Launamál
Þriðjudaginn 18. desember 1990


     Halldór Blöndal :
    Herra forseti. Ég óska eftir því að hæstv. fjmrh. sé í salnum en haldi ekki fund með starfsmönnum ráðuneytisins á meðan ég flyt ræðu mína. Ég óskaði eftir því í dag að hann væri hér viðstaddur. Ég fór síðan að gæta að því hvaða mál væru til umræðu í Nd., þar sem ég fékk ekki svar við því og hæstv. fjmrh. var ekki kominn í salinn, og var þá hæstv. umhvrh. gefið orðið á meðan. Ég er því kominn hingað til að ljúka ræðu minni. Þetta hefur að sjálfsögðu þær afleiðingar að ég get ekki talað tvisvar. Ég lái ekki forseta þó að hann hafi gefið öðrum manni orðið í dag. Það má segja að það hafi verið mér að kenna og ég er ekkert argur yfir því. En ég óska á hinn bóginn eftir því að hæstv. fjmrh. sé í salnum. Nóg er samt.
    Ég vil í fyrsta lagi láta í ljós sérstaka ánægju yfir því, ef það er rétt sem hæstv. fjmrh. segir, að það sé rangtúlkun, mistúlkun, villandi ummæli sem standi í bréfi Bandalags háskólamenntaðra manna. Það bréf var sent öllum háskólamönnum og er dags. 4. des. --- Ef ríkisstjórnarfundur heldur hér áfram, þá það, en ég óska eftir því að ráðherra hlusti þegar ég tala. Þetta bréf er sent 14. des. 1990. Það bréf sem ég hef í höndum er að vísu ekki undirskrifað og vera má að það sé sent af hrekkjum af einhverjum utanaðkomandi manni, ég skal ekki ábyrgjast það. En undir bréfinu stendur: Formaður BHMR og undirskrifað og síðan stendur: ,,Á fundi launamálaráðs BHMR föstudaginn 14. des. 1990 var formanni falið að koma þessum sjónarmiðum á framfæri fyrir hönd samtakanna.``
    Ef þetta bréf er ekki falsað finnst mér óþarfi að draga sérstaklega persónu formanns BHMR inn í þessar umræður og tala um hans rangtúlkanir og mistúlkanir. Það eru þá rangtúlkanir og mistúlkanir alls launamálaráðsins sem verið er að tala um. Ég vildi gjarnan trúa því sem hæstv. fjmrh. segir, að þær samningaviðræður sem hann hafi átt við einstök aðildarfélög Bandalags háskólamenntaðra manna séu mjög gagnlegar og hafi skýrt margt. ( Fjmrh.: Ég kallaði það ekki samningaviðræður.) Nú, ekki samningaviðræður. Það er þá almennt rabb eða hvað? ( Fjmrh.: Nei, nei.) Þá er það nú sennilega ekki innlegg í þessa umræðu. ( Fjmrh.: Jú, jú.) Hæstv. fjmrh. er allra manna skemmtilegastur. Ég geri ráð fyrir því að háskólamenntað fólk kunni vel að meta einkaviðræður við hann. En ef þær viðræður sem hæstv. fjmrh. hefur átt við einstök aðildarfélög háskólamenntaðra manna koma hvergi að samningum sé ég ekki annað en rétt sé það sem hér stendur. ( Fjmrh.: Það er munur á viðræðum um samninga og samningaviðræðum.) Já, munur á viðræðum um samninga og samningaviðræðum. Nú er vont að vera ekki nógu góður í íslensku, hæstv. forseti, til þess að hafa það á takteinum hver munurinn sé. En hér stendur í tölulið 7:
    ,,Í ljósi reynslunnar er nú hægt að fullyrða að fullkominn trúnaðarbrestur ríki á milli fjmrh. og stéttarfélaga innan BHMR vegna setningar bráðabirgðalaga og erfiðra samskipta.``
    Eftir því sem hér stendur er það launamálaráð

Bandalags háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna sem óskar að koma þessum upplýsingum á framfæri við alþingismenn. Nú hefur hæstv. fjmrh. upplýst að þetta sé rangtúlkun, þetta sé mistúlkun og erfitt að eiga viðræður við stéttarfélög sem hafa formann sem hefur slíkt í frammi. Það er nú svo.
    Ég tók þó eftir því að hæstv. fjmrh. taldi upp þrjú sérstök atriði sem ég skildi svo að hefðu komið upp í þessum viðræðum hans við --- ég veit ekki hvort ég á að þora að segja forustumenn einstakra félaga innan Bandalags háskólamenntaðra manna. Hann segist hafa átt við þessa menn opnar viðræður um reynslu liðinna ára, og á þar við kjarasamninga, og talar um að lausnin á vandamálum háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna felist í því í fyrsta lagi að auka sjálfræði ríkisstofnana til sérkjarasamninga. Ég vildi gjarnan að hæstv. forsrh. gerði grein fyrir því hvort hann sé sammála því sem hér kemur fram hjá hæstv. fjmrh., að það sé rétt að stefna að því í fyrsta lagi að aukið sé sjálfræði ríkisstofnana um kjarasamninga, í öðru lagi að sérkjarasamningar séu teknir upp og í þriðja lagi að sérstakir samningar verði teknir upp fyrir ákveðin svið. Hæstv. fjmrh. segir að allar upplýsingar hafi verið gagnlegar á fundum hans með forustumönnum úr sérfélögum í Bandalagi háskólamenntaðra manna, málefnalegar umræður en ekki í ætt við lýsingu formanns Bandalags háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna og gefur beina yfirlýsingu um að rekja megi erfiðleika ríkisstjórnarinnar við Bandalag háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna til þess að ákveðinn maður, sem raunar er í Alþb., skuli vera formaður þessara samtaka. Nú hefur hæstv. forsrh. lýst því yfir að hann hafi einnig átt viðræður við Bandalag háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna, væntanlega við Pál Halldórsson. Mig langar til að spyrja hvort hann hafi þá sömu reynslu af viðræðum sínum við hann, að ekki sé hægt að ná viðunandi samkomulagi um það hvernig samningaviðræður skuli settar upp og að lýsing hans á samskiptum við ríkisstjórnina séu yfirleitt rangtúlkun eða mistúlkun staðreynda, eins og ég skildi hæstv. fjmrh.
    Það er náttúrlega ekki von til þess að hægt sé að leysa þau vandamál sem upp hafa komið milli ríkisstjórnarinnar og þessara samtaka með samningum þegar þannig er talast við hér í sölum Alþingis. Lýsingar á viðskiptum hæstv. fjmrh. og formanns Bandalags háskólamenntaðra manna eru slíkar að óhjákvæmilegt verður fyrir þá nefnd sem fær málið til meðferðar að fara mjög rækilegan ofan í það hver sé sannleikurinn í þessu máli.
    Ég var þar kominn í ræðu minni í dag þegar ég óskaði eftir því að hæstv. fjmrh. yrði við að ég hafði lesið upp lýsingu hæstv. forsrh. á því hvað hefði gerst eftir að samningar höfðu tekist á hinum almenna vinnumarkaði 1. febr. sl. Þá las ég upp þessa lýsingu, hann á hér við forsrh.: ,,Hann leggur áherslu á að ítarleg tilraun hafi verið gerð til að ná samkomulagi við BHMR en án árangurs. Hann hafi verið talsmaður þess að viðræður yrðu teknar upp við BHMR strax að loknum þjóðarsáttarsamningunum um breytt viðhorf en það ekki fengið hljómgrunn í ríkisstjórninni. Hann hafi

þó einu einni rætt við forsvarsmenn BHMR þrátt fyrir að þessi málefni heyri ekki undir hann.``
    Nú er spurning mín til hæstv. fjmrh. hvort þessi lýsing sé rétt, hvort hæstv. forsrh. hafi tekið það mál upp innan ríkisstjórnarinnar eftir að samningarnir lágu fyrir á hinum almenna vinnumarkaði, vakið athygli á því að það væru breytt viðhorf í þjóðfélaginu, en ekki fengið hljómgrunn í ríkisstjórninni að taka upp viðræður við háskólamenntaða ríkisstarfsmenn. Ég vildi gjarnan fá svar við þessu, já eða nei, hjá hæstv. fjmrh. Þar sem fjarvera hans í dag olli því að ég gat ekki lagt fyrir hann spurningar og síðan fengið orðið á eftir vildi ég gjarnan fá já eða nei við því, hvort þetta sé rétt hjá hæstv. forsrh. Er þessi lýsing rétt? Er ekki hægt að svara því með jái eða neii hvort hér sé rétt með farið, að hann hafi lagt það til í ríkisstjórninni að samningaviðræður yrðu teknar upp við háskólamenntaða ríkisstarfsmenn í ljósi breyttra viðhorfa, en slíkt ekki fengið hljómgrunn í ríkisstjórninni. Er þetta rétt lýsing hjá hæstv. forsrh.?
    Hæstv. forseti. Af viðbrögðum hæstv. fjmrh. er það auðsýnt hversu erfitt er að falla frá kröfu um það að ráðherrar séu við ef maður þarf að eiga við þá orðaskipti hér í þingsalnum til þess að upplýsa mál. (Gripið fram í.) Það var fallist á það hér í dag að hefja þessa umræðu þó svo að hæstv. fjmrh. væri bundinn í Nd. Við stóðum í þeirri meiningu að hæstv. fjmrh. mundi koma hingað inn þegar hann væri laus sem hann ekki gerði.
    Ég hlýt að láta í ljósi sérstaka undrun yfir því að sú lipurð sem sýnd var í þessu máli skuli nú enda með því að hæstv. fjmrh. neitar að svara spurningum mínum. ( Fjmrh.: Ég hef ekkert neitað því.) Það gerir erfitt um vik og sýnir auðvitað hvernig þessi ágæta hæstv. ríkisstjórn hagar sér. Ég get glatt hæstv. fjmrh. með því að það gefst tilefni til þess nú fyrir jól við umræður um önnur mál að ræða til þrautar það sem varðar það frv. sem hér liggur fyrir úr því að svo fer að hæstv. ráðherra vill ekki svara mér með jái eða neii hvort hann fellst á að lýsing hæstv. forsrh. á ríkisstjórnarfundi sé rétt eða röng. Ég óska því að fá Alþýðuflokksráðherra hingað í salinn áður en ég held áfram ræðu minni. Einn ráðherra frá Alþfl. Hér er einn frá Borgfl. og ég óska eftir því að fá ráðherra frá Alþfl. í salinn. ( Forseti: Forseti mun nú athuga hvort hann sé í húsinu.) Ef svo er ekki, ef enginn slíkur er í húsinu, þá óska ég eftir að þessari umræðu verði frestað til morguns og geti þá haldið áfram. (Gripið fram í.) Ég hef þegar orðið að gera hlé á ræðu minni þrisvar sinnum í dag vegna þess að ráðherrar voru ekki við og nú er nóg komið. ( Fjmrh.: Það er alveg óþarfi að vera að kalla á Alþýðuflokksráðherra.) Ef hann er ekki viðlátinn, þá verð ég að biðja um að þessari umræðu sé frestað. ( Forseti: Það er verið að athuga hvort hér sé að finna ráðherra úr Alþfl.) Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að lipurðin verði gagnkvæm og við hæstv. fjmrh. munum að sjálfsögðu neyta þess réttar sem við höfum til hins ýtrasta. Hann til þess að neita að svara spurningum úr sæti sínu og ég get með sama hætti neytt þess þinglega réttar sem

ég hef í sambandi við nefndastörf og aðra slíka hluti. ( Fjmrh.: Ég ætla að sýna þingmanninum ...) Við skulum hafa þetta alveg á hreinu. Það er ekki ráðherra frá Alþfl. hér í salnum. ( Forseti: Hann mun vera á leiðinni). Er hann hér í húsinu? ( Fjmrh.: Já, hann kom upp.) ( Forseti: Hann mun vera hér í húsinu og ætti að birtast innan skamms.) Ég held að það sé óhjákvæmilegt, hæstv. forseti, að fresta fundi. Ég sé að forsrh. klappar og mér finnst það ósanngjarnt því að sá ráðherra sem hér kemur í salinn, hæstv. iðnrh., er duglegri að sitja hér fundi en flestir aðrir af ráðherrunum.
    Skýringin á því, hæstv. iðnrh., að ég bað um að fá ráðherra frá Alþfl. í salinn, hér er einn frá Borgfl., er sú að ég ætla að spyrja bæði hæstv. ráðherra Alþfl. og hæstv. ráðherra Borgfl. hvort rétt sé með farið í frásögn í Morgunblaðinu
hinn 19. ágúst sl. þar sem rætt er við hæstv. forsrh. Ummælin eru svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Hann [þ.e. forsrh.] leggur áherslu á að ítarleg tilraun hafi verið gerð til að ná samkomulagi við BHMR en án árangurs. Hann hafi verið talsmaður þess að viðræður yrðu teknar upp við BHMR strax að loknum þjóðarsáttarsamningunum um breytt viðhorf en það ekki fengið hljómgrunn í ríkisstjórninni. Hann hafi þó einu sinni rætt við forsvarsmenn BHMR þrátt fyrir að þessi málefni heyri ekki undir hann.``
    Ég spurði hæstv. forsrh. í dag og hann sagði úr sæti sínu að þetta væri rétt með farið. Ég spurði hæstv. fjmrh. nú hvort hann gæti sagt úr sæti sínu að þetta væri rétt með farið. Hann vildi ekki svara því. Ég spyr hæstv. umhvrh. Júlíus Sólnes hvort hann telji hér rétt með farið, hvort hann treysti sér til að segja já eða nei. ( Forseti: Ég vil benda hv. 2. þm. Norðurl. e. á að hæstv. ráðherrar geta beðið um orðið og svarað spurningu þingmannsins hér á eftir.) Hæstv. ráðherrar hafa áður gripið fram í fyrir mér án þess að forsetar hafi séð sérstaka ástæðu til þess að atyrða þá fyrir það.
    Mig langar að spyrja hæstv. iðnrh. hvort hann treysti sér til þess að segja já eða nei við þessari lýsingu. Hann treystir sér ekki til þess að segja það. (Gripið fram í.) Já, þetta er náttúrlega mjög lærdómsríkt. Ég vil skýra hæstv. iðnrh. frá því að á fundi í dag var búið að slíta ræðu mína í sundur þrisvar sinnum. Ég hafði vænst þess að hæstv. ráðherrar gætu svarað spurningum af þessu tagi með jái eða neii, eins og hæstv. forsrh. og þess vegna væri óþarfi að vera mjög þver í því að kalla til ráðherra. En allir ráðherrar hér, þessir þrír, ætla að binda sig algerlega við þingsköpin og þá getum við bundið okkur algerlega við þingsköpin fram að jólum ekki aðeins hér í Ed., í nefndastörfum og öðru sem við þurfum á að halda, gætt þess vel að mál séu ekki tekin fyrir í nefndum fyrr en þeim hefur verið vísað til nefnda og annað eftir því. Ég er mjög ánægður yfir því að þetta gerist. Þetta svarar ýmsum spurningum fyrir mig um það hvort maður eigi að sýna samvinnulipurð eða ekki, hvernig einstakir ráðherrar koma fram.
    Ef rétt er með farið hjá hæstv. forsrh., og nú ætla

ég að gefa mér það, liggur rótin að deilu Bandalags háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna við ríkisstjórnina þarna, að innan ríkisstjórnarinnar var ekki hljómgrunnur fyrir því að taka upp samningaviðræður við háskólamenntaða ríkisstarfsmenn á breyttum forsendum í samræmi við þjóðarsáttarsamninga. Ef þetta er rétt hljótum við að sjá áframhaldið í því ljósi að ríkisstjórnin hafi í fullvissu þess, eins og hæstv. forsrh. sagði, að fyrirvari í samningnum væri nægur til þess að ekki þyrfti að standa við hann, látið skeika að sköpuðu. Og þá er spurningin: Þegar kemur að því að dómurinn fellur, hefur nokkuð það gerst á þessum tíma sem er óvænt? Hefur nokkuð gerst sem kallar á bráðabirgðalög og gerir nauðsynlegt að þau séu gefin út?
    Það er um það gömul kenning að það sé Alþingi sem ákveði hvort bráðabirgðalög standist eða ekki með því að Alþingi samþykki bráðabirgðalögin en felli þau ekki. Þannig meti Alþingi réttmæti bráðabirgðalaga. Þessi niðurstaða eða þessi ályktun stendur þangað til Hæstarétti sýnist annað. Og það er enginn sem segir í þessu máli að Hæstarétti sýnist svo sem rétt hafi verið staðið að málum í sambandi við setningu bráðabirgðalaganna af því að aðdragandi þeirra er með þeim hætti að ríkisstjórnin neitar, þrátt fyrir að forsrh. ríkisstjórnarinnar stingi upp á því, að teknir séu upp samningar við háskólamenntaða menn á breyttum forsendum. Því er synjað, það hefur ekki hljómgrunn á meðal fagráðherra. Þarna er rótin. Hæstv. forsrh. kemur auga á að þarna sé hætta á ferðum. Hann gefur það fyllilega í skyn. Hann vill beita sér til að lagfæra þetta. Hann leggur það meira að segja á sig að tala við forustumenn BHMR þó að málið heyri formlega undir hæstv. fjmrh. En ríkisstjórnin kemur í veg fyrir að þessar viðræður geti gengið fram. Ég óska eftir því, hæstv. forseti, að þessir ráðherrar allir þrír sem ég hef spurt, hæstv. iðnrh., hæstv. umhvrh. og hæstv. fjmrh., svari því hér í ræðustóli hvort lýsing hæstv. forsrh. að þessu leyti er rétt eða ekki því ég hygg að hún snerti mjög kjarna málsins. Það er spurningin um það hvort ríkisstjórnin gerði sér grein fyrir hættunni sem var á því að þessir samningar kynnu að setja þjóðarsáttarsamningana í hættu.
    Þá er það í öðru lagi. Ég hygg að það sé mjög hæpið að dómstólar fallist á þá brýnu nauðsyn sem ríkisstjórnin vill vera láta að hafi verið uppi vegna þessara samninga. Ég vil minna á að hæstv. forsrh. var í lófa lagið að kalla þing saman. Það er rangt sem hæstv. forsrh. segir að deildaskipting komi í veg fyrir hraða afgreiðslu á lögum ef um það er að ræða að setja lög um kjarasamninga. Ég man ekkert dæmi þess, og ég skora á hæstv. forsrh. að nefna dæmi þess, að deildaskipting hafi komið í veg fyrir að lagasetning hafi getað gengið fram nægilega snemma af þeim sökum. Stjórnarandstaðan hefur ævinlega svo langt ég man heimilað lagasetninguna.
    Gerður hefur verið samanburður á bráðabirgðalögum sem sett hafa verið af öðrum stjórnmálaflokkum. Það er rétt að hæstv. samgrh. Matthías Bjarnason beitti sér á sínum tíma fyrir lögum, það voru ekki

bráðabirgðalög ef ég man rétt, það voru lög úr þinginu, vegna kjaradeilna við flugfreyjur sem stefndu, að því er meiri hluti Alþingis taldi, í hættu stórkostlegum viðskiptahagsmunum í sambandi við ferðamannaiðnað, sem svo er kallaður. Ég get líka rifjað það upp að hæstv. sjútvrh. vildi, meðan formaður Sjálfstfl. var fjmrh., setja lög á sjómenn. Málið var komið hingað inn í þingið og Steingrímur Hermannsson var þá forsrh. Formaður Sjálfstfl. kom í veg fyrir þá lagasetningu og samningar tókust á næsta sólarhring. Og að því gefna tilefni að ég minntist á sjómenn vil ég láta þess getið að ég var staddur á fundi austur á landi um síðustu helgi. Þar kvaddi sér hljóðs gamall sjómaður. Hann var mjög skýr í þessu efni. Hann var sammála okkur sjálfstæðismönnum um að samningarnir við Bandalag háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna væru vondir samningar sem bæri að segja upp. En þessi gamli sjómaður var líka þeirrar skoðunar að sá maður sem gerði samningana hefði átt að segja af sér, ég tala nú ekki um eftir að hans eigin ríkisstjórn komst að þeirri niðurstöðu að bráðabirgðalög yrði að setja á hans handaverk. Og það hygg ég að sé alveg ljóst að í öllum nágrannalöndum okkar mundi maður sem þannig hagar sér verða að segja af sér embætti, það held ég að sé alveg morgunljóst, öldungis ljóst.
    Þar komum við að hinu siðferðilega atriði þessa máls. Og það er að tveir menn í ríkisstjórn koma að samningum, hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. Þeir annast samningagerðina við háskólamenntaða ríkisstarfsmenn. Þeir eru mjög ánægðir með sín handaverk. Þeir telja samningana mjög góða. Formaður Sjálfstfl. taldi að ekki yrði hægt að standa við samningana á þeim tíma. Hvorugur þeirra telur sig bera siðferðilega ábyrgð á þessum samningum. Þeir hafa báðir talað hér og á hvorugum er að heyra að þeir beri pólitíska eða siðferðilega ábyrgð á kjarasamningum. Það hygg ég að sé einsdæmi í lýðræðisþjóðfélagi, að tveir stjórnmálamenn komist upp með slíkt, og sýnir raunar hversu mjög þetta mál hefur verið afflutt og hversu erfitt það er í okkar litla landi þar sem þeir sem fást við fréttir í fjölmiðlum sem hafa ekki úr nægilegu fjármagni að spila til þess að geta haft sérfræðinga í hinum ýmsu málaflokkum, þá getur það komið upp að einstakir stjórnmálamenn komist upp með annað eins og þetta. Mér til sitt hvorrar handar eru þessir tveir stjórnmálamenn sem gerðu samningana, settu sjálfir bráðabirgðalög á samningana, gátu ekki einu sinni komið sér saman um að ræða við háskólamenntaða menn eftir að þjóðarsáttarsamningarnir voru gerðir og báðir telja sig siðferðilega hreina og báðir telja sig með pólitískt hreina samvisku af þessu máli en reyna á hinn bóginn að koma ábyrgðinni af samningsgerðinni yfir á stjórnarandstöðuna.
    Ég átti viðtal við mjög skýran mann um daginn sem er gagnkunnugur kristilegu siðferði, eins og það hefur verið túlkað, gagnkunnugur bæði sögu íslensku þjóðarinnar og raunar mannkynssögunni í heild. Við vorum einmitt að tala um þetta sérstaka atriði. Og þá vakti hann athygli mína á því að hvarvetna í öðrum lýðræðislöndum hefði þótt sjálfsagt, þegar vafi kom

upp um það hvort bráðabirgðalögin hefðu meiri hluta, að ríkisstjórnin hefði kallað formann stjórnarandstöðunnar á sinn fund og reynt að leita samninga um það með hvaða hætti væri unnt að leysa málið. En í þetta skipti var ekki farið þannig að heldur var hæstv. forsrh. uppi með kenningar um það að hann ætlaði að rjúfa þing, sem mér þykir nú satt að segja mjög slæmt að hann skyldi ekki hafa gert. Hæstv. utanrrh. fór að tala um stjórn Steingríms Hermannssonar sem starfsstjórn ef þing yrði rofið. Ég áttaði mig nú raunar ekki á notkun orðsins í því samhengi, skiptir ekki máli, og þeir voru strax farnir að bollaleggja það að bráðabirgðalögin féllu í þinginu og þeir mundu setja önnur bráðabirgðalög um leið og búið yrði að rjúfa þingið. Þetta var nú hinn fyrsti siðferðilegi mælikvarði sem þeir höfðu á eigin gerðir og eigin ábyrgð á því sem þeir eru að gera.
    Nú hef ég sagt og er ekki í neinum vafa um það að allir þeir ráðherrar sem hér sitja inni vissu vel að það var meiri hluti fyrir bráðabirgðalögunum hvað sem Sjálfstfl. gerði. Ég held að það liggi alveg í augum uppi, enda er svo komið að tveir þingmenn sem segjast vera stjórnarsinnar eru farnir að þrátta um það hvor þeirra hafi gefið eftir á undan. Það hefur að vísu líka komið í ljós að ýmsir af þingmönnum Sjálfstfl. hafa ekki treyst sér til þess að greiða atkvæði á móti bráðabirgðalögunum, þó svo þeir haldi því fram, a.m.k. hv. 1. þm. Vestf., að þessi bráðabirgðalög séu siðlaus. Ég tók eftir því að hæstv. forsrh. taldi að Matthías Bjarnason hefði verið að löðrunga formann Sjálfstfl. þegar hann gerði grein fyrir sínu atkvæði. Ég bið hæstv. forsrh. að lesa betur textann í greinargerð hv. 1. þm. Vestf. Þessir tveir menn hafa lengi átt í pólitísku samstarfi og verið andstæðingar á Vestfjörðum og þekkjast mjög vel. Ég hygg að hæstv. forsrh. hafi ekki verið ánægður með þá einkunn sem hv. 1. þm. Vestf. gaf hans vinnubrögðum. Og skal ég svo ekki fara lengra út í þá sálma. En siðferðilega eru þessir samningar auðvitað mjög vondir.
    Nú er spurning: Er það rétt sem ríkisstjórnin hefur verið að segja, að við sjálfstæðismenn höfum snúist gegn þjóðarsátt með því að greiða atkvæði gegn þessum bráðabirgðalögum? Eigum við að setja samasemmerki milli þjóðarsáttar og bráðabirgðalaganna? Í fyrsta lagi er það að athuga að samningurinn við háskólamenntaða ríkisstarfsmenn var til þegar þjóðarsáttarsamningarnir voru gerðir. Það er nú það fyrsta. Þjóðarsáttin var gerð þrátt fyrir þessa samninga. Það er í öðru lagi, eins og fram hefur komið í orðsendingu launaráðs háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna til Alþingis, að fullkominn trúnaðarbrestur ríkir milli fjmrh. og stéttarfélaganna innan BHMR. Það er þess vegna ekki við því að búast að sá fjmrh. sem nú situr geti náð samkomulagi við háskólamenntaða ríkisstarfsmenn á grundvelli þjóðarsáttar og allra síst eftir að fyrir liggur að beiðni hæstv. forsrh. um að svo yrði gert var synjað. Á hinn bóginn eru verulegar líkur á því að slíkt samkomulag gæti náðst ef nýir menn kæmu þar. Aðalatriðið er að í stjórnmálum er venja að menn leysi mál, talist við. Engar slíkar viðræður

hafa farið fram milli Sjálfstfl. og ríkisstjórnar og satt að segja fulldjarft, vil ég segja, af hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. að gefa sér það fyrir fram að þeir séu einhverjir lykilmenn í því að þjóðarsátt takist hér á landi. Að sjálfsögðu er nauðsynlegt að halda verðbólgunni niðri. Og þá er spurningin: Ætlar hæstv. fjmrh. að koma til móts við þær kröfur sem aðilar vinnumarkaðarins hafa gert í sambandi við fjárlagagerðina? Ég vil gjarna að hann svari því, geri grein fyrir því í einstökum atriðum hvaða kröfur Ásmundur Stefánsson og Þórarinn V. Þórarinsson hafa gert til hans. Ég hef setið einn slíkan fund. Þá var þeim mikið niðri fyrir, bæði Ásmundi Stefánssyni og Þórarni V. Þórarinssyni. Fjmrh. mátti ekki vera að því að sitja allan fundinn en það hefur síðan verið upplýst að ríkisstjórnin ætlar að skella skollaeyrum við aðvörunarorðum þessara manna. Sú hækkun sem við erum þar að tala um nemur 0,33%, mælt á vog kaupmáttar í landinu. Þar ætlar ríkisstjórnin að skella skollaeyrum við
þjóðarsáttinni. Hvar er það víðar sem ríkisstjórnin ætlar að gera það? Er hæstv. forsrh. reiðubúinn til þess að koma hér upp og skýra frá því hvaða sérstöku atriði það eru sem aðilar vinnumarkaðarins hafa tíundað og ætlast til þess að ríkisstjórnin hlusti á í sambandi við fjárlagagerðina? Nei. Þeir munu ekki víkja að því. Ég fullyrði að það verður ekki. Heldur munu þeir reyna að verja sig án þess.
    Ég tók eftir því að hæstv. forsrh. vék nokkrum orðum að áliti sem komið hefur frá hagdeild Seðlabanka Íslands. Hann sagðist hafa átt viðtal við seðlabankastjóra og hann hafi skammast sín. Hvaða seðlabankastjóri var það sem skammaðist sín? Hér er vitnað í einkasamtal forsrh. við einn af æðstu embættismönnum þjóðarinnar. Það eru tveir seðlabankastjórar, Jóhannes Nordal og Tómas Árnason. Hvor þeirra skammaðist sín? ( Forsrh.: Það var Jóhannes Nordal.) Skammaðist Jóhannes Nordal sín í viðtali við hæstv. forsrh.? Ja, nú er týra. ( Forsrh.: Hann baðst afsökunar.) Hann ætlaði að biðjast afsökunar, já, og hann gerði það. Mér datt nú í hug en ég þori varla að segja það, að nú sé Jóhannes farinn að eldast. Mér finnst þetta mjög merkilegt. Greinargerðin sem kom frá Seðlabankanum er mjög góð en það er á hinn bóginn svolítið þreytandi þegar maður hefur það á tilfinningunni að hinar æðstu stofnanir ríkisins séu hættar að standa við eigin álit vegna pólitísks þrýstings. Forsrh. hringir í seðlabankastjóra og amast við álitsgerð sem er gefin út í fullu trausti þess að þar sé rétt með farið. Og það verður nú gaman að fara yfir þetta með seðlabankastjóra, fyrir hvað hann skammaðist sín.
    Hverju var Seðlabankinn að mótmæla? Hann var að mótmæla því að ríkisstjórnin og aðilar vinnumarkaðarins mundu skrúfa verðbólguna upp í 40% á vordögum. Skammaðist seðlabankastjóri sín fyrir það að starfsmenn Seðlabankans trúðu því ekki að sú yrði niðurstaðan, að starfsmenn Seðlabankans ætluðust til ábyrgðarkenndar af hæstv. forsrh. eða þeim mönnum sem fara með samningamálin á hinum almenna vinnumarkaði? Þurfti hann að skammast sín fyrir það? Var það það sem hann sagði? ( Forsrh.: Hann sagðist ætla

að biðja afsökunar.) Hann sagðist ætla að biðjast afsökunar. Það er vont að hann skuli ekki hafa málfrelsi hér inni. En það er nú svona.
    Annað atriði sem rétt er að víkja að einnig er í sambandi við raunvexti hér á landi. Telur hæstv. forsrh. að ríkisbankarnir eigi að haga sinni vaxtapólitík með öðrum hætti en gerist á hinum frjálsa fjármagnsmarkaði að öðru leyti, að ríkisbankarnir komist upp með það að hafa aðra vaxtapólitík en eru á hinum frjálsa fjármagnsmarkaði? Hæstv. ráðherra vék að því áðan að Búnaðarbankinn væri vel stæður og var svo að skilja sem hann teldi að hann, og jafnvel Landbankinn líka, gætu af þeim sökum rekið aðra vaxtapólitík en t.d. Íslandsbanki eða væri úti á hinum almenna fjármálamarkaði eða hjá hæstv. fjmrh. Auðvitað geta ríkisbankarnir þetta ekki neitt. En þegar ráðherra var að tala um að það væri bærilegt að fá góðan liðsmann fyrir lágum vöxtum sem væri ég, þá get ég alveg sagt honum að ég skal veita honum fullan stuðning til þess. Ég geri ráð fyrir því að hæstv. forsrh. mundi kannski stinga upp á því að flytja frv. um að færa til baka. Við hlið hans stendur ráðherra bankamála. Hann gæti minnst á það við ráðherra bankamála hvort ekki væri rétt að herða svolítið að viðskiptabönkunum og fjmrh. og láta Seðlabankann, eftir samtal við forsrh., bara ákveða vextina, vera ekkert í neinu basli við þetta. Hefur það komið upp? ( Forsrh.: Snjöll hugmynd.) Já, snjöll hugmynd. Ég geri ráð fyrir því að hæstv. forsrh. gæti kannski hugsað sér þetta, hins vegar ekki viðskrh.
    Mér á hægri hönd situr sá maður sem flissar og það er fjmrh. sem með halla sínum á ríkissjóði, vondri fjármálastjórn, hefur valdið því að raunvextir eru hærri hér á landi, samkvæmt þeim upplýsingum sem við fengum í fjh. - og viðskn. í gærmorgun, en í nokkru þeirra viðskiptalanda okkar sem nefnd voru. 8,3% er sagt að séu raunvextir hér nú og búist við að þeir muni hækka verulega. ( Gripið fram í: Ekki hjá ríkisbönkunum.) Raunvextir útlána eru það og búist við ... ( Gripið fram í: 6%.) Ég er að tala um raunvexti útlána. Ég veit ekki hvort hæstv. fjmrh. hefur talað um vísitölubundin útlán bankanna. Þeir vextir eru nú komnir í 8,3% og það er talað um að nafnvextir verði ekki lægri á næsta ári og því er spáð, bæði af Seðlabanka og Þjóðhagsstofnun, að vextir, bara samkvæmt þeim gögnum sem hafa verið lögð fram, verði um 8,5%. Það er talað um enn meira annars staðar. Hins vegar eru þeir vextir sem hæstv. fjmrh. talaði um að væru á ríkispappírunum hærri en almennir útlánsvextir í Bandaríkjunum þannig að hér er auðvitað um mikið vaxtaokur að ræða sem er svik við þjóðarsáttarsamningana og á rætur sínar að rekja til hæstv. fjmrh.
    Það er komið í ljós, herra forseti, að ríkisstjórnin hefur ekki haldið áfram þeim samningaviðræðum sem hún þó lofaði vorið 1989 við háskólamenntaða menn að gera á samanburði á þeim kjörum sem eru hjá ríkisstarfsmönnum annars vegar og úti á hinum almenna vinnumarkaði hins vegar. Hæstv. forsrh. er líkur sjálfum sér. Talaði um það hér áðan að nauðsynlegt væri

að taka tillit til vissra atriða sem gerst höfðu og talaði um að hlutir yrðu leiðréttir með samkomulagi. Og þegar hæstv. forsrh. er að tala með þessum hætti er hann auðvitað að gefa í skyn að háskólamenntaðir ríkisstarfsmenn megi búast við launahækkunum umfram það sem aðrir hafa eftir að þjóðarsáttin verður úr gildi hinn 1. september nk. Þá er auðvitað spurningin: Hvernig á maður að trúa því að hæstv. forsrh. meini það sem hann segir þegar hann er að gefa slík fyrirheit núna, úr því að hann hefur lýst því yfir að hann ætlaði aldrei að standa við samninginn frá 1989, úr því að hann heldur því fram enn þá að sérstakt févíti, sem hann var dæmdur til að greiða af því að hann stóð ekki við samninga, geti verið forsenda fyrir almennum víxlhækkunum hér á landi? Auðvitað bar ríkisstjórninni að gera annað tveggja, efna samninginn eða að öðrum kosti láta þann fjmrh. hverfa sem bar ábyrgð á honum og taka síðan upp viðræður við Bandalag háskólamenntaðra manna í friði í anda þjóðarsáttar um það hvernig framhaldið yrði leikið. Það getur ekki verið hægt að kalla það þjóðarsátt þegar ein stétt er leikin jafngrátt og þessi, stétt opinberra háskólamennaðra manna. Hún getur ekki tekið mark á þeim manni sem fer með samningsumboð fyrir ríkisstjórnina. Það er fullkomlega rangt sem hæstv. fjmrh. var að reyna að gefa í skyn hér áðan að sú mynd sé sterkari að opinberir starfsmenn séu mjög ánægðir yfir þeim tökum sem þeir hafa verið beittir af ríkisstjórninni. Ef maður hittir háskólamenntaðan mann sem vinnur hjá ríkinu, þá sé hann yfirleitt að láta í ljósi sérstaka ánægju yfir hanteringunni og telji að ríkisstjórnin hafi hagað sér rétt. Það er fullkomlega rangt hjá hæstv fjmrh. að sú mynd blasi við. Ég hef líka hitt háskólamenntað fólk. Ég hef heyrt mikið af því. Auðvitað sárnar því að ekki skuli hafa verið við það talað, það skuli hafa farið í verkfall, að forsrh. og fjmrh. skyldu hrósa sér sérstaklega af samningunum, þeir skyldu algerlega hundsaðir, að dómur skyldi falla, bráðabirgðalög sett á dóminn og enn þann dag í dag ekki talað eitt einasta orð þó mennirnir sem bera ábyrgð á öllu saman sitji keikir í sínum stólum, þykist vera siðferðilega hreinir og telji að þeir hafi staðið pólitískt rétt að málum.
    Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að segja upp samningunum við háskólamenntaða menn. Ég er þeirrar skoðunar að nýir menn eigi að koma að samningaviðræðum við háskólamenntaða menn og ég er ekki í neinum vafa um það að þeim mönnum mundi takast að ná því samkomulagi við þetta fólk sem mundi duga til þess að tryggja áframhald þjóðarsáttar í friði. En ég er jafnsannfærður um hitt að það er fullkomlega þýðingarlaust fyrir þá tvo ráðherra sem báru ábyrgð á málinu, hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh., að koma aftur til þessa fólks, sýna sig á nýjan leik á sama staðnum, tala á nýjan leik um tímamótasamning og halda að einhver maður treysti þeirra undirskrift. Auðvitað gera háskólamenntaðir menn það ekki. Allar líkur eru fyrir því að dómurinn falli á þá leið að bráðabirgðalögin séu stjórnarskrárbrot. Við þingmenn höfum unnið eið að því að halda stjórnarskrána og

væri kannski spurning hvernig einstakir ráðherrar mundu líta á það mál ef svo færi sem ég spái nú.
    Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, herra forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að viðbrögð einstakra ráðherra voru fróðleg þegar ég beindi til þeirra mjög skýrri spurningu. Ég geri mér grein fyrir því að ég hef notað ræðutíma minn og mér er ekki heimilt að tala oftar en tvisvar við þessa umræðu og við það verður að sitja eins og málið er vaxið. En ekki er framkoma hæstv. ráðherra þannig að búast megi við því að það auki lipurleikann í samstarfinu.