Málefni aldraðra
Þriðjudaginn 18. desember 1990


     Guðmundur H. Garðarsson :
    Virðulegi forseti. Ég held að allir hv. þm. geti tekið undir það sem hæstv. heilbr.- og trmrh. Guðmundur Bjarnason sagði, að efla beri eftir því sem kostur er og tök eru á það sem lýtur að öldrunarmálum. Hér er til umræðu frv. til laga um breyting á lögum um málefni aldraðra, lögunum frá 1989. Samkvæmt þessu frv. er gert ráð fyrir ákveðnum grundvallarbreytingum á hlutverki Framkvæmdasjóðs aldraðra sem rétt er að staldra nokkuð við og gera sér grein fyrir hvers eðlis eru.
    Hæstv. ráðherra skýrði það nokkuð vel í sínu máli hver væri megintilgangurinn með þessu frv. Hann vakti jafnframt athygli á því að raunverulega er verið með frv. að leysa vandamál sem snýr að fjárlagagerð á hverjum tíma, þ.e. í sambandi við 4. lið 12. gr. þar sem segir að veita skuli tímabundið rekstrarfé til stofnana fyrir aldraða sem breyta eða hefja starfsemi eftir að fjárlagaár hefst. Eyddi hæstv. ráðherra nokkrum tíma í að útskýra þetta atriði.
    Það sem mér finnst skipta höfuðmáli er að sjálfsögðu það að Framkvæmdasjóði sé gert kleift að standa við sín upprunalegu markmið. Það kom fram hjá ráðherra sem vitað er að því miður hefur Framkvæmdasjóður ekki getað sinnt sínu hlutverki með þeim hætti sem upphafleg lög gera ráð fyrir þar sem tekjur hans hafa verið skertar allverulega á undangengnum árum. Í frv. er gert ráð fyrir því að með tíð og tíma verði hægt að fullnægja því markmiði að Framkvæmdasjóður fái óskertar tekjur og þá verði búið að koma því bráðabirgðaástandi, sem 4. liður 12. gr. snýr að, fyrir í sambandi við fjárlög. En það er mitt mat að eðlilegra sé að leggja áherslu á að Framkvæmdasjóður fái þær tekjur sem honum ber og hann geti varið þeim í samræmi við gildandi lög. Það hefði verið eðlilegra að hæstv. ráðherra hefði beitt sér fyrir því innan ríkisstjórnarinnar að rekstrarfé til stofnana fyrir aldraða kæmi inn á fjárlög við fjárlagagerð með þeim hætti sem hann lýsti áðan að væri þörf fyrir. Eftir því sem ég kemst næst munu núna um 2 / 3 hlutar þess fjár sem á að fara í Framkvæmdasjóð til þess að hann geti gegnt upprunalegu hlutverki renna til hans. Það er náttúrlega gjörsamlega óviðunandi að þannig skuli vera á málum haldið af hálfu núv. hæstv. ríkisstjórnar. Þess vegna tel ég það meginmál að það sé tryggt í löggjöf betur en nú er með þeim hætti að skerðingarákvæði í fjárlögum verði afnumið gagnvart Framkvæmdasjóði. Síðan er það mál sem er hægt að taka upp, og ekki óeðlilegt, með hvaða hætti sé hægt að tryggja rekstrarfé í samræmi við þau sjónarmið sem hæstv. ráðherra lýsti hér áðan og ráð er fyrir gert í 4. lið 12. gr.
    Ég ætla ekki, virðulegur forseti, að fjalla um þetta í löngu máli en vil þó segja að eðlilegra hefði verið, ef tryggja átti að sú framkvæmd yrði örugg að hér væri aðeins um tímabundna ráðstöfun að ræða, að setja það inn í lög eða sem lagaákvæði að hér væri eingöngu um tímabundið atriði að ræða í sambandi við rekstur stofnana fyrir aldraða, með tilliti til næstu

fjárlagagerðar. Því miður er reynslan sú að þegar byrjað er með svona bráðabirgðaákvæði í lögum hefur löggjafinn því miður haft tilheigingu til að vilja framlengja slíkum ákvæðum ár frá ári. Þótt það hafi komið fram í máli hæstv. ráðherra og einnig sé ráð fyrir því gert í athugasemdum við lagafrv. að hér sé um tímabundið atriði að ræða í sambandi við rekstur stofnana fyrir aldraða tel ég það ekki fullnægjandi þannig að það sé tryggt. Ég óttast það að ef þetta frv. verður samþykkt í þeirri mynd sem það liggur hér fyrir muni skerðingin halda áfram gagnvart upprunalegum tilgangi laga um málefni aldraðra, sem er náttúrlega númer eitt og tvö að styrkja byggingu þjónustumiðstöðva, dagvistar- og þjónustuhúsnæðis fyrir aldraða og hjúkrunarheimila fyrir aldraða og einnig að styrkja breytingar og endurbætur á þessum stofnunum. Ég óttast að það muni verða skert áfram með þeim hætti sem lýst hefur verið en þessi skerðing nemur um 1 / 3 hluta. Ég legg því áherslu á það, virðulegur forseti, að farið verði mjög vel yfir þetta frv. áður en það verður afgreitt úr deildinni og það fái þinglega meðferð í þeirri nefnd sem mun fjalla um það þar sem allar upplýsingar liggi fyrir af hálfu þeirra þolenda sem hafa orðið að sæta þeirri skerðingu sem lýst hefur verið og tryggt verði að sú skerðing haldi ekki áfram í framtíðinni.