattar eru í eðli sínu eignaupptaka, þ.e. tilfærsla á fjármunum frá einstaklingum, félögum og fyrirtækjum til ríkisvaldsins. Við erum vön því, hv. alþm., núna upp á síðkastið, á síðustu missirum að yfir okkur sé dengt stanslaust nýjum sköttum í einu formi og öðru. Menn segja að þessi skatturinn sé eitthvað skárri heldur en hinn, en eins og ég sagði áðan, þá eru allir skattarnir því marki brenndir að einhver verður að borga þá og auðvitað borga þeir menn, sem hafa viðskipti við fyrirtæki sem eiga skrifstofu - eða verslunarhúsnæði, þennan skatt þegar þeir skipta við viðkomandi fyrirtæki. Það er nú lögmál lífsins að skattarnir lenda á þjóðinni auðvitað og neytendum ekki síst.
    Mér er ljóst að við hv. þm. Halldór Blöndal erum hér í minni hl. og að meiri hl. mun auðvitað samþykkja að framlengja þessum skatti. Hann er jafnslæmur og aðrir skattar og við greiðum atkvæði gegn samþykkt frv.