Launamál
Þriðjudaginn 18. desember 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að ég svaraði ekki hv. þm. Halldóri Blöndal með jái eða neii úr sæti mínu var ekki vanvirðing við þingmanninn heldur einfaldlega vegna þess að slíkt svar hefði ekki verið efniviður sá sem hv. þm. var að leita eftir því mál eru flókin oft. Þetta er eitt af þeim sem þannig eru.
    Ég vil í þessu sambandi nefna að það hefur komið fram hjá forseta Alþýðusambands Íslands að forustumenn ASÍ áttu viðræður við forustumenn BHMR þegar svonefndir þjóðarsáttarsamningar voru gerðir. Þá kom alveg skýrt fram af hálfu forustumanna BHMR að þeir höfðu ekki áhuga á því að ganga inn í þá þjóðarsáttarsamninga. Ég minni einnig á það að formaður BHMR, Páll Halldórsson, hefur ítrekað í opinberum viðtölum lýst andstöðu við þjóðarsáttina, talið hana fjandsamlega þeirri kjarastefnu sem hann vill fylgja og að engu hafandi. Það hefur verið sú stefna sem hann hefur fylgt og hefur mjög greinilega komið fram í viðræðum við hann opinberlega í sjónvarpi, í blöðum og annars staðar. Það var þess vegna stefnuatriði af hálfu BHMR að laga sig ekki að þjóðarsáttinni. Það kom alveg skýrt fram.
    Þá er spurt: Hvers vegna voru ekki teknar upp formlegar viðræður við BHMR? Þegar spurt er að því gleyma menn stundum hvað var kjarnaatriðið í samningnum. Kjarnaatriðið í samningnum var ekki kauphækkun til BHMR, þó margir og reyndar flestir tali ætíð þannig að svo hafi verið. Kjarnaatriðið í samningnum var könnun á því, hvort --- og
ég endurtek, virðulegi forseti, hvort munur væri á kjörum háskólamenntaðra manna á almennum markaði og hjá ríkinu og ef --- ég endurtek, virðulegi forseti, --- ef sá munur kæmi fram, þá ætti að leiðrétta kjör Bandalags háskólamenntaðra manna með tilteknum hætti.
    Það hefur líka gleymst í þessum umræðum að það var fullkomið samkomulag --- og ég endurtek, virðulegi forseti, --- fullkomið samkomulag milli BHMR og fjmrn. um það með hvaða hætti þessi könnun skyldi framkvæmd og það er staðfest af forustumönnum BHMR og embættismönnum fjmrn. sem að þessu unnu. En það hefur ekki enn þá komið fram að þessi kjaramunur sé fyrir hendi. Það liggur ekkert fyrir um það svo að höfuðatriði samningsins um kauphækkun BHMR vegna mismunar við almenna markaðinn liggur ekki á borðinu. (Gripið fram í.) Það sem gerðist, hv. þm. Halldór Blöndal, sem greinilega með frammíkalli sínu sýnir annaðhvort ómerkileg tilþrif hér í þingsalnum eða vankunnáttu sína við BHMR, það sem um var að ræða sl. sumar var svokallað refsiákvæði sem koma ætti til framkvæmda, ekki ef BHMR - menn ættu rétt á kauphækkun og fengju hana ekki, eins og flestir virðast halda, greinilega einnig hv. þm. Halldór Blöndal, heldur ef kjarasamanburði yrði ekki lokið. Og sá félagsdómur sem hér er oft vikið að var ekki um það að BHMR ætti almennt séð rétt á þessari kauphækkun, heldur byggðist hann á því að kjarasamanburðinum hefði ekki verið lokið, því eina atriði. En það er rætt um þessi 4,5% eins og um almenna kauphækkun til BHMR vegna kjaramismunar við almenna markaðinn sé að ræða. Svo er ekki.
    Það lá líka ljóst fyrir að þeir sem sömdu um 4,5% á sínum tíma gerðu það með allt aðrar verðviðmiðanir heldur en voru svo hér á þessu ári þegar verðbólgan var komin niður í eins stafs tölu. Það fóru síðan fram viðræður við fulltrúa BHMR með margvíslegum hætti. Það voru viðræður um kjarasamanburð. Það voru viðræður um ábyrgðarmat, það voru viðræður um námsmat, það voru almennar óformlegar viðræður um framkvæmd kjarasamningsins. Í þessum óformlegu viðræðum kom ávallt fram að fulltrúar BHMR voru ekki tilbúnir til þess að fallast á sömu kauphækkanir til BHMR á þjóðarsáttartímanum og önnur stéttarfélög. Það var sagt aftur og aftur og aftur og aftur. Menn geta haldið því hér fram að að sé ekki mark takandi á fulltrúum BHMR og þeir hafi ekki meint þessi orð sín og bara ef Sjálfstfl. kæmi til viðræðu við þá mundu þeir allt í einu breyta um stefnu eins og sumir sjálfstæðismenn hafa talað. Galdurinn í málinu sé bara að fá formann Sjálfstfl. til að tala við BHMR, sama manninn og forustumenn BHMR lýstu við mig að hefði komið á trúnaðarbresti milli sín og þeirra þegar hann var fjmrh. ( HBl: Var það í einkasamtali?) Í einkasamtali sem þeir lýstu því? ( HBl: Já.) Nei, það var ekki í einkasamtali. Það var þegar þeir komu formlega til mín, formaður BHMR og framkvæmdastjóri BHMR, fljótlega eftir að ég varð fjmrh. og röktu fyrir mér sögu samskipta BHMR við fjmrn. á undanförnum árum. Þess vegna var málið með margvíslegum hætti kannað, með formlegum og óformlegum samtölum. Það sem átt var við af hálfu BHMR með samningaviðræðum var hvernig þeir gætu fengið til sín meiri kauphækkanir en aðrir á þjóðarsáttartímanum og þeir voru tilbúnir til að ræða ýmsar aðrar leiðir í því en fólst í kjarasamningnum. Það er það sem var átt við af þeirra hálfu með samningaviðræðum.
    Virðulegi forseti. Eins og hér hefur komið fram, m.a. frá hæstv. viðskrh., þá kom aldrei fram formleg tillaga um það í ríkisstjórninni að teknar yrðu upp viðræður við BHMR. Þessi mál voru hins vegar oft rædd og þó að hv. þm. Halldóri Blöndal finnist það nú sérkennilegt, þá merkir orðið ,,viðræður`` ýmislegt. Það eru óformlegar viðræður, það eru formlegar viðræður, það eru undirbúningsviðræður og könnunarviðræður. Ég var þeirrar skoðunar og er reyndar enn þeirrar skoðunar að ákvæði í 1. gr. kjarasamningsins hafi átt að vera nægilegt öryggisákvæði til þess að tryggja að BHMR fengju ekki kaupbreytingar ef það leiddi til röskunar á almennum markaði.
    Það er svo athyglisvert að mörgu leyti að það fyrirtæki sem tók að sér að vinna þennan karasamanburð, Gallup, hefur ekki enn þá skilað viðunandi úrvinnslu úr þeim gögnum, því miður. Við stöndum nefnilega í þeim sporum að sá aðili sem tók að sér þetta verk, af ástæðum sem ég ætla ekkert að gagnrýna hér, hefur ekki talið sér kleift að skila viðunandi úrvinnslu til þess að hægt sé að byggja á því vitrænt

mat um hvort kjarasamanburður leiðir í ljós að mismunur sé á kjörum eða ekki.
    Ég vona, virðulegi forseti, að þetta varpi ákveðnu ljósi á þau mál sem hv. þm. spurði hér um og geri skiljanlegt hvers vegna ég kaus að svara honum hér úr ræðustóli en ekki með einsatkvæðisorðum úr sæti mínu.