Launamál
Þriðjudaginn 18. desember 1990


     Umhverfisráðherra (Júlíus Sólnes) :
    Virðulegi forseti. Ég er sömu skoðunar og hæstv. fjmrh. Ég tel eðlilegra að þingmönnum sé svarað héðan úr ræðustóli frekar en að með frammíköllum og einsatkvæðisorðum sé verið að láta skoðanir í ljósi í miðri ræðu viðkomandi þingmanns sem spyr. Og mér er ljúft að svara hv. 2. þm. Norðurl. e. um hver mín afstaða var til þessa máls. Ef ég man rétt, þá beindi hann þeirri spurningu til okkar hvort við værum sammála þeim ummælum sem höfð voru eftir forsrh. í Morgunblaðinu einhvern dag hér í haust sem leið eða síðla sumars. Ég verð nú að segja eins og hæstv. viðskrh. að ég er ekki allt of vel lesinn í Morgunblaðinu undanfarna mánuði, ég hef haft ýmislegt annað að gera en að læra það utan að. En ég get líka tekið undir með hæstv. fjmrh. að auðvitað bar þessi samningsmál oft á góma. Ég minnist þess m.a. að það var haft eftir formanni Vinnuveitendasambands Íslands skömmu eftir að samningarnir sem kenndir hafa verið við þjóðarsátt voru gerðir að BHMR - samningarnir væru tímasprengja sem þyrfti að aftengja.
    Ég er þeirrar skoðunar að þegar samningurinn sem gerður var við BHMR í maí 1989 er lesinn sé þar að finna tvö ákvæði sem ég hefði talið nægjanlega tryggingu fyrir því að ekki þurfti að fara sem fór. Ég tek undir með hæstv. fjmrh. að í 1. gr. samningsins er skýrt ákvæði um að samningurinn megi ekki verða til þess að raska kjörum á hinum almenna vinnumarkaði. Í öðru lagi er að finna í 5. gr. samningsins skýrt ákvæði þess efnis að það megi taka hvers kyns kjarabætur sem fáist með óbeinum hætti og meta til jafns við þá leiðréttingu sem 5. gr. gerði ráð fyrir. Ég taldi alltaf að sá ávinningur sem þjóðarsáttin hefur fært öllum landsmönnum gæfi fyllilega tilefni til þess að koma þar í staðinn fyrir þá hækkun sem krafist var skv. 5. gr. Ég er enn þá þeirrar skoðunar að í raun hafi þjóðarsáttin fært BHMR - félögum mun betri og meiri kjarabætur en þessi launahækkun upp á 4,5% hefði fært þeim. Hefði það gengið eftir er ég fullviss um að sú skammtímakjarabót sem sú hækkun hefði fært BHMR - félögum væri löngu burt gengin og kjör þeirra væru nú miklu rýrari en fyrir þá breytingu. Þess vegna er ég enn þá sannfærður um það að það hefði í raun verið ofurauðvelt af hálfu samninganefndar BHMR að setjast niður með fulltrúum ríkisstjórnarinnar og ganga frá samningum um þetta atriði. Ég lýsti því yfir áður í kvöld að það hefur valdið mér miklum vonbrigðum að samninganefndin skyldi ekki fallast á að ganga til samninga við ríkisstjórnina um að breyta samningnum þannig að ekki þyrfti að koma til setningar bráðabirgðalaga til að fella í burt 4,5% launahækkun sem þeir fengu dæmda með Félagsdómi eða breyta öllum kjarasamningum í landinu til að koma í veg fyrir að verðbólga færi hér á fullt aftur eins og lá hér í augum uppi að mundi gerast ef það hefði náð fram að ganga að BHMR - félagar hefðu fengið þessi 4,5%.
    Ástæðan fyrir því að ekki var gengið til samninga við BHMR strax að loknum þjóðarsáttarsamningum

var einfaldlega sú að menn töldu, eins og ég hef getið hér um, að það væru nægjanlegar tryggingar í samningnum, að það þyrfti í raun og veru ekki að hafa áhyggjur af því að til þessa sem gerðist mundi koma.
    Annað er svo að það er ósköp eðlilegt að menn vildu sjá hvernig þjóðarsáttin þróaðist, einmitt með hliðsjón af þessu ákvæði 5. gr., hvort þjóðarsáttin mundi í raun færa almenningi í landinu raunhæfar kjarabætur. Það má kannski segja að það hafi fyrst komið í ljós þegar leið fram á sumarið 1990 að þjóðarsáttin mundi gera það. Þá um leið var augljóst að BHMR - félagar mundu fá verulegar kjarabætur vegna þjóðarsáttarinnar. Þess vegna er ég enn þá þeirrar skoðunar að það hafi verið mikil mistök af hálfu samninganefndar BHMR - manna að ganga ekki til viðræðna um að breyta samningnum frá vorinu 1989 með hliðsjón af þeim kjarabótum sem þjóðarsáttin færði þeim.