Stjfrv. um tryggingagjald
Þriðjudaginn 18. desember 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Það er vissulega skemmtileg hugdetta hjá hv. þm. Friðriki Sophussyni að prentararnir í Gutenberg séu búnir að taka að sér að semja frv. (Gripið fram í.) Já, það var nú einmitt það sem ég ætlaði að segja. Það minnir einmitt á þá gömlu sögu þegar þekktur stjórnmálaleiðtogi, sem nú er látinn, hafði þá aðferð að skilja eftir nokkra punkta á blaði handa prenturunum sem síðan sömdu leiðarana í blaðið. Hefur þessi stjórnmálamaður löngum verið frægur fyrir þessa ágætu leiðara sem hann var talinn hafa skrifað í blað sitt. En trúverðugir menn herma að prentarinn hafi hins vegar samið eftir stikkorðunum sem skilin voru eftir. Það er nú hins vegar ekki þannig að vinnubrögðin séu orðin svona effektíf í Gutenberg heldur er það frv. sem hv. þm. spurði um samhljóða texta sem kynntur var í áliti þeirrar nefndar sem hann vék að hér í sínum upphafsorðum og dreift var til allra þingmanna fyrir nokkrum vikum síðan. Þetta frv. hefur einnig verið til meðferðar í sérstakri ráðherranefnd og í ríkisstjórnarflokkunum og hefur í þeim búningi sem það kemur hér fram jafnframt verið lagt fram sérstaklega í þingflokkunum fyrir nokkrum vikum síðan. Það liggur því alveg ljóst fyrir að það frv. sem hér er til umfjöllunar og mæla á fyrir hér á eftir er stjfrv.
    Það sem hins vegar kann að liggja að baki þeim orðum sem hv. þm. Friðrik Sophusson vék hér að er að frá upphafi, og reyndar um nokkuð langan tíma, hefur verið rætt um það að nauðsynlegt væri einnig að tengja slíkar breytingar á skattlagningu atvinnulífs, sem hér er lagt af stað með, breytingu á aðstöðugjaldi. Það hefur komið fram að viðræður hafa farið fram milli Sambands ísl. sveitarfélaga og félmrh. og fjmrh. um það mál. Þær leiddu til þess að stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga gerði samþykkt um það að vera reiðubúin til þess að setja á fót nefnd sameiginlega með félmrn. og fjmrn. til að skila tillögum fyrir 1. ágúst, ef ég man rétt, á næsta ári um afnám aðstöðugjalds og breytingar á tekjustofnum sveitarfélaga í samræmi við það. Jafnframt kom fram að af hálfu forsvarsmanna sveitarfélaganna var beint þeim tilmælum til allra sveitarfélaga að hækka ekki aðstöðugjaldið á næsta ári. Hins vegar hefur komið fram í viðræðum við sveitarfélögin að í reynd verður um raunaukningu í tekjum sveitarfélaga af aðstöðugjaldi að ræða á næsta ári vegna þess að grunnurinn hækkar meira en verðlagsbreytingarnar. Þannig að í reynd ættu aðstöðugjöld á næsta ári að lækka um 0,1% frá því í ár ef sveitarfélögin ættu að hafa sömu rauntekjur.
    Það hefur komið fram hjá ýmsum, bæði innan stjórnarliðsins og eins hjá forustumönnum í atvinnulífi, að tengja ætti saman þá áfanga sem orðaðir eru í frv. við breytingar á aðstöðugjaldi á næstu árum. Þess vegna væri hugsanlegt í endanlegri afgreiðslu málsins að orða þessa áfanga ekki eins og gert er í frv. heldur tengja það við þá vinnu sem fram undan er varðandi aðstöðugjaldið. Þetta er mál sem ég tel eðlilegt að nefndin athugi í samræmi við þingvenjur

og tengist auðvitað viðhorfum manna til þeirra framtíðarbreytinga sem eiga að verða á skattlagningu atvinnulífsins. Má segja að frá því að frv. var afgreitt endanlega í umfjöllun í þingflokkum og ríkisstjórn hefur það komið skýrt fram hver afstaða sveitarfélaganna hefur verið til aðstöðugjaldsins. Það má segja að um tvær leiðir sé að ræða í þessum efnum, lögfesta frv. í þeim búningi sem það er lagt fram og treysta því að vinna með sveitarfélögunum um breytingar á aðstöðugjaldi skili árangri á næstu árum og hafa þá tíma til þess að taka frv. upp og breyta því á næsta þingi ef sú vinna skilar ekki árangri. Eða þá að skilyrða lögfestingu frv. eins og endanlega verður frá því gengið við að sú vinna beri árangur. Þetta tel ég eðlilegt að þingnefndin fjalli um og meti vegna þess að hér er ekki um efnislega afstöðu að ræða heldur afstöðu til þess hvernig að því verður staðið á næstu árum að fylgja eftir þeirri kerfisbreytingu sem þarna er mörkuð.
    Ég vil hins vegar segja það, af því að hér var vikið að forsvarsmönnum atvinnulífsins, að auðvitað er það rétt að ekki hefur verið rætt við alla forsvarsmenn atvinnulífsins. Hins vegar hafa þeir forsvarsmenn meginsamtaka atvinnulífsins sem við höfum rætt við á undanförnum vikum og mánuðum lýst sig eindregið fylgjandi þeim breytingum sem hér eru lagðar til. Ég vona þess vegna að þingið geti fjallað um málið á árangursríkan hátt, bæði í umræðum og eins í nefndarstarfinu, og tel að málin geti skýrst mjög með því að mæla fyrir frv. hér í dag og taka það til umræðu og nefndin haldi áfram vinnu sinni við það. En ég hlýt að leggja á það ríka áherslu að málið verði afgreitt fyrir áramót, bæði vegna þess að nauðsynlegt er að halda tempói í þeim skattkerfisbreytingum sem við höfum verið að framkvæma og eins vegna þess að frv. er þáttur í tekjuforsendum fjárlagafrv.