Launamál
Þriðjudaginn 18. desember 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson) :
    Herra forseti. Þótt um þetta mál hafi mikið verið rætt tel ég ástæðu til að fara nokkuð yfir allan aðdraganda málsins og setningu þeirra bráðabirgðalaga sem sett voru 3. ágúst sl. og hafa legið hér fyrir til staðfestingar frá fyrstu dögum þingsins.
    Ég vil í fyrsta lagi minna á það að um áramótin 1988 -- 1989 hófust viðræður við Bandalag háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna um nýjan kjarasamning. Kröfur bandalagsins komu fram í febrúar 1989. Um þær náðist ekki samkomulag og hófst verkfall hjá háskólamenntuðum mönnum 6. apríl 1989. Þó fram færu óformlegar viðræður síðan þann rúma mánuð sem verkfallið stóð náðist ekki árangur. Varð það til þess að föstudaginn 12. maí ákvað ég að hefja nokkur afskipti af málinu, kallaði þá fulltrúa á minn fund
og urðu síðan formlegir fundir um málið hvítasunnuhelgina, þ.e. laugardag, sunnudag og mánudag. Ég fékk með mér í þær viðræður Þorkel Helgason prófessor, sem hafði ekki komið að þessu máli áður, maður töluglöggur. Einkum fjölluðu þessir fundir um þá kröfu Bandalags háskólamenntaðra manna að fá samanburð gerðan á sínum kjörum og þeim kjörum sem háskólamenntaðir menn hafa almennt í þjóðfélaginu. Mín afskipti voru þó fyrst og fremst þau að ná samkomulagi um að þetta yrði gert á þann máta að ekki þyrfti að raska hinu almenna launakerfi í landinu. Ég lagði strax fram á fyrsta degi tillögu um hvernig það mætti orðast, tillögu um viðbót við 1. gr. Þessi tillaga fór síðan í gegnum allmarga fundi og tók ýmsum breytingum og endaði síðan með þannig samkomulagi frá minni hendi að segja í 1. gr.: ,,Þess skal gætt að umræddar breytingar valdi ekki röskun á hinu almenna launakerfi í landinu``. --- Breyttist síðan í síðustu meðferð með samþykki mínu í: ,,... standa skal að umræddum breytingum með þeim hætti að ekki valdi röskun á hinu almenna launakerfi í landinu``.
    Um þetta náðist fullt samkomulag og var töluvert um það rætt hvernig mætti gera það, m.a. með því að dreifa þeirri leiðréttingu, sem við vildum gjarnan hafa, yfir fleiri ár en þrjú en niðurstaðan varð þrjú ár sem dreift yrði að fá hækkun um t.d. einn launaflokk á ári.
    Á þessum fundum og öðrum, sem ég sótti ekki, var jafnframt mjög mikið rætt um það hvernig að þessu skyldi staðið. Má segja að 2., 3., 4. og 5. gr. samningsins lýsi því hvernig að þessu skuli staðið. Þar er talað um að taka skuli mið af menntun, svo og faglegri, fjármálalegri og stjórnunarlegri ábyrgð og sömuleiðis að sjálfsögðu að taka tillit til þeirra hlunninda sem háskólamenntaðir menn í þjónustu ríkisins og utan þess njóta og gera þar samanburð á. Þetta var allmikið rætt, ekki síst atriði eins og lífeyrissjóður opinberra starfsmanna sem er mjög mismunandi metinn til launagildis, allt frá 3% upp í 14 -- 15% og hefur æði oft reynst mikill farartálmi í fyrri tilraunum til að bera svona saman. Einnig var rætt um ýmis önnur hlunnindi, sem ég ætla ekki að fara að telja hér upp, og aukagreiðslur sem opinberir starfsmenn hafa, eins og ómælda yfirvinnu, sem svo hefur verið kölluð, og

lestrarpeninga og fleira þess háttar.
    Mér varð strax ljóst af þessari umræðu að þarna var um margslungið mál að ræða en um það náðist samkomulag og ákveðið að setja á fót þrjár starfsnefndir sem skyldu fjalla um þessi ýmsu atriði, þ.e. bæði launasamanburðinn, ábyrgðina, hinn faglega samanburð og menntunina sem ég nefndi áðan. Jafnframt voru lögð ákveðin tímamörk á þetta starf allt, þ.e. bæði hvenær tilnefndir skyldu menn í nefndirnar og hvenær þær skuli ljúka störfum. Því var þó ekki treyst að það tækist fullkomlega og var því settur eins konar lokadagur á þetta verk 1. júlí 1990, eins og segir í 5. gr. og þá ákveðið að náist ekki að ljúka þessu verki fyrir þann tíma skuli koma hækkanir sem ég vil, með leyfi forseta, lesa: ,,Hafi nefnd samkvæmt 3. mgr. 2. gr., sem fjallar um launasamanburðinn, ekki skilað lokaáliti 1. júlí 1990 skal greitt upp í væntanlega hækkun þannig að tilfærslur milli launaflokka samkvæmt 3. mgr. skuli vera að jafnaði hálfum launaflokki meiri en lágmark samkvæmt 3. mgr. hefði verið frá 1. júlí 1990. Við endanlega ákvörðun áfanga skal þó enginn lækka í launaflokki.``
    Lágmark samkvæmt 3. mgr. er hækkun um einn launaflokk á ári. Þarna er því um einn og hálfan launaflokk að ræða eins og það var síðar skilgreint og um það urðu nokkrar deilur.
    Í 9. gr. er svo ákvæði um að rísi ágreiningur milli aðila þá skuli vísa honum til úrskurðar þriggja manna nefndar. Sérstaklega er nefnd þar framkvæmd kjarasamanburðar eða túlkun á niðurstöðu samkvæmt 2. gr. eða fyrirkomulagi breytingar samkvæmt 5. gr. Þarna er, sem kom nokkuð við mál síðar, ekki vísað í þessa umræddu setningu í 1. gr. sem ég hóf mál mitt með að lýsa. I. kafli samninganna fjallar sem sagt um þessa leiðréttingu. II. kafli er svo um breytingar á kjarasamningi og færslur milli launaflokka í samræmi við annað í þjóðfélaginu, eins og segir í 12. gr., um ákveðnar hækkanir, 1,5% í hvert sinn, þann 1. sept. 1989, 1. nóv. 1989, 1. jan. 1990 og 1. maí 1990. Hins vegar er í III. kafla ákvæði um endurskoðun á gildistíma þessa samnings. Þar segir í 15. gr., með leyfi forseta:
    ,,Verði almennar breytingar á launakjörum annarra launþega eftir 30. nóv. 1989, þannig að þau hækki umfram launabreytingar samkvæmt 12. gr. geta aðilar krafist breytinga á launaliðum sem því nemur.``
    Þessi grein kom inn á lokaklukkutímum þessarar samningsgerðar og að sjálfsögðu hennar krafist frá hendi BHMR til þess að sú leiðrétting sem kæmi inn fengi þá staðið.
    Ég skrifaði BHMR bréf 16. maí og óskaði eindregið eftir því að til þessa samnings yrði gengið enda yrði samkomulag um ákvæði 1. gr. þar sem segir: ,,Þess skal gætt að umræddar breytingar valdi ekki röskun á hinu almenna launakerfi í landinu.``
    Frá samningi var síðan gengið 18. maí 1989. Það er næst frá því að greina að í febrúar 1990 gerðu aðilar að hinum almenna vinnumarkaði, eins og stundum er svo kallað, með sér kjarasamning sem síðar hefur hlotið nafnið ,,þjóðarsátt``. Kom ríkisvaldið töluvert

þar við sögu, bæði í óformlegum viðræðum við þá aðila sem gerðu þann samning áður en samningur var gerður og ekki síst á lokastigi þess samnings. Þurfti ríkissjóður að leggja töluvert til þess að sá samningur mætti takast sem ég ætla nú út af fyrir sig ekki að fara að rekja hér. En í forsendum þessa samnings segir jafnframt að ein forsendan sé að laun annarra í þjóðfélaginu hækki ekki umfram það sem gert er ráð fyrir í þeim samningi.
    Þetta atriði var að sjálfsögðu rætt við ríkisstjórnina og þá benti ríkisstjórnin, m.a. ég, á þetta ákvæði 1. gr. í kjarasamningi BHMR, að þannig skyldi staðið að að ekki ylli röskun á hinu almenna launakerfi í landinu, eins og ég hef hvað eftir annað farið yfir.
    Það skal tekið fram að aðilar að hinum almenna kjarasamningi drógu sumir hverjir í efa að þetta fengi staðist. Hins vegar verð ég að segja fyrir mitt leyti að ég treysti því fullkomlega. Ég leit svo á að um þetta væri samkomulag milli aðilanna, milli BHMR og fjmrh. og mín persónulega, þar sem ég hef gengið mjög fram í þessu, og væri bindandi fyrir okkur báða. Að sjálfsögðu voru ýmsir lögfræðingar sem höfðu lagt þetta til mála og fullvissuðu mig um að þetta hlyti að standast þar sem báðir aðilar höfðu á það fallist. Vitanlega geta menn spurt hvernig átti þá að standa við samninginn. Til þess voru ýmsar leiðir, t.d. að dreifa hækkuninni yfir lengri tíma þannig að hún kæmi hægt inn og hæfist ekki fyrr en hinn almenni kjarasamningur væri hafinn eða það mætti gera hægar og þá með því að samkomulag næðist við aðila á hinum almenna vinnumarkaði.
    Á það hefur verið deilt að ekki hófust þegar viðræður við BHMR út af þessu atriði. Ég átti viðræður við BHMR mjög fljótlega út af þessu atriði. Reyndar hef ég lýst því að ég taldi vel koma til greina að hefja slíkar viðræður en sérstaklega þeir menn sem að þessari samningsgerð unnu á vegum fjmrn. töldu það ekki nauðsynlegt og reyndar töldu að afar lítill munur kæmi út úr þessum samanburði og leiðréttingin yrði þess vegna mjög lítil og auk þess hlyti þetta ákvæði 1. gr. að halda.
    Ég ætla ekki að rekja hér þessa samanburðarvinnu. Hún tók nokkuð langan tíma þó mjög mikið væri í henni unnið. Það verður að segjast eins og er að það er ánægjulegt að það náðist samkomulag að mestu leyti við BHMR um hvernig ætti að skilgreina ýmsa þætti. Hins vegar tók það allt of langan tíma út af fyrir sig og sumu dálítið ýtt til hliðar, enda afar erfitt að skilgreina t.d. hvernig ætti að meta ábyrgð og gera samanburð á ábyrgð innan ríkiskerfisins og utan. Niðurstaðan varð sú hins vegar með hinn almenna og kannski hvað mikilvægasta þáttinn, þ.e. samanburð á launum, að fela sérstakri könnunarstofu Gallups hér á landi að gera þann samanburð og byggja þar á eyðublaði sem aðilar höfðu komið sér saman um. Það dróst allt of langan tíma að fá svör. Ég er ekki að kenna neinum um, ekki þessari stofu. Ég hygg að því megi kenna um að svörin bárust bara mjög seint inn eins og oft hefur verið. Þegar komið var fram í byrjun júní óttuðust menn að þessum samanburði lyki

ekki fyrir 1. júlí og yrði því ekki hægt að leggja hann til grundvallar í þeim viðræðum sem nauðsynlegt yrði að taka upp við BHMR og hinn almenna vinnumarkað.
    Ég vil taka það fram að á þessum tíma átti ég ýmsar viðræður við forustumenn BHMR um málið. Í fjarveru minni var síðan skrifað bréf 12. júní til BHMR þar sem þessum viðhorfum var lýst og þeirri skoðun ríkisstjórnarinnar að þetta mundi ekki nást fyrir 1. júlí og væru svo miklar hættur á því að röskun yrði á hinu almenna launakerfi að með tilvísun til 1. gr. þá yrði að endurskoða samninginn.
    Það má vel vera, ég er ekkert að draga úr því, að þetta bréf hafi verið einum of fortakslaust og það hefði heldur átt að setjast niður og reyna að ræða það betur. Ég held hins vegar að niðurstaðan hafi legið þá nokkuð ljóst fyrir. M.a. hafði ég, áður en ég fór þá utan, átt viðræður við fulltrúa almenna vinnumarkaðarins og það kom mjög greinilega fram og ákveðnar en mér þótti hafi komið fram áður, að þeir mundu ekki láta yfir sig ganga neinar hækkanir hjá BHMR. Strax og ég kom heim, sem ég held að hafi verið 13. júní, tók ég upp viðræður við bæði BHMR og hinn almenna launamarkað. Þær viðræður voru satt að segja töluvert ítarlegar. Þær leiddu því miður ekki til árangurs og urðu mér mikil vonbrigði. Ég lagði fram ýmsar hugmyndir um hvernig við gætum reynt að að dreifa þessu yfir lengri tíma og hefja leiðréttinguna síðar og ef það yrði einhver leiðrétting í upphafi að hafa hana þá algjörlega í lágmarki, en aðallega að reyna að ljúka þessum samanburði og leggja hann til grundvallar og fresta því að taka umrædd 4,5% sem 5. mgr. 5. gr. gerir ráð fyrir. En um það náðist ekkert samkomulag. Ríkisstjórnin tók því þá ákvörðun að greiða ekki út 1. júlí á forsendum 1. gr. samningsins.
    Ég þarf út fyrir sig ekki að lýsa því að þessu var vísað til Félagsdóms og dómur gekk 23. júlí og var þá að sjálfsögðu greitt út.
    Á fjölmörgum fundum með aðilum vinnumarkaðarins kom fram í fyrsta lagi að ASÍ og BSRB mundu gera kröfu til sömu hækkana. Á fundi hjá VSÍ og VMS um svipað leyti og þetta mál kom fyrir Félagsdóm var niðurstaða þeirra sú að þeim væri ekki annað kleift en að standa við forsendur kjarasamningsins og samþykkja hækkun upp á 4,5% yfir allan launamarkaðinn.
    Ég held að það hljóti hverjum manni að vera augljóst að af þessu gat ekki hlotist nema hinir mestu erfiðleikar. Það má að vísu deila um það hvernig framhaldið hefði orðið. Ég lét strax skoða framhaldið með tilliti til allra ákvæða kjarasamninganna og Þjóðhagsstofnun endurtók það fyrir mig nýlega og telur að af því hefði getað orðið verðbólga sem væri frá 20 -- 46% eftir því hve hratt ákvæði 12. gr. kjarasamnings BHMR virkaði og hve hratt aðilar vinnumarkaðarins samþykktu launahækkun á móti.
    Nú vil ég taka það skýrt fram að ég ímynda mér ekki að svona hefði fram haldið. Að sjálfsögðu hefði kjarasamningunum verið sagt upp. Það er spurning hve fljótt. En hitt má svo um deila hvort ástandið

hefði þá verið eitthvað mikið betra með alla kjarasamninga lausa. En að sjálfsögðu hefði þetta ekki verið látið gerast. Inni í þessu eru svo fjölmörg vafaatriði, t.d. breyting á gengi. Ég hræddur um að t.d. sjávarútvegurinn hefði eftir 4,5% launahækkun verið nokkuð stífur á því að fá raungengi lækkað og allir hv. alþm. þekkja það að slíkt leiðir náttúrlega strax til verðhækkunar. Þessi ríkisstjórn hefur fylgt þeirri stefnu að reyna að halda raungenginu sæmilega raunhæfu. (Gripið fram í.) Það hefur ekki hækkað mikið en kannski aðeins. Hins vegar hefur vöruverð erlendis hækkað svo mikið, hv. þm., að það hjálpar til, það viðurkenni ég, að halda þessu jafnvægi.
    Það hefðu orðið þarna ófyrirsjáanlegar afleiðingar en vafalaust mjög erfiðar. Ég lagði því fram í ríkisstjórninni tillögu um málamiðlun í þessu máli strax eftir að félagsdómur var fallinn. Hún var samþykkt þar og fólst í fáum orðum í því að launahækkunum þessum yrði frestað, framhald yrði á öllum samanburðinum og samanburðurinn kæmi síðan til framkvæmda í áföngum eftir 1. sept. 1991.
    Ég vil taka það fram að aðilar hins almenna vinnumarkaðar voru ekki samþykkir þessari málamiðlun, enda ekki út af fyrir sig lagt fyrir þá þó málin væru öll rædd. En ég leit svo á að ef samanburðurinn lægi fyrir þá mætti rökræða hann almennt og menn þá væntanlega sannfærast eða sannfærast ekki um hvort hann væri réttur og kannski gera á honum þær leiðréttingar, þannig að hann hefði fengið ítarlega meðferð. Ég á erfitt með að trúa því að hinn almenni vinnumarkaður sætti sig ekki við samanburð ef hann er nógu vel unninn og leiðréttingar á þeim mismun sem sannarlega er á milli háskólamenntaðra manna hjá ríkinu og á hinum almenna markaði. Á þetta reyndi mjög helgina fyrir setningu bráðabirgðalaganna en því miður tókust ekki samningar. Það kom fram hjá BHMR að það kæmi til greina að breyta 15. gr., taka upp rauð strik í staðinn, en það sýndist okkur við skjóta skoðun vera tiltölulega lítil bót. Rauðu strikin geta verið æði hættuleg. Okkur sýndist að strax hefði farið upp fyrir þau ef 4,5% launahækkun hefði gengið yfir allan vinnumarkaðinn.
    Ég vil taka það fram að ég hugleiddi það mjög að kveðja saman þing og það var mín fyrsta hugmynd í þessu máli, en vildi þó enn gera úrslitatilraun til að ná samningum. Þegar það tókst ekki þarna um helgina lá fyrir að vinnuveitendur mundu hefja útborgun á 4,5% í lok þeirrar viku. Ég taldi mér ekki fært að bíða eftir því að það gerðist því þá hefði verið miklu erfiðara að taka til baka af öllum vinnumarkaðinum yfir línuna þessa 4,5% hækkun. Því var ákveðið að setja þau bráðabirgðalög sem liggja hér fyrir til staðfestingar.
    Um bráðabirgðalögin sjálf vil ég það segja að að sjálfsögðu voru þau samin af lögfræðingum, af því það voru nú svo margir háttvirtir lögfræðingar í Nd. sem töluðu um málið, og að sjálfsögðu farið vandlega yfir öll atriðin sem snerta stjórnarskrá og eignarrétt o.s.frv. Bráðabirgðalögin eru í fyrsta lagi almenn fyrir alla

kjarasamninga. Þeir eru bundnir. Uppsagnarákvæði þeirra er bundið við það sem kjarasamningar ASÍ og VSÍ og VMS annars vegar og BSRB og ríkisins hins vegar gera ráð fyrir. Hins vegar er hér ákvæði sem verður að vekja athygli á sem mér finnst hafa valdið einhverjum misskilningi. Það segir í 3. gr.: ,,Aðilum að kjarasamningi sem ekki kveður á um launanefnd er heimilt að semja um stofnun og verksvið slíkrar nefndar. Verði slíkur samningur gerður fer eftir ákvæðum 1. mgr. frá þeim tíma.`` Þetta er mikilvægt ákvæði vegna þess að það eru launanefndirnar í kjarasamningum ASÍ, VSÍ og VMS og kjarasamningi BSRB og ríkisins, sem ákveða um uppsögn kjarasamnings og breytingar á honum eins og gerst hefur t.d. núna þegar launin á hinum almenna markaði hækkuðu aðeins meira en gert hafði verið ráð fyrir í kjarasamningum. Að öðru leyti er kveðið svo á að í öllum þeim samningum sem hafa verið gerðir skuli hækkanirnar vera eins og þær eru ákveðnar í hinum almennu samningum, þ.e. 1. des. 1990 2%, 1. mars 1991 2,5% og 1. júní 1991 2%, með þeim hækkunum og breytingum sem launanefndirnar gera ráð fyrir. Þetta eru almenn ákvæði fyrir alla þá sem hafa kjarasamninga og það eru töluvert margir sem slíka samninga hafa en ekki hafa launanefndir. Þau ákvæði sem snúa fyrst og fremst og einvörðungu reyndar að BHMR eru síðan í 4. gr. þar sem 5. og 15. gr. kjarasamningsins eru felldar úr gildi. Þ.e. í fyrsta lagi 5. gr. sem kveður á um 4,5% hækkun hafi ekki samanburðurinn náðst og 15. gr. sem kveður á um víxlhækkun og tekið fram að í staðinn fyrir þessi 4,5% skuli BHMR hljóta sömu laun og kveður á um í 2. gr. sem er hækkun upp á samtals 6,5% en kemur að sjálfsögðu nokkuð síðar. Það var vitanlega gerður samanburður á hvað þetta þýddi og það er rétt að þessi 6,5% miðað við að þau koma síðar er aðeins minni hækkun þegar tekið er yfir þennan tiltölulega skamma tíma, eða til 1. sept. 1991, sem hinn almenni kjarasamningur nær. En þar munar ekki ýkja miklu og vekur upp spurningar um það að ef kjarasamningum hefði öllum verið sagt upp eftir að 4,5% hefðu gengið yfir alla línuna þá standa menn út af fyrir sig með svipaða launahækkun eftir það sem hér er gert.
    Ég sé út af fyrir sig ekki ástæðu til þess að hafa um þetta lengra mál. Ég vil taka það fram að lokum að þetta var algert neyðarúrræði og mat ríkisstjórnarinnar að hér yrði neyðarástand ef þetta yrði ekki gert. Það er nú svo í þjóðfélaginu að stundum verða jafnvel mjög mikilvægir hagsmunir að víkja fyrir öðrum sem eru enn þá mikilvægari. Og ég leyni ekki þeirri skoðun minni að stöðugleiki í efnahagslífinu er það. Hvorki BHMR eða nokkrir aðrir hefðu borið neitt úr býtum annað en verðbólgu ef þessi víxlverkun hefði farið af stað og þá hefði ekki orðið úr neinum samanburði milli BHMR og annarra háskólamenntaðra manna, með öðrum orðum þeir hefðu staðið í sömu sporunum að þessu leyti launalega og samanburðarlega en langtum, langtum verr vitanlega efnahagslega. Mér þótti það afar leitt og harma það mikið að ekki tókust samningar eins og ég lagði mig mjög fram um

að ná.
    Þetta mál var að sjálfsögðu lagt fyrir þing í upphafi þess, eins og stjórnarskrá gerir ráð fyrir. Ég legg á það mikla áherslu að það fái skjóta meðferð í gegnum þingið. Það er vitanlega andi þessa ákvæðis stjórnarskrárinnar að það liggi ekki hér allt of lengi. Ég á von á því og þakka reyndar fyrir þann samstarfsvilja sem mér finnst koma fram hjá ýmsum nefndarmönnum um að taka málið strax til meðferðar og skoða það og vona að það komist fljótlega aftur til deildarinnar.
    Ég gerið það að tillögu minni að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.