Launamál
Þriðjudaginn 18. desember 1990


     Umhverfisráðherra (Júlíus Sólnes) :
    Virðulegi forseti. Við þingmenn Borgfl. höfum ekki látið í okkur heyra við þessa umræðu hvorki í neðri deild né í efri deild fyrr en nú. Mér þykir óhjákvæmilegt að okkar sjónarmið komi fram í þessari umræðu en ég þarf hins vegar ekki að hafa mjög langt mál um það.
    Mig langar aðeins að byrja á því að rifja upp að á svona sl. tíu árum hafa þrisvar sinnum verið sett bráðabirgðalög til þess að hafa áhrif á launamál í landinu. Það var í tíð ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar, þ.e. ríkisstjórnar Framsfl. og Sjálfstfl. sem sat árin 1983 til 1987, þá voru sett bráðabirgðalög sumarið 1983 skömmu eftir að sú ríkisstjórn tók við völdum þar sem, ef ég man rétt, tenging milli launa og vísitölu var afnumin í samræmi við efnahagsaðgerðir sem þá voru boðaðar. Í annan stað voru bráðabirgðalög sett í tíð ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar vorið 1988, en þá voru sett almenn bráðabirgðalög sem stöðvuðu alla kjarasamninga og bundu laun og verðlag fram eftir árinu 1988 og reyndar fram á árið 1989.
    Það er kannski sérkennilegt að rifja það upp í tengslum við þá lagasetningu að haustið 1988 sprakk sú ríkisstjórn eins og öllum er í fersku minni og ný ríkisstórn var mynduð þá um haustið 1988 undir forsæti Steingríms Hermannssonar. Sú ríkisstjórn gerði í raun ekki annað en að lagfæra þau bráðabirgðalög sem höfðu verið sett fyrr um vorið undir forsæti Þorsteins Pálssonar. Síðan gerðist það sérkennilega, sem ég mun seint gleyma svo lengi sem ég mun hugleiða stjórnmál á Íslandi, að þingmenn Sjálfstfl., sem höfðu staðið að setningu bráðabirgðalaganna vorið 1988, greiddu allt í einu atkvæði gegn þessum sömu bráðabirgðalögum sem höfðu þó ekki tekið á sig aðra mynd en svo að það var búið að lagfæra þau, færa þau til betri vegar. Þetta er eitt það alsérkennilegasta sem ég hef upplifað í pólitík frá því ég fór að hugleiða slík mál sem ungur maður. ( EgJ: Hvað felst í þessu að færa lögin til betri vegar?) Eins og ég sagði, hv. þm., lögin voru lagfærð, það voru lagfærðir á þeim ýmsir gallar og meinbugir og tekið tillit til breyttra aðstæðna. En þetta rifja ég nú upp vegna þess að þessi umræða öll er afar sérkennileg, sérstaklega málflutningur þingmanna Sjálfstfl. sem í tvígang á þessum áratug sem nú er nýlokið hafa staðið að setningu bráðabirgðalaga til að hafa áhrif á launaþróunina í landinu. Þeir hamast nú gegn setningu bráðabirgðalaga í svipuðum tilgangi sem ég vil þó segja að eigi kannski meiri rétt á sér, þ.e. bráðabirgðalagasetningin sl. sumar, heldur en í hin tvö fyrri skiptin og skal ég kannski fara nokkrum orðum um það hér á eftir.
    Afstaða okkar þingmanna Borgfl. gagnvart setningu bráðabirgðalaga yfirleitt hefur verið sú að þessi réttur hafi kannski oft verið notaður ótæpilega af íslenskum stjórnvöldum og við tökum undir þá gagnrýni sem oft hefur heyrst að það sé allt of mikið um bráðabirgðalagasetningu og það beri að draga verulega úr slíku. Á það getum við fallist og við mundum fyrir okkar leyti vilja stuðla að því að stjórnarhættir breyttust í þá átt að bráðabirgðalagasetning væri algjör undantekning og því valdi yrði ekki beitt nema ekkert annað væri hægt að gera. Ég tel skynsamlegt og rétt að endurskoða ákvæði stjórnarskár og stjórnsýslulaga í þessu skyni og fyrir mitt leyti og fyrir hönd okkar borgaraflokksmanna tel ég að við mundum styðja slíkar aðgerðir. Annars mun hv. þm. Borgfl. Guðmundur Ágústsson gera betur grein fyrir sjónarmiðum okkar gagnvart setningu bráðabirgðalaga í umræðunum á eftir.
    Það væri kannski ekki úr vegi fyrir mig að rifja svolítið upp hvernig það er að vera hinum megin við borðið þar sem ég hef um mjög langt skeið verið ríkisstarfsmaður og átt töluverðan þátt í þeirri launabaráttu sem félagar í BHMR hafa gengið í gegnum mörg undanfarin ár. Ég kom hingað til lands árið 1972 frá Danmörku og gerðist ríkisstarfsmaður þar sem ég tók við stöðu prófessors við Háskóla Íslands. Ég get rifjað það upp að fyrstu mánuðina sem ég gegndi því embætti þóttu mér launin nokkuð góð vegna þess að fjölskylda mín bjó þá í Danmörku og ég hélt enn þá launum frá danska ríkinu fyrir þá stöðu sem ég hafði gegnt þar áður en ég tók við embættinu á Íslandi þannig að ég var eiginlega á tvöföldum launum. Þar fyrir utan voru skattar greiddir eftir á þannig að það kom ekki til þess að ég greiddi neina skatta fyrsta hálfa annað árið af þeim launum sem ég fékk frá íslenska ríkinu. Ég get sagt að launin voru svona nokkuð ásættanleg miðað við að vera einhleypur, greiða enga skatta og fá laun sem prófessor við Háskóla Íslands. Það gat gengið. Hins vegar komst ég fljótt að raun um að þegar ég átti að sjá fyrir fjölskyldu og borga fulla skatta af þessum launum þá var það náttúrlega alveg vonlaust verk. Frá 1972 og fram til þess að ég gerðist ráðherra í núv. ríkisstjórn kom ég daglega á kaffistofu verkfræði- og raunvísindadeildar uppi í Háskóla Íslands og í þessi 16 ár sem ég hef daglega spjallað við samkennara mína og félaga á kaffistofunni hefur í hvert einasta skipti verið talað um það hversu launin séu lág og hversu vonlaust þetta allt saman sé, þ.e. að vera ríkisstarfsmaður á Íslandi og einkum og sér í lagi að vera kennari. Spurningin er auðvitað: Hvernig stendur á þessu? Er þetta náttúrulögmál? Er yfirleitt nokkuð hægt að gera í þessu? Ég kynntist þessum málum sem fulltrúi bæði í launamálaráði BHM, eins og það hét þá, það var áður en BHMR var stofnað formlega sem deild innan Bandalags háskólamanna, og eins var ég fulltrúi í samninganefnd Félags háskólakennara þegar við áttum í samningum við fjmrn. um laun og kjör háskólamenntaðra starfsmanna ríkisins vorið 1982, ef ég man rétt. Þá eins og nú var það alveg ljóst að það var ekkert í greipar ríkisins að sækja og í raun og veru hafa launamál ríkisstarfsmanna verið næsta vonlítil svo lengi sem ég man eftir mér. Enda ræddum við það oft bæði í sambandi við þessa samningagerð og reyndar á kaffistofunni, eins og ég gat um áðan, að það hlyti að vera hægt að leita einhverra annarra leiða. Að biðja um beinar launahækkanir hjá ríkinu er nánast

vonlaust. Enda fórum við aðra leið vorið 1982 í þessari samningagerð. Við sáum það strax að það þýddi ekkert að reyna að biðja um hærri laun. Hins vegar reyndum við að ná því fram að fá bætt starfskjör og fá tekið tillit til ýmissa hagsmunamála okkar, m.a. þeirra að fá að fylgjast betur með á vísindalegum vettvangi erlendis, sem er náttúrlega nauðsynlegt fyrir þá sem eiga að sinna slíkum störfum hér á Íslandi að geta fylgst með því sem er að gerast í öðrum löndum. Það varð því til þess að háskólakennarar fengu í þessum samningum vorið 1982 samþykkt af hálfu samningsaðila fjmrn. að háskólakennarar gætu sótt ráðstefnur erlendis annað hvert ár og fengju bæði ferðakostnað og dagpeninga til þess að geta gert þetta.
    Það var samdóma álit okkar allra sem stóðum í þessu og sömuleiðis allra okkar félaga í Háskóla Íslands að þetta hefðu verið með bestu samningum sem hefðu náðst um margra, margra ára skeið, og það voru allir jafnsammála um að þetta væri miklu betri niðurstaða heldur en að fá beinar launahækkanir.
    Þá komum við að samningunum sem voru gerðir vorið 1989. Þeir voru næsta kyndugir vegna þess að þar var lagt af stað með kröfur um miklar launahækkanir sem allir sem vilja fjalla um þessi mál af sanngirni hljóta að sjá að er alveg vonlaust vegna þess að þessi litla þjóð sem er að burðast við það að halda hér uppi velferðarkerfi og þjónustu sem er með því besta sem gerist í allri Evrópu, hvernig í ósköpunum ætlar hún að hægt sé að greiða öllum ríkisstarfsmönnum einhver yfirgengilega há laun? Það er svo vonlaust að það hljóta allir að sjá að það dæmi gengur aldrei upp. Við getum bara tekið sem dæmi að kennurum í framhaldsskólum hefur á einum áratug eða kannski 15 árum fjölgað úr rúmlega 2000 í rúmlega 4000 og þegar maður reiknar síðan út þá aukningu á launakostnaði ríkisins sem þetta hefur valdið hljóta allir að sjá að hér er um að ræða alveg vonlausa baráttu, þ.e. að ætla sér að sækja miklar launahækkanir í vasa ríkisins.
    Þetta varð til þess að vorið 1989 þegar þessi deila var komin í hnút dró Félag háskólakennara sig út úr þessu samfloti, taldi mun skynsamlegra að reyna að leita annarra leiða heldur en að knýja fram beinar launahækkanir og samdi að lokum við fulltrúa ríkisvaldsins, fjmrn., um annars konar breytingar á kjarasamningnum sem í raun færðu Félagi háskólakennara á nýjan leik betri vinnuskilyrði og betra starfsumhverfi fremur en beinar launahækkanir. Því miður vildu aðrir félagar okkar í BHMR ekki fara sömu leið. Þeir þráuðust við að reyna að knýja fram beinar launahækkanir.
    Síðan var gerður þessi margfrægi samningur vorið 1989 og skal ég ekki fjalla um það að hve miklu leyti hann er skynsamlegur eða ekki. Það var reynt að höggva þar á hnút sem virtist vera óleysanlegur og þessi margfrægi samningur var síðan gerður. Aðalákvæði hans er sú yfirlýsing eða vilji sem kemur fram í 2. gr. samningsins að bera skuli saman kjör háskólamenntaðra manna hjá ríkinu og á hinum almenna vinnumarkaði og síðan skuli fara fram ákveðin leiðrétting eða aðlögun á milli launa háskólamenntaðra manna hjá ríkinu og svo þeirra sem vinna á hinum almenna vinnumarkaði. En ef við
stöldrum nú aðeins við þetta ákvæði. Er þetta raunhæft? Ég held því fram að þetta ákvæði sé algjörlega út í bláinn vegna þess einfaldlega að langstærsti hluti þeirra háskólamenntuðu starfsmanna sem vinna hjá ríkinu á sér engan samanburðargrundvöll á hinum almenna vinnumarkaði. Hvað starfa margir háskólamenntaðir kennarar á hinum almenna vinnumarkaði? Hvað starfa margir náttúrufræðingar á hinum almenna vinnumarkaði? Hvað starfa margir veðurfræðingar, jarðfræðingar, svo ég nefni dæmi, á hinum almenna vinnumarkaði? Ég held að þeir séu ekki mjög margir.
    Við höfum farið mjög rækilega yfir einmitt þetta atriði hjá Háskóla Íslands, þar sem er að finna nokkurs konar þverskurð af öllum háskólamenntuðum mönnum sem til eru í þjóðfélaginu, sem starfa þar við hinar ýmsu deildir, og þar hefur augljóslega orðið sú niðurstaða að það eru örfáar stéttir háskólamenntaðra manna sem eiga mjög auðvelt með að jafna kjör sín hjá ríkinu við þau kjör sem bjóðast á hinum almenna vinnumarkaði. Þannig hafa t.d. læknar við Háskóla Íslands algjöra sérstöðu þannig að prófessorar við læknadeild og aðrir fastir kennarar við læknadeild sem eru læknar að menntun ná mjög auðveldlega sambærilegum kjörum sem ríkisstarfsmenn og félagar þeirra sem starfa á hinum almenna vinnumarkaði ef svo má að orði komast. Svipað má segja um ýmsar aðrar stéttir, svo sem viðskiptafræðinga að einhverju leyti, en þó á þetta fyrst og fremst við læknana og svo að sjálfsögðu tannlæknana. Þeir ná alveg nákvæmlega sambærilegum kjörum hjá ríkinu og þeir ná á hinum almenna vinnumarkaði. Hvað aðrar stéttir varðar fæ ég ekki séð hvernig nokkurn tíma er hægt að ná upp jöfnum kjörum þar sem það er enginn samanburðargrundvöllur. Það eru, eins og ég segi, þúsundir háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna sem eiga sér engan samanburðargrundvöll á hinum almenna vinnumarkaði þannig að þessi samanburðarmál eru afar snúin og það er í raun og veru vonlítið verk að halda því fram að það náist einhvern tíma niðurstaða sem aðilar geti sætt sig við sem leiði til jafnra kjara á hinum almenna vinnumarkaði og hjá ríkinu.
    Í ljósi þessa þótti mér það afar merkilegt þegar búið var að gera febrúarsamningana 1990, þ.e. febrúarsamningana sem voru undanfari og grundvöllur þjóðarsáttarinnar, að farið var að tala um að í BHMR - samningunum fælist tímasprengja. Þar er væntanlega átt við 5. gr. samningsins við BHMR þar sem segir að í sambandi við samanburð á kjörum háskólamenntaðra manna hjá ríkinu og á hinum almenna vinnumarkaði skuli starfa nefndir til að rannsaka þessi mál og koma með niðurstöður varðandi þennan samanburð. Í greininni segir reyndar, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Hafi nefnd skv. 3. mgr. 2. gr. ekki skilað lokaáliti hinn 1. júlí 1990 skal greitt upp í væntanlega hækkun þannig að tilfærslur milli launaflokka skv. 3.

mgr. verði að jafnaði hálfum launaflokki meiri en lágmark skv. 3. mgr. hefði verið frá 1. júlí 1990. Við endanlega ákvörðun áfangans skal þó enginn lækka í launaflokki.``
    Það er þetta ákvæði sem réði því að væri ekki búið að skila inn þessu lokaákvæði fyrir 1. júlí 1990, þá áttu laun háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna að hækka að jafnaði um einn og hálfan launaflokk sem nemur þessari margfrægu 4,5% hækkun launa sem síðan hefur verið mikið í umræðunni. Hins vegar finnst mér að öllum málsaðilum hafi yfirsést síðasta mgr. í 5. gr. samningsins og þeir að mínum dómi ekki túlkað hana rétt. Skal ég fara aðeins nánar út í það. Greinin hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Í stað tilfærslu milli launaflokka skv. þessari grein er aðilum heimilt að semja um önnur kjaraatriði er jafngildi þeirri launaflokkatilfærslu sem tilefni gefst til eða hluta hennar.``
    Þarna finnst mér vera kominn kjarni málsins og það olli mér miklum vonbrigðum að fulltrúar BHMR og reyndar fulltrúar ríkisvaldsins skyldu ekki setjast niður og semja um málið á grundvelli einmitt þessarar setningar í samningnum sem augljóslega segir að það megi taka tillit til annarra kjaraatriða sem jafngildi þeirri launaflokkatilfærslu sem þessi grein að öðru leyti gefur tilefni til. Miðað við stöðuna eins og hún leit út í júní í sumar sem leið, þá var það alveg augljóst mál að þjóðarsáttin var að skapa háskólamenntuðum ríkisstarfsmönnum einmitt þessar kjarabætur sem mátti taka tillit til með þessum hætti.
    Í júní 1990 lá það ljóst fyrir að þjóðarsáttin var að færa ekki bara háskólamenntuðum ríkisstarfsmönnum heldur öllum almenningi, allri þjóðinni verulegar kjarabætur vegna þeirrar hjöðnunar verðbólgu sem þá blasti við og var orðin ljós. Ekki hvað síst með þeim breytingum sem urðu á skattlagningu matvæla um áramótin 1989/1990, að matvörur lækkuðu í verði í ársbyrjun 1990. Það má kannski minna á það að matvæli hafa ekki hækkað í verði síðan sú lækkun átti sér stað í ársbyrjun 1990 þegar hefðbundin matvæli, svo sem mjólk, dilkakjöt, og neyslufiskur, lækkuðu í verði um tæplega 10%. Enda núna þegar talað er við launafólk á hinum almenna vinnumarkaði, þá er það farið að segja: Nú loksins finnum við fyrir þeim kjarabótum sem verðbólguhjöðnunin hefur veitt okkur, þ.e. við ráðum nú við að borga af lánunum og við sjáum að lánin fara í fyrsta skipti í langan tíma lækkandi, þ.e. höfuðstóll lánanna fer minnkandi. Þetta var alveg ljóst sumarið 1990 og ég er ekki í nokkrum vafa um að það er mjög auðvelt að sýna fram á það að þær kjarabætur sem þjóðarsáttin í raun gaf tilefni til, svo og sú breyting sem varð á matvælaverðinu um áramótin 1989/1990 eru fyllilega jafngildi þess sem þessi grein talar um, þ.e. ef ekki var búið að skila áliti nefndarinnar fyrir 1. júlí átti samkvæmt þessari grein að vera um að ræða eins og hálfs flokks launahækkun. Mér finnst það næsta augljóst að það var mun betra að fylgja þjóðarsáttinni og fá fram kjarabæturnar sem hún bauð upp á heldur en knýja fram 4,5% launahækkun og missa hana svo og meira til í því verðbólgubáli

sem þá hefði hafist upp á nýjan leik. Það þarf því ekki mikla efnahagssérfræðinga til þess að sjá hverjar voru staðreyndir málsins þetta sumar. Þess vegna verð ég að segja hreint eins og er að afstaða samningsmanna Bandalags háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna olli mér miklum vonbrigðum og þar tala ég út frá minni reynslu sem samningamaður fyrir hönd Félags háskólakennara þar sem um er að ræða að ná fram varanlegum kjarabótum og fá betri starfsaðstöðu á vinnustað og margt fleira heldur en að fá einhverja launahækkun, einhver fá prósent í launahækkun sem síðan verður að engu á nokkrum vikum, jafnvel strax á eftir.
    Ég þarf ekki að hafa miklu fleiri orð um þetta. Ég get tekið undir með mörgum sem hafa gagnrýnt stjórnvöld fyrir það að ekki skyldi reynt að ná samkomulagi við samninganefnd BHMR um að fara þá leið að fylgja þjóðarsáttinni og falla frá kröfu um launaflokkahækkun skv. 5. gr. Það má vel vera að það hafi verið orðið of seint í júní 1990 að fá samkomulag um það, en á móti má hins vegar segja að það var miklu óljósara í mars þá um vorið hvort þjóðarsáttin mundi skila viðhlítandi árangri, eins og farið var að koma þó í ljós seinna á árinu, þ.e. um það leyti sem þetta mál blossaði upp sl. sumar, þannig að ég er ekki viss um að fulltrúar BHMR hefðu verið reiðubúnir að semja um þetta atriði strax í kjölfar þjóðarsáttarinnar því að til þess þurftu menn að hafa mikla og óbilandi trú á þjóðarsáttina. Það voru satt best að segja ekki allir sem trúðu því að þetta mundi gerast sem nú hefur gerst, að verðbólga á Íslandi sé varanlega komin niður fyrir 10%. En það var augljóst að það stefndi að því sumarið 1990. Þess vegna vil ég enn þá ítreka vonbrigði mín í garð fulltrúa BHMR, að þeir skyldu ekki vilja fara samningsleiðina þar sem það var alveg augljóst sumarið 1990 að með því að semja um með hvaða hætti samningnum skyldi breytt til þess að koma til móts við þá endurskoðun sem hann þrátt fyrir allt felur í sér og fallast á að þessari launahækkun skyldi dreift í anda þjóðarsáttarinnar, það voru miklu, miklu betri kjör heldur en fá 4,5% strax og missa svo þá launahækkun og miklu meira til í því verðbólgubáli sem hefði þá hafist upp.
    Þess vegna hlutum við að samþykkja setningu bráðabirgðalaganna. Það var neyðarúrræði og ég tel að það hafi verið skynsamlegt og raunverulega óhjákvæmilegt að setja þessi bráðabirgðalög og vísa til þess sem ég sagði í upphafi máls míns að hafi einhvern tíma á þessum áratug verið ástæða til að setja bráðabirgðalög, þá var það þetta sumar. Ég efast hins vegar mjög um nauðsyn þess að setja bráðabirgðalögin 1988 sem voru sett í tíð ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar og sömuleiðis bráðabirgðalögin sumarið 1983 í tíð ríkisstjórnar Framsfl. og Sjálfstfl. undir forustu Steingríms Hermannssonar sem þá var forsrh.
    En ég er jafnsannfærður um það að þessi bráðabirgðalagasetning sl. sumar var nauðvörn, hún var eina leiðin til þess að standa vörð um þá þjóðarsátt sem nú er að koma í ljós að er að gjörbylta öllum aðstæðum í íslensku þjóðfélagi og er í fyrsta sinn í áratugi að

skapa það jafnvægi í efnahagslífinu að það er aftur að verða bærilegt fyrir t.d. launafólk að lifa í þessu landi sem hefur verið mjög erfitt á undanförnum árum.