Launamál
Þriðjudaginn 18. desember 1990


     Halldór Blöndal :
    Herra forseti. Ég hef áður vakið athygli á því að einstakir ráðherrar láta mjög undir höfuð leggjast að gegna þeirri þinglegu skyldu sinni að vera viðstaddir umræður. Þess er skemmst að minnast að nú við 2. umr. fjárlaga þegar umræða hafði staðið í rúma fimm klukkutíma var enginn ráðherra í húsinu nema fjmrh. Þá óskaði ég eftir að fá að ræða við hæstv. samgrh. og hæstv. menntmrh. og mér var sagt að það næðist í samgrh. en ekki menntmrh. Það dugði mér ekki og var það auðvitað nægilegt tilefni til þess að ljúka umræðu. Við erum stödd hér í efri deild. Fjarverandi er hæstv. sjútvrh. sem fór með embætti fjmrh. á viðkvæmum tíma í sumar og gaf þá yfirlýsingu um að ríkisstjórnin mundi standa við dóm Félagsdóms. Hann telur sig ekki þurfa að vera staddur hér í deildinni á meðan stjórnarandstæðingar eru að taka til máls og skýra sín viðhorf. Í þessari hv. nefnd á sæti ráðherra frá Borgfl. og ég man ekki betur en að sá hæstv. ráðherra sem fer með félagsmál hafi gætt þess mjög ef sá ráðherra, meðan hann var þingmaður, taldi að með einhverjum hætti mætti koma af stað leiðindum í sambandi við vinnudeilur væri sá ráðherra staddur í þinginu og málóða mjög. Ég vil því aðeins vekja athygli hæstv. forseta á því að þetta er venjuleg staða. Sá ráðherra er við sem í þrengsta skilningi verður að vera viðlátinn á meðan umræðan fer fram, hinir láta ekki sjá sig. Ég vil líka vekja athygli á því að þeir nefndarmenn sem eiga sæti í fjh.- og viðskn. telja sig ekki þurfa að sitja hér í deildinni og hlýða á mál manna. Má segja að það sé lítil tilbreyting í fjh.- og viðskn. þótt fulltrúar Alþfl. og Framsfl. séu lítt við meðan efnisatriði eru rædd. Gildir kannski einu.
    Ég hafði hugsað mér að víkja nokkrum orðum að hæstv. fjmrh. í minni ræðu. Það er svo eftir skipulagi þingsins að hann skuli á sama tíma og þetta mál er hér til umræðu vera að ræða skattamál. Má kannski segja að það sé mér að kenna því að ég bað um frest á umræðunni sl. laugardag og get af þeim sökum ekki við því sagt þó að hann sé ekki við nú. Á hinn bóginn hygg ég að óhætt sé að fullyrða að óverjandi sé hversu seint það mál er lagt fyrir Alþingi sem nú er til umræðu í neðri deild, skattamál sem ætlast er til að sé rætt í nefndum þingsins, bæði í efri og neðri deild á morgun, sem spurt hefur verið um hvort fjh.- og viðskn. sé ekki reiðubúin að taka til efnislegrar meðferðar áður en málið hefur verið afgreitt frá nefnd í hinni fyrri deild sem er auðvitað einstakt og lýsir betur en margt annað þeirri lausung sem er á þinghaldinu nú og því kæruleysi sem einkennir ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar. Ég hef stundum sagt að kannski sé skýringin á því hversu menn láta sér mjög á sama standa þessa ríkisstjórn að menn eru orðnir vanir því að það skipti svo sem engu máli hvað hæstv. forsrh. segir, hann slær úr og í og menn vita að ákvarðanir standa ekki til morguns. Þetta gengur einhvern veginn bara svona einhvern veginn. Og það mál sem hér er til umræðu er vitaskuld gott dæmi um þetta.

    Við skulum aðeins rifja upp söguþráðinn. Hann er þessi: Opinberir háskólamenntaðir menn fóru í verkfall. Þeir gerðu samning við ríkisstjórnina. Svo mikið var haft við að hæstv. forsrh. mætti á staðnum til þess að blessa samningsgerðina. Því var lýst yfir að þetta væri tímamótasamningur. Það kom svo ekki í ljós fyrr en í Morgunblaðinu 19. ágúst í viðtali við hæstv. forsrh. að hann ætlaði sér aldrei að efna samninginn og mun ég víkja að því síðar. En á þessari stundu létu þeir taka mynd af sér bæði fjmrh. og forsrh. af því að þeim þótti svo vænt um það að þeir voru búnir að gera samning við háskólamenntaða ríkisstarfsmenn sem þeir ætluðu sér að standa við. Og það var tímamótasamningur. Það var haft sérstakt orð á því í þessu samhengi að fyrri fjármálaráðherrar hefðu ekki staðið sig nógu vel, frjálshyggjuráðherrarnir, og nú hefur verið upplýst að slík var vináttan milli formanns bandalags háskólamanna og fjmrh. að þeir komu sér saman um að skipta um formann í launanefnd ríkisins til þess að allt væri nú innsiglað og allt færi nógu vel fram. Þetta er fyrsti kafli í þessari samningsgerð.
    Næst gerist það í öðrum kafla þessarar þróunar sem er undanfari bráðabirgðalaga að skipaðar eru, eftir því sem hæstv. forsrh. sagði hér áðan, þrjár viðræðunefndir til þess að fjalla um einstök efnisatriði væntanlegra samninga. Ein átti að sjá um faglegan samanburð, ein um launasamanburð og sú þriðja um ábyrgðir, hvað sem það nú þýðir. Síðan gerist það að aðilar vinnumarkaðarins koma sér saman um þann samning 1. febr. sem kenndur hefur verið við þjóðarsátt. Eins og ég mun síðar víkja að felur sátt í sér að allir leggi sitt af mörkum og sátt felur líka í sér framhald. Menn sættast ekki til þess að verða svo jafnósáttir á eftir, heldur reyna menn að ná einhverjum sáttum sem séu til frambúðar, nái fram yfir t.d. 1. sept.
    Ég man eftir því þegar ég var ungur að sumir héldu að sá væri munur á borgaralegum hjónaböndum og kirkjulegum að kirkjulegum hjónaböndum væri ætlað að standa en hins vegar væri það einkenni hinna borgaralegu hjónabanda að hjónakornin gætu endurskoðað afstöðu sína að einhverjum ákveðnum árafjölda liðnum. Ég man ekki hvort það voru sex ár sem þjóðtrúin sagði. Ríkisstjórnin umgengst þjóðarsáttina þannig að hún eigi að standa til 1. sept. og svo sé allt í lagi þó að menn fari saman að nýju.

            Þessi veisla og vinahót
            verða ei nema prettir.
            Eftir skammvinn skálamót
            skyrpa þeir eins og kettir,

sagði Eiríkur Einarsson frá Hæli einu sinni. Ég held að alvaran á bak við þjóðarsáttina hjá aðilum vinnumarkaðarins sé litlu meiri en svo að hún rúmist innan þessarar vísu. En ríkisstjórnin hefur á hinn bóginn lítið lagt á sig til þess að þessi þjóðarsátt náist.
    Það sem næst gerðist var svo það að aðilar vinnumarkaðarins semja og ná vissum forsendum sem ég

mun koma að síðar. Síðar hefur komið í ljós að hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh., ég held að það hafi ekki komið fram í sjónvarpsfréttinni, handsöluðu það við formann Vinnuveitendasambandsins að ákvæði samnings háskólamenntaðra manna skyldu að engu gerð.
    Ég ítreka þá fyrirspurn sem kom frá hv. 6. þm.
Vesturl. Danfríði Skarphéðinsdóttur, hvort hæstv. forsrh. rekur minni til að hann hafi handsalað þetta við forseta Vinnuveitendasambandsins. Það er nauðsynlegt að það komi skýrt fram. Ég hef ekki lesið yfir það sem hæstv. forsrh. hefur sagt um þetta mál í Nd. Má vera að hann skýri þar sína hlið á þessu máli en þar sem forseti Vinnuveitendasambandsins hefur gert þetta handsal opinbert er nauðsynlegt að fram komi hvað ríkisstjórnin var að handsala, hvað hún taldi sig vera að gera. Þar var handsalað að ekki yrði staðið við samninginn við ríkisstjórnina því eins og hæstv. forsrh. hefur sagt ætlaðist hann aldrei til þess að þennan samning þyrfti að efna. Hann taldi að þeir fyrirvarar væru í 1. gr. samningsins sem dygðu til þess að ekki þyrfti að efna samningana.
    Hæstv. forsrh. var spurður margsinnis á síðasta þingi hvernig hann liti á þessa samningsgerð og hann sló úr og í, talaði þannig að margt mætti skilja af orðum hans, en augljóst var á hinn bóginn að hann gerði sér grein fyrir að bæjarstjórnarkosningar voru í lok maímánaðar og skildi að það var hættulegt spil að lýsa því þá þegar yfir að hann hugsaði sér aldrei að efna samninginn. Síðan rennur upp júnímánuður. Þá eru fjölmargir menn, bæði stjórnmálamenn í stjórnarandstöðu, fulltrúar vinnumarkaðarins og einstakir lögfræðingar, búnir að aðvara hæstv. forsrh. Hann lætur ekki segjast. Hann lætur málið ganga til Félagsdóms. Þá gerist sá merkilegi hlutur, eða ekki merkilegi, að allur dómurinn, hver einasti maður, líka sá sem ríkisvaldið hafði tilnefnt, varð sammála um að ríkisstjórninni bæri að greiða févíti vegna þess að ríkisstjórnin hafði ekki efnt sinn hluta af samningnum. Og hvað á ég við með févíti? Ég á við það að ríkisstjórnin samdi um það að greiða 4,5% launahækkun til allra háskólamenntaðra manna í þjónustu ríkisins ef þær tafir yrðu á samningagerðinni að niðurstaða lægi ekki fyrir á tilteknum tíma og að dráttinn á efndunum mætti rekja til ríkisstjórnarinnar. Og það var þetta sem gerðist. Þessi 4,5% hækkun sem verið er að tala um er þess vegna ekki samningur. Það er ekki samningshækkun í þeim skilningi að hún sé niðurstaða af þeim launasamanburði eða kjarasamanburði sem fyrirheit voru gefin um að gerður yrði í samningunum vorið 1989, heldur var þetta févíti sem dæmt var á ríkisstjórnina.
    Við getum tekið samanburð: Vegagerð ríkisins gerir iðulega samning við verktaka. Þá er þessum verktökum gert að skila verkinu á tilteknum degi. Ef verktaki getur ekki efnt það verður hann að greiða dagsektir þangað til verkinu er lokið og búið að taka það út. Þessi 4,5%, sem Félagsdómur dæmdi á ríkisstjórnina, eru þess vegna dagsektir vegna vanefnda sem ríkisstjórnin hefur gerst sek um. Þetta er févíti sem ríkisstjórninni ber að standa skil á. Þess vegna er ekki hægt að skjóta sér undan með því að reyna að halda því fram að efni samningsins, þær launahækkanir sem samningurinn gerði ráð fyrir, hafi reynst ofviða efnahagskerfi landsins. Þetta er mikilsvert atriði, hæstv. forsrh.
    Nú er það svo að hæstv. sjútvrh. lýsti því yfir að staðið yrði við dóminn. Hæstv. forsrh. segir í viðtali við Morgunblaðið 19. ágúst, með leyfi hæstv. forseta: ,,Ég hef ekki lagt það í vana minn að deila við dómarann. Félagsdómur taldi ekki blasa við þá hættu að samningurinn mundi raska hinum almenna launagrundvelli. Það sannaðist hins vegar strax á eftir þegar VSÍ og VMS töldu sér skylt að bjóða sömu launahækkun. Það var nákvæmlega það sem við byggðum á þegar við fórum fram á að BHMR féllist á að fresta þessum leiðréttingum.``
    Við tökum eftir því í þessum tilvitnuðu orðum forsrh. að hann varast að kalla hlutina sínum réttu nöfnum. Orðið ,,leiðréttingar`` sem hann talar um er ,,févíti`` í dómsorðinu. Þessi 4,5% voru ekki leiðrétting á launakjörum opinberra starfsmanna því það var vitaskuld rétt sem hæstv. forsrh. sagði áðan, að kjör háskólamenntaðra manna í þjónustu ríkisins eru mjög mismunandi. Ég þori að fullyrða að sumir háskólamenntaðir menn í þjónustu ríkisins séu síst vanhaldnir ef borið er saman við sambærileg störf hjá einkaaðilum. Á hinn bóginn held ég að það sé öldungis ljóst að aðrir eru vanhaldnir, sérstaklega ungt fólk, ungt og vaskt fólk sem er að koma inn á vinnumarkaðinn og verður að sæta mjög --- ég vil segja rýrum kjörum hjá ríkisvaldinu. En af einhverjum undarlegum ástæðum kýs hæstv. forsrh. að fara þarna rangt með, kalla leiðréttingar það sem í raun er févíti.
    Það sem næst gerist er svo það að aðilar vinnumarkaðarins lýstu því yfir að þeir mundu hækka laun hjá sínum viðsemjendum um þessi 4,5% ef dómsorðið stæði. Og þá voru gefin út bráðabirgðalög.
    Í viðtali við Dagblaðið hinn 13. des. sl. segir hæstv. forsrh.: ,,Ég ræddi við fjölmarga lögfræðinga og spurði þá álits á bráðabirgðalögunum. Af þeim hópi mættu fjórir á fund ríkisstjórnarinnar. Þeir skiluðu ekki skriflegum álitsgerðum, það sama gildir fyrir mig, en ég vil ekki nefna þá.``
    Mér er sagt að hæstv. forsrh. sé búinn að nefna a.m.k. einn þessara manna, Jón Sveinsson lögfræðing, sem vinnur í forsrn. og ég vil nú inna hann eftir því hverjir hinir lögfræðingarnir eru sem hann kallaði fyrir sig. Ég tek það alveg skýrt fram að ég sætti mig ekki við annað en að hæstv. forsrh. svari hverjir þessir lögfræðingar voru, nafngreini þá, og gefi upplýsingar um hvert var álit hvers og eins þeirra ef svo ber að líta á að þar sé um opinber plögg að ræða. Af þeim sökum hef ég, hæstv. forseti, skýrt formanni fjh.- og viðskn. frá því að ég muni kalla hæstv. forsrh. á fund nefndarinnar þar sem ég muni spyrja hann um þessi atriði og önnur þau atriði sem mér finnst nauðsynlegt að dregin séu fram í dagsljósið í sambandi við þann dæmalaus aðdraganda sem var að þeim bráðabirgðalögum sem hér eru til umræðu. Auðvitað mun á það

reyna hvort hæstv. forsrh. muni góðfúslega svara þeim fyrirspurnum sem fyrir hann verða lagðar í þingnefnd. Það er á hinn bóginn alveg ljóst að hæstv. forsrh. ber skylda til að mæta á þingnefndarfundi enda hef ég um það upplýsingar að hann mun verða greiðlega við þeirri beiðni.
    Á hinn bóginn hlýt ég að taka undir þau ummæli sem voru viðhöfð í forustugrein Morgunblaðsins sl. sunnudag, að sú spurning hljóti að vakna hvort ekki verði að setja skýr lagaákvæði um upplýsingaskyldu einstakra stjórnvalda, einstakra ráðherra við þingnefndir. Sú dæmalausa framkoma hæstv. sjútvrh. að synja þingnefndum um upplýsingar sem farið yrði með sem trúnaðarmál, upplýsingar sem liggja fyrir í opinberum gögnum, í bréfum sem sjútvrn. hefur sent einstökum mönnum úti á landi, skýrslu sem liggur fyrir í a.m.k. tveimur skrifstofum úti í bæ sem við vitum um og kunnugt er að farið hefur um hendur manna utan ráðuneytis. Ég vil ekki trúa því að hæstv. forsrh. synji upplýsinganna í fjh.- og viðskn. en það er nauðsynlegt að þær komi fram.
    Nú skulum við, hæstv. forseti, athuga hver eru rökin fyrir þessum bráðabirgðalögum. Rökstuðningur þeirra er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Forseti Íslands gjörir kunnugt: Forsætisráðherra hefur tjáð mér að eftir ákvörðun Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambands samvinnufélaganna frá 31. júlí sl., að veita viðsemjendum sínum sömu hækkun launa og félagar í Bandalagi háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna hljóta, og þar sem tilraunir til samninga við BHMR hafa ekki borið árangur beri brýna nauðsyn til að grípa þegar til ráðstafana til þess að koma í veg fyrir yfirvofandi sjálfvirkar víxlhækkanir launa og verðlags og treysta þau efnahagslegu markmið sem ríkisstjórnin og aðilar vinnumarkaðarins hafa komið sér saman um og lögð voru til grundvallar almennum kjarasamningum í byrjun þessa árs. Þá er nauðsynlegt að jafnræði ríki í þróun launataxta og kaupmáttar á milli hinna ýmsu stétta í landinu. Fyrir því eru hér með sett bráðabirgðalög samkvæmt 28. gr. stjórnarskrárinnar á þessa leið`` o.s.frv.
    Þeir sem lesa þennan rökstuðning með bráðabirgðalögunum átta sig undir eins á því að hann á ekki við þau lög sem hér liggja fyrir. Hann á við bráðabirgðalög sem sett yrðu á aðila vinnumarkaðarins. Það eru þeir sem gefa þá yfirlýsingu sem raskar því launajafnvægi sem áður hafði verið. Það má þess vegna ætla að samkvæmt ... Það er satt að segja mjög erfitt að reyna að tala um viðkvæman þátt í sambandi við þessi lög og annars vegar er fulltrúi Framsfl. í fjh. - og viðskn. sem ekki þarf að hlusta og hins vegar er hæstv. forsrh. sem ekki þarf heldur að hlusta. Það eru þeir tveir fulltrúar Framsfl. sem koma að málinu, annar sem forsrh. og hinn sem nefndarmaður. Það er svo sem eftir öðru. (Gripið fram í.) Ég er búinn að sýna fram á að þessi inngangur að bráðabirgðalögum á ekki við lögin. Það er engu líkara en hæstv. forsrh. hafi verið með tvenn lög í takinu, annars vegar til að setja á aðila vinnumarkaðarins og hins vegar til að setja á háskólamenntaða menn í þjónustu ríkisins en

í flýtinum hafi hann klippt vitlaust saman. Inngangurinn sem átti að vera á hinn almenna vinnumarkað lenti ofan á lögunum á háskólamenntuðum mönnum því að vitaskuld er þetta ekki rökstuðningur fyrir því að taka til baka þau févíti sem ríkissjóður hafði verið dæmdur til að greiða háskólamenntuðum mönnum vegna vanefnda samningsins.
    Ég hygg að þetta sé ekki ágreiningsefni að í þessum inngangi ríkisstjórnarinnar er færður skýr rökstuðningur fyrir því að yfirlýsing Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambands samvinnufélaganna hafi vakið upp þá hættu að hér mundu ganga á víxl hækkanir til háskólamenntaðra manna og aðila vinnumarkaðarins og nú yrði að klippa á þessar hækkanir. Og þá er það náttúrlega spurningin: Hverjir eru það sem stóðu að þessari yfirlýsingu og þessum bráðabirgðalögum um mánaðamótin júlí/ágúst? Er hugsanlegt að þeir sem stóðu að bráðabirgðalögunum hafi verið þeir sem sömdu við háskólamenntaða menn, sömu mennirnir? Og er hugsanlegt að hinir sem gáfu yfirlýsinguna um að þessi launahækkun skyldi ganga út í gegnum allt launakerfið séu þeir sem handsöluðu það við hæstv. forsrh. að eyðileggja kjarasamninginn við bandalag háskólamanna? Það er svo. Þeir menn sem stóðu að bráðabirgðalögunum og stóðu að yfirlýsingunum um að láta launahækkanirnar ganga yfir vinnumarkaðinn eru sömu menn og handsöluðu það 1. febr. að hækkanir skyldu ekki ganga fram til háskólamenntaðra manna. Þannig er nú það.
    Þá er best að reyna næst að átta sig á því út á hvað þjóðarsáttin gekk í stuttu máli. Hún gekk í stuttu máli út á það að aðilar vinnumarkaðarins komu sér saman um að fara sér hægt í launahækkanir ef það mætti verða til þess að hægt yrði að halda kaupmætti út árið sem væri um 1% lakari en kaupmátturinn hafði verið 1. jan. sl. Samkvæmt þeim upplýsingum sem nú liggja fyrir er svo að sjá að kaupmáttur ráðstöfunartekna muni verða 3,5% lakari á árinu 1990 en hann var á árinu 1989, en þá var hann 10% lakari en hann hafði verið næsta ár á undan. Einhvers staðar hef ég séð þá tölu að búist sé við að kaupmáttarstigið á þjóðarsáttartímanum, frá febrúar til áramóta, sé um 1,3 -- 1,5% lakara
en í janúarmánuði sl. Á hinn bóginn hefur verið stefnt að því að reyna að ná þessum kaupmætti til baka á næsta ári. Við getum þá aðeins reynt að átta okkur á því hvernig þau mál standa.
    Við eigum nokkrir sæti í nefnd sem skipuð hefur verið af hæstv. samgrh. til þess að gera tillögur um langtímaáætlun í vegamálum. Þeir Ásmundur Stefánsson, forseti Alþýðusambandsins, og Þórarinn V. Þórarinsson, framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambands Íslands, hafa báðir komið tvívegis á fund nefndarinnar og vakið athygli á því að þau markmið sem Vegagerðin setur sér samkvæmt fjárlögum séu umfram það sem samkomulag hafði orðið um milli þessara aðila og ríkisstjórnarinnar þegar gengið var frá hinni svokölluðu þjóðarsátt. Samkvæmt áætlun fjárlaga er gert ráð fyrir því að bensíngjald og þungaskattur hækki um 5% 1. jan., 5% 1. maí, ef ég man rétt, og

5% 1. sept. Það er gert ráð fyrir því að þessir kostnaðarliðir heimilanna hækki um 7 -- 8% meira en laun í landinu. Það hefur verið reynt að meta hvað þetta þýðir og niðurstaðan er sú að einungis á þessum eina lið ætli ríkisstjórnin sér að taka til baka þriðjunginn af þeim kjarabótum sem launþegar í landinu höfðu vænst að geta fengið á næsta ári. Bara þarna á þessum eina stað, hæstv. forsrh., telja þeir forseti Alþýðusambandsins og Þórarinn V. Þórarinsson, framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambands Íslands, að ríkisstjórnin taki til baka þriðjunginn af þeirri kaupmáttaraukningu sem þeir höfðu vænst að fá á næsta ári. Þessir menn segja að ríkisstjórnin verði að skilja það að þeir séu að reyna að ná verðbólgunni niður og nú verði að horfa á tölurnar öðruvísi en áður.
    Við getum tekið annan samanburð. Samkvæmt þjóðarsátt er gert ráð fyrir því að laun hækki frá 1. des. sl. fram á mitt næsta ár í kringum 8%. Í ljósi þess að kaupmáttaraukning á þessu tímabili verður töluvert innan við 1% sjáum við að þarna er verið að búa til veruleg verðbólgutilefni sem eru innbyggð í þjóðarsáttina sjálfa, í grundvöll hennar. Og ef við hugleiðum það sem hæstv. forsrh. hefur viljað kalla grundvöll sinnar efnahagsstefnu, að hafa gengið svo lágt skráð að útflutningsatvinnuvegir standi undir sér, kemur í ljós að gengið hefur hækkað töluvert að undanförnu. Svo er komið að fiskvinnslan er rekin með umtalsverðum halla og fyrirsjáanlegt ef þessar hækkanir ganga fram að annað tveggja gerist: Gengisfelling verði óhjákvæmileg eða hér komi harkalegri hágengisstefna en nokkru sinni fyrr með öllum þeim afleiðingum sem slíkt hefur. Ég geri mér að vísu grein fyrir því að hæstv. forsrh. fæst ekki til að tala lengra fram en til 1. sept. á næsta ári. Hann ætlar að reyna að hanga fram yfir kosningar og er svo kærulaus fyrir framhaldinu ef honum skyldi takast að hanga í stólnum, en það er samt óhjákvæmilegt að spyrja hann hvernig hann hyggist bregðast við þessu ef hann sitji áfram við völd. Telur hann að gengið verði óhreyft, þoli þetta? Og hversu miklar launahækkanir telur hann að verði hinn 1. sept. nk.? Við skulum líta á annan þátt þjóðarsáttarinnar.
    Hæstv. forsrh. lofaði því að raunvextir mundu lækka á árinu. Það átti að verða hlutur hæstv. forsrh. í þjóðarsáttinni. Eins og ég sagði áðan, hæstv. forsrh., þá er það í hverri sáttargjörð að einhverjir leggi eitthvað fram, og hlutur hæstv. forsrh. voru raunvextirnir. Þeir áttu að lækka. Hversu oft höfum við ekki heyrt hann tala með fyrirlitningu um frjálshyggjuna? Einu sinni sagði hann: Allt er betra en íhaldið. En hæstv. forsrh. er mikill hugmyndasmiður og hefur mikla fjölbreytni í slagorðum. Nú segir hann: Allt er betra en frjálshyggjan. Má segja að þetta sýni óvenjumikla hugmyndaauðgi hjá honum að geta breytt svona slagorðinu.
    Á árinu 1989 voru raunvextir hér á landi 7,7%. Hver ætli spáin sé á þessu ári? Samkvæmt nýlegu plaggi sem ég hef frá Þjóðhagsstofnun er spáin 8% á þessu ári en hún er ekki rétt. Samkvæmt upplýsingum sem við fengum frá Seðlabanka og Þjóðhagsstofnun í gærmorgun eru raunvextir nú komnir upp í 8,2 -- 8,3% og spáin er að á næsta ári fari þeir a.m.k. upp í 8,5%. Og hver er ástæðan? Ástæðan er sú að ríkisvaldið eykur mjög þensluna á lánamarkaðnum hér innan lands með geigvænlegum halla á ríkissjóði. Það sem hefur forðað því að raunvextir séu hærri en þeir raunverulega eru núna er einungis það að atvinnureksturinn hefur haldið að sér höndum. Þær lánsumsóknir sem koma frá honum í hina ýmsu sjóði eru yfirleitt skuldbreytingarlán vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar, en lán til nýfjárfestinga og lán til atvinnuaukningar eða atvinnuþróunar eru miklu minna áberandi. Þannig er það. Fulltrúar Seðlabanka og Þjóðhagsstofnunar voru því sammála um að 8,5% væru svo sem lágmark, en ef atvinnuvegirnir og fyrirtækin tækju við sér mætti búast við því að raunvextir yrðu enn hærri. Og þá skulum við athuga málið, hvort verið geti að raunvextir séu eftir sem áður lægri hér á landi en í nágrannalöndum. En það er nú síður en svo. Það kemur sem sagt í ljós að raunvextir eru hæstir hér af þeim löndum sem nefnd voru og upplýsingar lágu fyrir um.
    Hæstv. forsrh. og ríkisstjórn hans eru nú að beita sér fyrir því að svokölluð húsbréf leysi af hólmi þau lán sem áður gengu í gegnum Byggingarsjóð ríkisins. Raunvextir af slíkum lánum --- ég veit ekki hvað við eigum að segja að þeir séu, 7 -- 8%, það fer nokkuð eftir afföllum. Það var upplýst að í flestum ríkjum Bandaríkjanna eru raunvextir af íbúðalánum til langs tíma neikvæðir þegar tekið er tillit til skattalaga. Svipaða sögu er að segja um Danmörku og í Englandi sömuleiðis. Vextir þar hjá hinni vondu Thatcher eru miklu lægri, í landi frjálshyggjunnar og Thatcherismans, miklu, miklu lægri en hjá konungi félagshyggjunnar, Steingrími Hermannssyni. Í konungsríki hans fara raunvextirnir hækkandi. Það vantar ekki. Að vísu er verið að reyna að búa til svona einn og einn hóp af fólki sem á að njóta sérstakra forréttinda og það er verið að reyna að lækka vextina hjá þessu fólki. En allur almenningur verður að búa hér við miklu lakari og verri vaxtakjör en í nágrannalöndum. Þetta var upplýst. Þannig að hæstv. forsrh. hefur hvorki staðið við það fyrirheit sem hann gaf í sambandi við þjóðarsáttina að halda raunvöxtum niðri né það fyrirheit sem hann gaf um leið og hann lofaði að taka launahækkunina af háskólamenntuðum ríkisstarfsmönnum, að halda gjöldum og sköttum ríkisstjórnarinnar innan ramma þjóðarsáttar, þannig að hann er þar brotlegur á báðum stöðum. Það vekur svo enga athygli í þjóðfélaginu, hæstv. forseti, þótt ríkisstjórnin standi ekki við þau fyrirheit sem hún hafði gefið þegar talað var um þjóðarsátt því enginn bjóst satt að segja við því að ríkisstjórnin mundi við það standa.
    Ég geri þess vegna ekki mikið úr því hvort hæstv. forsrh. reynir nokkuð að skýra stöðu sína í þessu. Ég á ekki von á því að það skýri málið.
    Í viðtalinu við hæstv. forsrh. segir svo, með leyfi hæstv. forseta: ,,Hann``, þ.e. forsrh., ,,segir að ýmsir lögfræðingar hafi fullvissað ríkisstjórnina um að Félagsdómur mundi að öllum líkindum vísa málinu frá

þegar hann er spurður um þær fullyrðingar lögfræðinga að það hafi blasað við að niðurstaðan hafi ekki getað orðið önnur. Það sé afar auðvelt að vera sammála niðurstöðunni þegar hún liggur fyrir. Það hafi sannast í kjölfarið á dómi Félagsdóms að hækkun til BHMR hefði verið á góðri leið með að raska öllum launagrundvellinum og koma verðbólgunni af stað. Til þess að koma í veg fyrir slíkt hafi 1. gr. verið sett inn þrátt fyrir hatramma andstöðu BHMR, enda hafi kostað tvo til þrjá næturfundi að koma henni saman. Eftir það hefði BHMR átt að vera fullljóst hvað fælist í henni þótt þeir hefðu síðan hafnað túlkun ríkisins og kært hana til Félagsdóms. Hann sjálfur mundi aldrei hafa samþykkt þennan kjarasamning ef hann hefði talið koma til mála að 1. gr. héldi ekki.``
    Þetta eru óbreytt orð hæstv. forsrh. eins og þau komu fram í Morgunblaðinu. Má vera að það sé rangt. Þessi ummæli hæstv. forsrh. þýða ( Forsrh.: Þessi orð eru rétt. Mogginn lýgur ekki.) Hæstv. forsrh. segir að ummælin séu rétt. (Gripið fram í.) --- ( Forseti: Forseti vil nú fresta þessum fundi í 5 mínútur þar sem hæstv. forsrh. þarf að vera við atkvæðagreiðslu í Nd.) --- [Fundarhlé.]
    Herra forseti. Það sem vekur athygli í þessum þætti viðtalsins við hæstv. forsrh. er annars vegar að hann skellir því á ónafngreinda lögfræðinga að þeir hafi fullvissað ríkisstjórnina um að Félagsdómur mundi vísa málinu frá. Nú er það kunnugt að álitsgerð lögfræðings er einskis virði, og raunar ekki álitsgerð nema hún sé skrifleg, nema lögfræðingurinn leggi nafn sitt við hana og auðvitað mætti alveg eins standa: Ólyginn sagði mér, eða eitthvað þvílíkt, eins og ýmsir lögfræðingar. Það hefur hvorki merkingu né markmið að skírskota þannig til einhverra sem ekki vilja láta sín getið þannig að ég geri svo sem ekkert með það hvort hæstv. forsrh. hafi leitað álits hjá lögfræðingum sem allir hafi verið sammála um það að Félagsdómur vísaði málinu frá. Það var sagt um Kára Sölmundarson að engum manni væri Kári líkur. Ef hæstv. forsrh. hefur kallað marga lögfræðinga til og þeir allir gefið svo vitlaust álit, þá verð ég að segja um hæstv. forsrh. að hann sé engum líkur í annarri merkingu en þau ummæli voru notuð um Kára Sölmundarson.
    Nú hafa þessir ónafngreindu lögfræðingar auðvitað rangt fyrir sér. En hvað stendur þá eftir þetta? Hann sjálfur mundi aldrei hafa samþykkt þennan kjarasamning ef hann hefði talið koma til greina að 1. gr. héldi ekki. Hann samþykkti kjarasamninginn --- hann samþykkti þessi févíti, 4,5%, af því að hann var sannfærður um að hann þyrfti ekki við það að standa.
Hæstv. forsrh. og fjmrh. hans efndu ekki samninginn. Þeir gerðu ekki þann launasamanburð sem þeir lofuðu að gera. Þeir sömdu á sjálfa sig févíti ef þeir efndu ekki samninginn, settu fyrirvara í 1. gr. sem hæstv. forsrh. segir eftir á að hann hafi talið marklausan.
    Þetta er þessi hliðin á hæstv. forsrh. og þá er hann eðlilega spurður: Nú varaði formaður Vinnuveitendasambandsins við afleiðingum samnings ríkisins og BHMR strax í fyrrahaust og líkti honum við tímasprengju og þá svaraði hæstv. forsrh., með leyfi hæstv. forseta: ,,Getur Einar Oddur, vinur minn mikill og góður, verið á móti því að háskólamenntaðir menn hjá ríkinu hafi svipuð kjör og meðlimir VSÍ greiða? Getur nokkur maður verið á móti því?`` Ég spyr nú hæstv. forsrh.: Hvernig stendur á því að einhver er á móti því? Er hæstv. forsrh. á móti því? Hvað þýðir þetta hjá forsrh. að spyrja svona? Er hann með þessu að reyna að draga upp þá mynd af Einari Oddi að hann vilji standa á móti réttmætum hækkunum til háskólamenntaðra manna?
    Síðan segir forsrh.: ,,Vandinn er hins vegar hvernig þessi samanburður verður gerður. Um það má lengi deila. Við höfum t.d. alltaf vitað að mat á lífeyrisréttindum og ýmsum kjörum opinberra starfsmanna er erfitt. Það eru a.m.k. tvær ef ekki þrjár ríkisstjórnir búnar að lofa BHMR samanburði við kjör á almennum markaði en hafa ekki staðið við það. Ég hefði mjög gjarnan viljað standa við þetta. Þess vegna beitti ég mér fyrir því að þeim var gert þetta tilboð að við samanburðinn yrði staðið. Hann yrði allur unninn, en framkvæmdin frestaðist þar til eftir þjóðarsáttina.`` En framkvæmdin frestaðist þar til eftir þjóðarsáttina. Á vordögum 1989 eru samningar gerðir og það á ekki að standa við þá fyrr en eftir þjóðarsátt 1. sept. Nú langar mig að spyrja hæstv. forsrh., ég veit að vísu að hann svarar ekki en ég ætla að spyrja samt: Hvað er það sem bendir til að hækkun til háskólamenntaðra starfsmanna ríkisins hefði önnur áhrif hinn 1. sept. nk. en sú hækkun hafði á sl. sumri? Ef maður má nota ummæli sjálfs forsrh.: Má ekki búast við því þá að 1. gr. haldi og ekki þurfi að standa við samninginn?
    Síðan, hæstv. forseti, er haft eftir forsrh.: Hann leggur áherslu á að ítarleg tilraun hafi verið gerð til að ná samkomulagi við BHMR en án árangurs. Hann hafi verið talsmaður þess að viðræður yrðu teknar upp við BHMR strax að loknum þjóðarsáttarsamningunum um breytt viðhorf en það ekki fengið hljómgrunn í ríkisstjórninni. Hann hafi þó einu sinni rætt við forsvarsmenn BHMR þrátt fyrir að þessi málefni heyri ekki undir hann.
    Nú spyr ég hæstv. forseta hvaða mál sé til umræðu í neðri deild sem sé þýðingarmeira fyrir hæstv. fjmrh. að vera við en að koma hingað. ( Forseti: Ég mun athuga það.) Ég óska eftir að fá að vita hvaða mál er til umræðu þar til þess að ég geti metið hvort ég telji það svo þýðingarmikið. Hvaða mál hafa verið yfirleitt þar til umræðu?
    Já, við vorum komnir þar ræðu okkar sem hæstv. forsrh. var eiginlega að spyrja um það hvort verið gæti að formaður Vinnuveitendasambandsins væri á móti því að háskólamenntaðir menn fengju launahækkun. Ja, þvílíkt. --- Mér heyrist, herra forseti, að hæstv. heilbrrh. sé að tala fyrir máli í neðri deild. Getur það verið? ( Forseti: Ég hef óskað eftir því að fjmrh. komi.) Hvaða mál ætli sé þar til umræðu? Ég er að spyrja um það, herra forseti. Má ég fá að vita hvaða mál er til umræðu í neðri deild svo maður geti

þá metið hvort fjmrh. hafi meiri skyldur að vera þar og ég geti þá fallist á það eftir atvikum? ( Forseti: Ég hef nú ekki í höndunum dagskrá þessa fundar neðri deildar.) Það væri fróðlegt að fá að vita það. Þeir hljóta að geta upplýst það einhverjir þingsveinar hér. Er það leyndarmál milli herbergja hvaða mál er til umræðu í neðri deild? Hvaða mál er til umræðu í neðri deild? Er ekki hægt að fá upplýsingar um það? Ætli ég ljúki þá ekki bara ræðu minni, verði þá ekki bara að ræða málið við 2. umr. og láta hér staðar numið í bili. Ég sé ekki að það náist fram að ráðherrar séu við hér í deildum. ( Forseti: Hæstv. fjmrh. mun vera að koma.)