Héraðsskógar
Þriðjudaginn 18. desember 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um Héraðsskóga. Þetta er 236. mál á þskj. 338 og er endurflutningur frv. sem lagt var fram í hv. Ed. á síðasta þingi á vordögum. Það fór þá til nefndar og umsagnar. Frv. er lítillega breytt og mun ég, auk þess sem ég kynni almennt efni málsins, víkja að þeim breytingum. Að öðru leyti get ég vísað til framsöguræðu og umræðu sem varð um þetta mál á hv. Alþingi sl. vor.
    Upphaf þessa máls er aðallega að rekja til þáltill. nr. 79 frá 1988 og í framhaldi af henni samþykkt sem ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar gerði 27. maí 1989 þar sem ákveðið var að ráðast í stórátak til ræktunar nytjaskóga á Fljótsdalshéraði og nýta allt heppilegasta skógræktarland á Héraði, fullnýta það á 40 árum. Á árinu 1989 var veitt aukafjárveiting til að hefja undirbúning að þessu verkefni og síðan var á fjárlögum yfirstandandi árs og af ráðstöfunarlið ríkisstjórnar veitt til þessa verkefnis um 25 millj. kr.
    Á því ári sem er að líða hefur verið ráðist í ýmis verkefni til undirbúnings. Plöntun er reyndar hafin og má nefna að stofnað var almenningshlutafélag á Fljótsdalshéraði um byggingu og rekstur gróðrarstöðvar, gróðurkort hafa verið gerð af öllu svæðinu, kostnaðaráætlun hefur verið unnin, rekstraráætlanir eru langt komnar fyrir allmargar jarðir, einar 12 -- 15 jarðir, þær sem fremstar eru í röðinni, og gróðursettar voru á þessu vori um 180 þús. plöntur í 50 ha lands á um 20 jörðum. Efnt hefur verið til námskeiða í skógrækt við Menntaskólann á Egilsstöðum og víðar með samstarfi við ýmsa aðila. Girtir hafa verið á annan tug kílómetra og grisjaðir um 30 ha af skóglendi. Almenningshlutafélagið Barri hf. var stofnað um byggingu og rekstur gróðrarstöðvar eins og áður segir. Hluthafar þar eru á annað hundrað og fer enn fjölgandi og safnast hafa um 24 millj. kr. í hlutafé. Þetta er fjölmennasta hlutafélag sem stofnað hefur verið á Fljótsdalshéraði og hygg ég að undirtektir Héraðsmanna og Austfirðinga sýni þann hug sem menn bera til þessa verkefnis. Bygging gróðrarstöðvarinnar var boðin út og tekið tilboði frá innlendum framleiðanda, Límtré hf., um byggingu 2000 m 2 gróðurhúss. Þessum framkvæmdum miðar vel og húsið er senn fokhelt.
    Mikil vinna hefur verið lögð í undirbúning þessa verkefnis og hefur Alþingi og ríkisstjórn á undanförnum tveimur árum varið samtals 35 -- 37 millj. kr. í verkefnið. Einnig hefur það hlutafélag sem áður var nefnt gert skuldbindandi samninga upp á 26 millj. kr. eða þar um bil um byggingu gróðurhúss.
    Víðtæk samstaða er um þetta verkefni meðal heimamanna, leyfi ég mér að fullyrða, og allra sem að þessu skógræktarátaki hafa komið. Um 90 landeigendur í sex hreppum eru reiðubúnir að leggja land undir skógrækt og munu þess engin dæmi að jafnvíðtæk samstaða og jafnvíðtæk þátttaka hafi áður komið til í skógræktarverkefni af þessu tagi.
    Það verður að segjast eins og er að hætt er við að

þeirri vinnu og því fjármagni sem lagt hefur verið í þetta mál sé stofnað í hættu takist ekki að lögfesta ramma um þetta verkefni á því þingi sem nú situr. Sérstaklega verður að benda á að það nýstofnaða hlutafélag með verulegum fjárframlögum heimamanna sem stendur fyrir byggingu gróðrarstöðvar yrði fyrir skakkaföllum nái verkefnið ekki fram að ganga með því umfangi sem áætlanir gera ráð fyrir, þar sem þetta mikla skógræktarátak á Fljótsdalshéraði er fyrst og fremst sá markaður sem félagið ætlar sér að sinna með rekstri gróðrarstöðvar.
    Ég hlýt því að leggja á það áherslu, herra forseti, um leið og ég mæli fyrir málinu að við það eru miklar vonir bundnar af Héraðsbúum og væntanlegum þátttakendum verkefnisins, af Skógræktinni, landbrn. og þeim öðrum sem hér hafa lagt hönd á plóginn að mál þetta nái fram að ganga og lögfestur verði lagalegur grundvöllur verkefnisins á þessu þingi.
    Ég vík þá að frv. og efni þess nánar og fer fljótt yfir sögu og vísa, eins og áður sagði, til þeirrar framsögu sem flutt var fyrir málinu á síðasta þingi.
    Í 1. gr. er vikið að markmiði verkefnisins, sem sagt að stuðla að ræktun nytjaskóga á Fljótsdalshéraði og umhirðu þess skóglendis sem fyrir er, treysta með því byggð og efla atvinnulíf á því svæði. Það er eindreginn vilji heimamanna og um það er fullt samkomulag við Skógrækt ríkisins að þetta skuli standa sem sjálfstætt skógræktarverkefni og merkjast þannig á fjárlögum.
    Í 2. gr. er kveðið á um stjórn Héraðsskóga, en hún skal þannig skipuð að Félag skógarbænda, Skógrækt ríkisins og landbrh. tilnefni hver sinn manninn í stjórn.
    Í 3. gr. er vikið að því að gera skuli áætlun um nýtingu þess lands sem verkefnið nær til, eða um 15 þús. ha lands, og skal sú áætlun vera í fjórum tíu ára áföngum. Þá er einnig vikið að því að gera skuli samninga sem landbrh. staðfesti milli landeigenda og þátttakenda í skógræktarátakinu og héraðsskógaverkefnisins hins vegar. Eru samningsdrög eða sýnishorn af samningsdrögum eins og þau gætu litið út birt sem fskj. IV með frv. þessu.
    Í 4. gr. er vikið að kostnaðarþátttöku ríkissjóðs. Þar hefur orðið niðurstaðan að leggja frv. fram í nokkuð breyttri mynd frá því sem var á síðasta þingi þar sem ábendingar komu fram um að það kynni að orka tvímælis að það væri heppilegt að þáttur ríkisins í greiðslusamþykkt skógræktarkostnaðar væri 100%, eða að fullu og öllu væri greitt samkvæmt samþykkt um kostnaðaráætlun eins og frv. gerði ráð fyrir þegar það var lagt fram hið fyrra sinnið. Nokkrar umræður hafa orðið um það hver væri þá eðlileg eða nauðsynleg prósenta og hefur orðið niðurstaðan að leggja frv. fram með tölunni 90%, eða eins og segir í 4. gr.: ,,Ríkissjóður greiðir kostnað við Héraðsskóga sem hér segir: Undirbúnings- og rekstrarkostnað verkefnisins, laun stjórnar og fastra starfsmanna.`` --- Þessi kostnaður er þá samkvæmt orðanna hljóðan greiddur að fullu. --- ,,Enn fremur 90% samþykkts kostnaðar við skógrækt á jörðum í ábúð og 70% á eyðijörðum.``

    Þarna hefur orðið nokkur lækkun frá því sem áður var. Ég vil beina því sérstaklega til hv. landbn., sem væntanlega fær þetta mál til skoðunar, að ræða þessar kostnaðarhlutfallstölur. Það skiptir miklu máli fyrir framgang verkefnisins að þar sé ekki vanáætlað og tæplega mun ganga að ætla þeim sem gerast fullir þátttakendur í þessu verkefni og hafa framan af litlar eða jafnvel engar tekjur af öðru en þátttöku sinni í þessu verkefni í gegnum vinnulaun og tekjur þar af, að bera nema mjög óverulegan hluta þessa útlagða kostnaðar í byrjun. Ég vil því leyfa mér að beina þessu atriði sérstaklega til skoðunar hjá hv. landbn. Að sjálfsögðu er gert ráð fyrir því að það verði vandlega undirbyggt hvaða kostnaður þarna kemur til greina og verður greiddur og eingöngu samkvæmt samþykktum og viðurkenndum áætlunum sem liggja fyrir um eðlilegan kostnað í hverju tilviki.
    Í 5. gr. er kveðið á um hvernig fjármagna skuli síðan endurnýjun skóganna þegar að því kemur að nýting hefst. Er það tvíþætt, þ.e. að leggja skal 5% af heildarframleiðsluverðmæti trjáviðar úr skógunum á sérstakan endurnýjunarreikning sem verður í vörslu héraðsskógaverkefnisins og skal ganga til þess að endurnýja skóglendi á viðkomandi jörðum. Og í öðru lagi skal leggja af hreinum hagnaði, sem verða kann og verður vonandi, af nýtingu skóganna 15% til ríkissjóðs og skal því fé varið til ræktunar nýrra skóga.
    Í 6. gr. er kveðið á um forgangsröðun verkefna og vinnurétt, þ.e. rétt þátttakenda til vinnu eða um forgang til vinnu. Þar hafa orðið nokkrar breytingar á og við greinina hafa bæst tvær mgr. svohljóðandi, með leyfi forseta: ,,Þá skulu þær jarðir, þar sem sauðfjárbúskapur dregst verulega saman eða er lagður niður, hafa forgang að verkefninu umfram aðrar jarðir``. --- Þetta á við jarðir í byggð og um aðgengi þeirra að verkefninu. Og enn fremur segir: ,,Ef gerðir eru samningar milli ríkisvaldsins og sauðfjárbænda, sem aðild eiga að verkefninu, um að láta af sauðfjárrækt eða draga hana verulega saman til lengri tíma skulu slíkir bændur og jarðir þeirra hafa forgang að vinnu og þátttöku í verkefninu.``
    Rétt þótti að styrkja þennan efnisþátt 6. gr. til þess að gefa ótvíræðar heimildir í lögunum til að veita aðilum sem þannig kynni að hátta til um forgang að verkefninu og vinnu við það. Ég hygg að þessi ákvæði skýri sig að öðru leyti sjálf og tel eftir atvikum að eðlilegt hafi verið og skynsamlegt að styrkja þessi ákvæði frv.
    Í 7. til og með 10. gr. er svo fjallað um stjórn á verkefninu í samvinnu við Skógrækt ríkisins, um meðferð ársreikninga, um ársskýrslu og því um líka hluti. Hygg ég að þau atriði skýri sig sjálf og vísa þá einnig til umfjöllunar um einstakar greinar frv.
    Eitt atriði enn vil ég nefna og það er að vaknað hafa spurningar um og komið hafa fram athugasemdir varðandi stjórnskipulega stöðu verkefnisins, hvort eðlilegt sé að verkefnið standi sjálfstætt með sjálfstæðum lögum eða hvort eðlilegt væri að það yrði hluti af starfsemi Skógræktar ríkisins eða yrði fellt inn í almenn lög um skógrækt. Er ekki nema eðlilegt að

spurt sé slíkra spurninga. Niðurstaðan hefur orðið sú eftir allvandlega umhugsun og athugun á því máli að heppilegast sé að þetta standi sem sjálfstætt verkefni og um það séu sett sjálfstæð lög. Vel kann að vera að í fyllingu tímans telji menn eðlilegt að fella þetta inn í heildarlöggjöf um skógræktarmálefni enda yrði þá væntanlega búið að endurskoða þá löggjöf og breyta henni í takt til nýrri aðstæðna en það verkefni stendur fyrir dyrum. Eins og málum er nú háttað er að okkar mati, sem þetta höfum athugað í landbrn. á vegum skógarbænda sjálfra og annarra aðila, talið heppilegast að þetta standi sem sjálfstæð löggjöf. Sé ég í sjálfu sér ekkert því til fyrirstöðu að þetta standi sem sjálfstætt fjárfestingarverkefni undir landbrn.
    Í öðru lagi hafa verið settar fram spurningar sem varða skattalega meðferð mála, þ.e. hvernig haga skuli skattlagningu tekna og þeirra framlaga sem til verkefnisins ganga. Vil ég í öðru lagi leyfa mér að leggja til að hv. landbn. láti líta á þetta atriði sérstaklega þar sem rétt kann að vera að afla umsagnar frá ríkisskattstjóra eða öðrum sambærilegum aðilum um hvernig heppilegast væri að ganga frá slíkum atriðum jafnvel í lagatextanum sjálfum þannig að skýrt væri hvað fyrir mönnum vekti í þeim efnum. Þessi ábending kom fram skömmu áður en málið var lagt fram á þingi og vannst því ekki tími til að afla formlegrar umsagnar frá slíkum aðilum en ég kem þessari ábendingu hér á framfæri. Rétt er þó að taka fram að að þessu hefur verið hugað nokkuð bæði í landbrn. og fjmrn.
    Að lokum, herra forseti, vil ég leyfa mér að segja í almennum orðum að við þetta verkefni eru bundnar miklar vonir margra þeirra sem telja að hér sé ef til vill á ferðinni fyrsta stóra tilraunin til að gera nytjaskógrækt sem slíka að alvöruatvinnugrein hér í landinu, gera í raun og veru fyrstu alvörutilraunina á því sviði. Um það verður varla deilt að Fljótsdalshérað er ef ekki heppilegasta þá a.m.k. eitt af heppilegustu svæðunum fyrir slíkt. Þar er meiri reynsla og betri en nokkurs staðar annars staðar á landinu af skógrækt í stórum stíl þar sem eru víðáttumiklar lendur skógræktarinnar á Hallormsstað. Ég hygg því að því verði ekki á móti mælt að byrjað sé á réttum stað og réttum enda með því að hrinda úr vör fyrsta stóra verkefni þessarar tegundar í nytjaskógrækt á Fljótsdalshéraði. Ég vil svo að lokinni þessari umræðu, herra forseti, leyfa mér að leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.