Héraðsskógar
Þriðjudaginn 18. desember 1990


     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Þegar við gengum í barnaskóla lærðum við það í Íslandssögutímum að landið hafi verið skógi vaxið milli fjalls og fjöru. Þegar maður síðan sem fullorðinn kemur til Norðurlandanna, jafnvel nyrst í Norður-Noreg sér maður há og beinvaxin tré og fyllist undrun og furðu að sjá þessi fögru tré. Ég efast því ekkert um það, þó loftslag sé auðvitað dálítið öðruvísi nyrst í Norður-Noregi en hér á Íslandi, eftir að hafa lært mína barnaÍslandssögu og séð hin glæsilegu tré í Norður-Noregi og Norður-Rússlandi að við getum líka ræktað glæsilega skóga hér á Íslandi.
    Það er vafalaust skynsamlegt að gera stórátak á einum stað fremur en á mörgum í byrjun. Ég vil ekki fella neinn dóm um það hvort þetta umrædda frv. sé ómarkvisst eða ekki. Þar veldur sjálfsagt hver á heldur. En ein orsökin fyrir því að ég kom hingað í stólinn var sú að Ísland er ekki bara Austurland, Ísland er mikið stærra en svo, og ég hef orðið vör við bændur víða á Íslandi sem gjarnan vilja og dreymir um að rækta bændaskóga, sem þeir kalla, ekki Héraðsskóga heldur bændaskóga. Mig langar að spyrja hæstv. landbrh. hvort þeir eigi að bíða í 40 ár, þ.e. það verði börn þeirra eða barnabörn sem hugsanlega geti farið út í slíka skógrækt, ef eingöngu á að gera átak á Austurlandi eða á Fljótsdalshéraði? Hvers mega þeir bændur vænta sem gjarnan vilja rækta bændaskóga þó þeir séu í miklu minna mæli og smærri í öllum sniðum en Héraðsskógurinn stóri þarna á Fljótsdalshéraði?