Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
Mánudaginn 17. desember 1990


     Halldór Blöndal :
    Herra forseti. Ég þarf ekki að bæta mörgum orðum við það sem hv. 8. þm. Reykv. sagði áðan. Ég tek undir hvert einasta orð sem hann sagði. Ég vil aðeins bæta því við að á þeim tíma, sem við töldum sumir þingmenn að það hefði þýðingu að upplýsa málið betur í nefnd, eðli frv. sem við erum hér að fjalla um, voru kallaðir til fulltrúar atvinnulífsins, bæði frá Vinnuveitendasambandi Íslands, frá Verslunarráði Íslands og eins frá samvinnuhreyfingunni, Sambandi ísl. samvinnufélaga. Það er mjög eftirtektarverður vitnisburður sem Samband ísl. samvinnufélaga gaf. Fulltrúi þeirra félagasamtaka lagði fram ítarlega skýrslu um það að þessi skattur bitnaði miklu þyngra á eigendum verslunar - og skrifstofuhúsnæðis úti á landsbyggðinni heldur en í Reykjavík og færði fyrir því mörg gild rök sem að sumu leyti eiga sér sögulegar skýringar en að sumu leyti eiga sér skýringar í eðli atvinnurekstrarins úti á landi og hér í Reykjavík.
    Hér er sem sagt um enn einn skattinn að ræða, herra forseti, sem bitnar þyngra á landsbyggðinni en höfuðborgarsvæðinu vegna minni veltu þar, vegna þess að verslunar - og skrifstofuhúsnæði er víða um land byggt við vöxt og vegna þess að velta þar hefur dregist saman. Ég vek athygli á þessu um leið og ég minni á að verslun í dreifbýli á mjög undir högg að sækja. Gjaldþrot hafa verið tíð, ekki einungis hjá einkafyrirtækjum heldur einnig hjá kaupfélögum víðs vegar um landið þannig að sums staðar er svo komið að verslun hefur með öllu lagst niður á smærri stöðum og annars staðar spurning hvort nokkur fáist til þess að taka við versluninni þar sem hún stendur mjög höllum fæti.
    Ég vil að þetta komi fram. Ég geri ekki ráð fyrir að þessar upplýsingar skipti neinu máli. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að leggja þennan skatt á og lætur þá skeika að sköpuðu hvar hann kemur þyngst niður.