Málefni aldraðra
Þriðjudaginn 18. desember 1990


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason) :
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um málefni aldraðra nr. 82/1989, sem flutt er á þskj. 315 og er 227. mál efri deildar.
    Eins og menn vita fjallar einn kafli í lögum um málefni aldraðra um Framkvæmdasjóð aldraðra og hlutverk hans. Framkvæmdasjóður aldraðra hefur haft það hlutverk frá upphafi er hann var stofnaður að taka þátt í byggingu húsnæðis sem ætlað er öldruðum borgurum þessa lands. Er þar fyrst og fremst um að ræða þátttöku í uppbyggingu hjúkrunarrýmis eða hjúkrunarheimila en einnig þjónustuhúsnæðis, þjónustumiðstöðva og aðstöðu til dagvistunar. En sjóðurinn hefur einnig haft það hlutverk að taka þátt í breytingum og endurbótum á eldra húsnæði. Eins og málum er nú háttað hefur tekist að byggja þetta húsnæði verulega upp víða um land og er nú svo komið að við getum með nokkrum sanni sagt að í einstaka byggðarlögum hafi nánast tekist að fullnægja þeirri þörf sem er fyrir húsnæði handa öldruðum. Auðvitað er þetta misjafnt eftir byggðarlögum og enn eru víða stór verkefni fram undan og stór verkefni við að fást.
    En það hefur líka gerst á undanförnum missirum að okkur hefur ekki tekist að afla rekstrarfjár til þess að halda öllum þeim stofnunum í fullum rekstri sem okkur hefur þó tekist að byggja upp á undanförnum árum. Á ég ekki eingöngu við húsnæði fyrir aldraða heldur ýmsar aðrar sjúkrastofnanir. Frv. það sem hér er lagt fyrir og er til umræðu nú gerir ráð fyrir því að Framkvæmdasjóður aldraðra megi einnig taka að sér tímabundið nokkur rekstrarverkefni til þess m.a. að bregðast við þeim vanda sem skapast þegar nýjar stofnanir eru tilbúnar en fjárlög hafa ekki gert ráð fyrir því að rekstrarfé til þeirrar starfsemi væri á sjúkratryggingafjárlagalið Tryggingastofnunar ríkisins. Einnig í þeim tilfellum þar sem breyttar áherslur eru þannig að nauðsynlegt er að koma á fót heimaþjónustu og þá einkum heimahjúkrun sem er hlutverk ríkisins, en heimilishjálpin er, eins og hv. þm. vita, verkefni sveitarfélaga. Hér er gert ráð fyrir því að Framkvæmdasjóðurinn hafi möguleika á því að taka þátt í þessum rekstrarverkefnum.
    Á undanförnum árum, eða frá því að sjóðurinn var stofnaður, hefur hann veitt fjármuni til hinna ýmsu framkvæmda í uppbyggingu húsnæðis fyrir aldraða fyrir samtals 774 millj. kr. á verðlagi hvers tíma sem eru um það bil 1,7 milljarðar króna á verðlagi dagsins í dag. Við höfum vissulega heyrt og orðið vör við að ástandið er erfitt hér á höfuðborgarsvæðinu, jafnvel erfiðara en sums staðar úti á landi, þar sem eins og ég nefndi áðan tekist hefur að byggja þessa starfsemi upp og stofnanir fyrir aldraða í hærra hlutfalli miðað við íbúafjölda en hér hefur tekist. Þó hefur sjóðurinn varið 775 millj. kr. á framreiknuðu verðlagi af þessum 1,7 milljörðum kr. til uppbyggingar á húsnæði hér á höfuðborgarsvæðinu.
    Ég tel því, herra forseti, að nauðsynlegt sé að gera þessar breytingar á hlutverki Framkvæmdasjóðsins og

heimila honum að taka þátt í þeim rekstrarverkefnum sem hér eru tilgreind en þá jafnframt að gera það að sjálfsögðu að skilyrði að skatturinn, sem innheimtur er til Framkvæmdasjóðs aldraðra, renni óskiptur í sjóðinn en ekki sé um að ræða skerðingarákvæði í fjárlögum og/eða lánsfjárlögum um þá fjármuni sem þangað eiga að fara heldur fái sjóðurinn allan skattinn óskiptan, enda renni samkvæmt tillögum frv. 1 / 3 hluti þess fjármagns sem sjóðurinn fær í þessi tilgreindu rekstrarverkefni.
    Hér er fyrst og fremst um að ræða tvær breytingar. Ég ætla að gera aðeins nánari grein fyrir þeim. Fyrri breytingin lýtur að því að sjóðnum sé heimilt að styrkja viðhald á þeim stofnunum aldraðra sem þegar eru starfandi. Viðhald þessara stofnana getur verið geysilega fjárfrekt og þungur baggi á rekstraraðilum. Því er talið eðlilegt að auka hlutverk sjóðsins þannig að einnig megi styrkja viðhald til viðbótar við styrki til nauðsynlegra breytinga og endurbóta sem lögin heimila nú þegar.
    Síðari breytingin varðar hins vegar rekstrarmálin og er viðbrögð við þeim vanda sem iðulega kemur upp þegar öldrunarstofnun fær starfsleyfi eða breytingu á starfsleyfi eftir að fjárlagaár hefst og ekki var gert ráð fyrir nýrri stofnun eða breytingu við fjárlagagerð. Með breytingu á starfsleyfi er fyrst og fremst átt við það þegar heilbrrh. heimilar að þjónustuhúsnæðisrými sé breytt í hjúkrunarrými vegna þungrar hjúkrunar dvalargesta á viðkomandi stofnun. Þetta hefur gert það að verkum að öldrunarstofnanir hafa ekki getað tekið til starfa eða breytt starfsemi sinni fyrr en allt að ári síðar eða þegar gert hefur verið ráð fyrir framlögum á fjárlögum. Vart þarf að fara um það mörgum orðum hvaða erfiðleikum þetta veldur á þeim stöðum sem þetta á við um. Húsnæði stendur tilbúið en fjármuni til rekstursins skortir.
    Rétt til upplýsinga fyrir hv. þm. má geta þess að á árinu 1989 námu þessar viðbótarheimildir, sem í raun hafði ekki verið gert ráð fyrir að fullu í framlögum á sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunar, ný verkefni, samtals 105,7 millj. kr. Í ár hefur þetta hins vegar verið miklu lægri upphæð. Við höfum reynt að halda utan um rekstrarútgjöldin og fjárhagsstaða sjúkratryggingadeildar hefur verið með þeim hætti að ekki hefur verið unnt að verða við öllum þeim óskum sem borist hafa um breytingar á rekstrarfyrirkomulagi. Þess vegna hafa viðbótarrekstrarútgjöld af þessum ástæðum ekki numið nema 30 millj. kr. Hér getur því verið um mjög misháar upphæðir að ræða frá einu ári til annars. Eins og ég nefndi áðan var þetta í fyrra 105 -- 106 millj. kr. og þörfin því brýn að hafa svigrúm til að geta leyst verkefni sem þessi ef og þegar þau koma upp.
    Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn. Og ég bið nefndina nú einu sinni enn um að reyna eftir megni að afgreiða þetta mál sem allra fyrst því það er ósk mín, þó frv. sé vissulega seint fram komið eins og því miður vill nú oft verða, að það verði afgreitt fyrir jól ef hv. Alþingi sér sér mögulega fært, enda tengist það að nokkru leyti afgreiðslu fjárlaganna eins og ég gerði grein fyrir áðan og þá auðvitað líka því skilyrði að Framkvæmdasjóðurinn fái alla þá fjármuni sem sérstakur tekjustofn á að skila til hans.