Launamál
Þriðjudaginn 18. desember 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegur forseti. Ég vil aðeins víkja að þeim spurningum sem hv. þm. Danfríður Skarphéðinsdóttir bar hér upp. Ég vil fyrst víkja að þeirri síðari sem snertir það bréf sem formaður BHMR sendi vegna ummæla fjmrh. við 2. umr. í neðri deild.
    Ég vil í upphafi geta þess að hv. þm. Friðrik Sophusson beindi þeirri spurningu til mín við þá umræðu hvort fram færu einhverjar viðræður við BHMR og hvernig fjmrh. hygðist taka á þessu vandamáli í framtíðinni. Af þessu tilefni taldi ég nauðsynlegt að greina frá þeim viðræðum sem ég hef átt við einstök félög BHMR, þó ég hafi ekki gert það opinberlega áður, taldi hins vegar nauðsynlegt, fyrst þingmaður bað ítrekað um að fá svör við sínum spurningum, að greina frá því hvað hefði farið fram á þessum fundum í grófum dráttum.
    Meginefni svara minna var að kynna það að á þessum viðræðufundum, sem eru við hvert einstakt félaga BHMR, hefði ég reifað reynslu af samskiptum BHMR við fjmrn. á undanförnum mörgum árum, m.a. í tíð tveggja fyrirrennara minna. Því það er ljóst að það hafa verið miklir erfiðleikar í kjarasambúð BHMR og fjmrn. um langt árabil. Þegar ég kom í fjmrn. fluttu fulltrúar BHMR mér langar lýsingar á erfiðleikum og bresti á trúnaðartrausti sem hefði komið upp í tíð bæði hv. núv. þm. Þorsteins Pálssonar og hæstv. núv. utanrrh. Og að á þessum fundum hefði ég rætt ýmsa lærdóma af þessari reynslu margra undanfarandi ára og reifað þrjár meginhugmyndir, sem vert væri að ræða, um breytingar á skipulagi mála hjá ríkinu. Þar nefndi ég m.a. aukið sjálfstæði ríkisstofnana sem gæfu ríkisstofnunum meira sjálfdæmi til ákvarðana um kjör og kjaratengd atriði en nú væri. Þar nefndi ég í öðru lagi sérkjarasamninga um einstök hagsmunamál einstakra félaga í stað þess að vera með heildarsamninga af því tagi sem BHMR lagði höfuðáherslu á fyrir rúmu ári síðan. Þar nefndi ég í þriðja lagi hugmyndir um samninga fyrir ákveðin svið, sbr. skólasamning fyrir menntunarstéttirnar og heilbrigðissamning fyrir starfsstéttir í heilbrigðisþjónustu.
    Satt að segja hafa allar þessar viðræður verið mjög gagnlegar og mjög málefnalegar og alls ekki í ætt við þá lýsingu sem kemur fram í þessu bréfi formanns BHMR. Mér varð að orði þegar ég heyrði þá lýsingu sem fram kemur í bréfinu að þar sjá þingmenn kannski viss dæmi um hve erfitt er að koma málum á betri veg þegar viljinn til rangtúlkana og misfærslna er svo ríkulegur sem fram kemur í þessu bréfi. Ég hugsa að flestum þeirra sem verið hafa á þessum fundum þyki sú lýsing sem hér er gefin á þeim vera nokkuð sérkennileg. Því þessir fundir hafa verið mjög rólegir, þeir hafa verið mjög málefnalegir og þeir hafa verið mjög fróðlegir. Það hefur alltaf verið skýrt frá upphafi að þessir fundir væru ekki samningafundir. Það hef ég sagt frá upphafi. Það hefur öllum verið ljóst sem hafa tekið þátt í fundunum. Þess vegna er út í hött að fara að senda hér í bréfi sérstakar athugasemdir um það að rangt sé að nú standi yfir samningaviðræður. Það hefur aldrei verið sagt af minni hálfu. Og alveg óþarfi að vera með einhvern sérstakan skæting í minn garð vegna þess. Ég hef alltaf sagt skýrt að þetta væru ekki samningaviðræður heldur væru þettar opnar umræður um reynslu liðinna ára og hugsanlega þróun í framtíðinni vegna þess að það kæmi dagur eftir þennan dag og það þyrfti að reyna að finna framtíðarlausn á kjaramálum háskólamenntaðra manna, hvað sem liði afstöðu manna til bráðabirgðalaganna eða síðasta samnings.
    Ég hef heldur ekki sagt að viðræður í starfsnefndum vegna kjarasamninganna frá 1989 gangi vel sem almenna lýsingu. Ég hef hins vegar sagt að í þeim nefndum sé verið að vinna að lausn á ýmsum atriðum og það hafi tekist í mörgum tilvikum sem er bara sannleikanum samkvæmt. Ég held t.d. að í dag hafi verið fundur með Hinu íslenska kennarafélagi í þeirra nefnd og eftir því sem ég vissi, áður en sá fundur hófst, átti þar að lýsa niðurstöðu í ýmiss konar úrvinnslumálum sem unnið hefur verið að á undanförnum mánuðum af hálfu fjmrn. í samvinnu við Hið íslenska kennarafélag og þess vegna væri það röng mynd, sem sumir vildu setja fram opinberlega, að ekki væri um nein samskipti einstakra félaga BHMR við fjmrn. að ræða um þessar mundir.
    Sama gildir um það sem hér segir í 4. lið. Það er líka mjög úr stíl fært, bæði við það sem ég sagði og raunveruleikann. Í bréfinu segir einnig að fjmrh. geri mikið úr starfinu í samstarfsnefndum samflotsfélaganna. Ég hef ekki sérstaklega verið að gera mikið eða lítið úr því. Ég hef bara verið að lýsa þeim veruleika sem fram fer og á sér stað, m.a. vegna þess að ég var um það spurður hér á hv. Alþingi, krafinn svara um það með hvaða hætti samskiptunum væri háttað. Ég tel að sú einhliða mynd um algert stríð milli BHMR og ríkisvaldsins, sem sumir hafa viljað draga upp, sé ekki rétt. Menn eru að hugleiða og leita leiða að framtíðarlausn á þessum vandamálum. Menn eru að skoða ýmis framkvæmdaratriði hjá einstökum félögum. Mín niðurstaða er sú að þeir ítarlegu fundir sem ég hef átt með einstöku félögum, og þeim er ekki lokið, ég á enn eftir að ræða við nokkur félög, hafi verið mjög gagnlegir, þeir hafi skýrt margt sem að gagni geti komið á næstu mánuðum, hvort sem það verður ég eða einhver annar sem leiðir þá samningaviðræður við BHMR.
    Ég hef nefnt það á þessum fundum að forustumenn BHMR, þegar þeir komu til mín og ræddu við mig nokkrum mánuðum eftir að ég varð fjmrh., lýstu því fyrir mér hvernig algjör trúnaðarbrestur hefði orðið í samskiptum þeirra við fjmrn. í tíð núv. hæstv. utanrrh. og í tíð hv. þm. Þorsteins Pálssonar. Ég fékk á því ítarlegar lýsingar hvernig sá trúnaðarbrestur hefði orðið og hvers vegna að þeirra dómi. Mér er alveg ljóst að þeir kunna að flytja eftirmanni mínum hugsanlega sams konar lýsingar um þann trúnaðarbrest sem hafi orðið í samskiptum við mig. ( Gripið fram í: Liggur ekki sú lýsing fyrir?) Ég sagði hugsanlega. Ég hef nefnt að það væri athyglisverð staðreynd og kannski verð umhugsunar hvernig stæði á því að þrír

fjmrh. úr þremur stjórnmálaflokkum hefðu fengið þessa umsögn af hálfu forustumanna BHMR. Hvort það kynni ekki að liggja í því að aðferðirnar, og í því felst engin ásökun af minni hálfu, við lausn kjaravanda háskólamenntaðra manna hefðu ekki verið árangursríkar, af hvaða ástæðum sem það kynni að vera.
    Ég hef í því sambandi bent á að ég hef einnig átt samskipti við fjölmörg önnur stéttarfélög í embætti mínu sem fjmrh. Ég hef gert tvo veigamikla kjarasamninga við BSRB og það er athyglisvert að báðir þeir kjarasamningar hafa verið samþykktir í frjálsum atkvæðagreiðslum BSRB-félaga með meiri meiri hluta heldur en aðrir kjarasamningar sem BSRB hefur gert. Það er staðreynd. Þær aðferðir sem við höfum beitt í kjarasamningum við BSRB hafa með friðsamlegum hætti skilað þeim árangri að meiri meiri hluti BSRB-félaga hefur samþykkt þessa tvo kjarasamninga en áður hefur tíðkast í atkvæðagreiðslum BSRB-félaga.
    Ég hef líka gert kjarasamninga við Félag háskólakennara sem þeir eru mjög ánægðir með. Ég hef líka gert kjarasamning við Kennarasamband Íslands og engin verkföll eða stéttaátök hafa átt sér stað á þessum tíma við Kennarasamband Íslands. Við höfum einnig gert kjarasamning við ýmis önnur kennarafélög. Það er þess vegna röng mynd sem upp er dregin að það sé eitthvert allsherjar stríð ríkisstjórnarinnar eða fjmrn. við kennarasamtökin í landinu. Svo er ekki. Það er eitt, því miður, af mörgum stéttarfélögum kennara þar sem þessir erfiðleikar hafa verið. Það er auðvitað umhugsunarefni fyrir mig, fyrir hv. alþm., fyrir forustumenn BHMR og alla þá sem vilja leita lausnar á þessu máli að hugleiða hvernig stendur á því að aðferðirnar sem beitt hefur verið í samskiptum og samningaviðræðum við BSRB, við Kennarasamband Íslands, við Félag háskólakennara og fjölmörg önnur stéttasamtök sem við höfum gert kjarasamninga við á þessum tíma hafa reynst jafnárangursríkar og friðsamar og raun ber vitni. Ég hef orðið var við það í þessum viðræðum, þó ég ætli ekki að fara að endursegja þær hér, að margir af félögum BHMR, sem á minn fund hafa komið, hafa lýst því að þetta er þeim einnig umhugsunarefni. Þetta er þeim einnig umhugsunarefni og hlýtur að vera það. Vegna þess að þeir bera saman margra ára reynslu erfiðrar sambúðar við fjmrh. úr þremur stjórnmálaflokkum við það sem gerst hefur á vettvangi annarra stéttarfélaga.
    Hv. þm. spurði einnig um ummæli mín um það að ekki yrðu sett bráðabirgðalög á dóm. Ég tel að ríkisstjórnin hafi ekki gert það. Dómurinn var látinn standa.
Hann kom til framkvæmda eins og margoft hefur komið fram hér í umræðum. Dómurinn kom til framkvæmda. Honum var ekki breytt. Ég vitna t.d. í ummæli Sigurðar Líndals, sem mig minnir rétt að ég hafi lesið, þar sem hann sagði á ráðstefnu sem haldin var fyrir nokkru síðan að dómnum hefði ekki verið breytt með bráðabirgðalögunum. Það var hið lögfræðilega álit þessa prófessors við Háskóla Íslands. Það er þess vegna misskilningur að það hafi falist einhver mótsögn í því sem ég sagði í umræddu blaðaviðtali og því sem síðar gerðist þegar ríkisstjórnin setti þau bráðabirgðalög sem hér eru til staðfestingar.
    Virðulegi forseti. Ég vona að þessi svör sem ég hef hér reynt að reiða fram varpi nokkru ljósi á þau málefni sem hv. þm. spurði um í sinni ræðu.