Stjórnarráð Íslands
Þriðjudaginn 18. desember 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson) :
    Herra forseti. Hér er til meðferðar frv. sem er tiltölulega lítil breyting á Stjórnarráði Íslands. Það hefur verið í athugun núna um nokkurt skeið í milliþinganefnd með fulltrúum allra þingflokka umtalsverð og jafnvel getum við sagt mjög víðtæk breyting á Stjórnarráðinu. Þó eru þar einstök atriði, m.a. það sem ég mun lýsa hér á eftir, sem menn hafa talið ástæðu til að flýta.
    Í þessu frv. er gert ráð fyrir því að sameina fjmrn. og Fjárlaga - og hagasýslustofnun í eitt ráðuneyti og með samþykki forsrh. á þessu ári var það gert. Stjórnarráðslögin heimila að forsrh. geti samþykkt að einn ráðuneytisstjóri gegni tveimur ráðuneytum. Að okkar mati og þeirra sem að þessu komu er tvímælalaust hagræði að þessu eins og málum er nú háttað í fjmrn. Þetta frv. fjallar því um það eitt að sameina þessi tvö ráðuneyti sem hafa verið undir einum ráðherra alla tíð og hafa nú um nokkurt skeið tímabundið starfað undir einum ráðuneytisstjóra.
    Ég ætla ekki að hafa lengri framsögu og vil leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.