Stjórnarráð Íslands
Þriðjudaginn 18. desember 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð. Ég er alveg sammála því að það ber að stefna að endurskoðun á lögunum um Stjórnarráðið. Við þá endurskoðun hafa menn oft rætt um fækkun ráðuneyta með því að steypa saman þeim ráðuneytum sem nú eru til staðar og yfirleitt eru í höndum ólíkra ráðherra. Munurinn á því sem hér er lagt til og almennri endurskoðun á stjórnarráðslögunum er sá að Fjárlaga- og hagsýslustofnun hefur ávallt verið í höndum fjmrh. og fjmrn. Þetta hafa í reynd verið tvær greinar á sama meiði og hafa aldrei verið aðskildar í höndum ólíkra ráðherra, heldur þvert á móti verið meginhluti af embætti fjmrh. Ég held hins vegar að bæði ég og fyrirrennarar mínir ýmsir hafi komist að raun um það að það hlaust margvíslegt óhagræði og óhagkvæmni af því að vera með þessa tvískiptingu, sérstaklega í ljósi þeirra breytinga sem kröfur eru gerðar um varðandi ný vinnubrögð í ríkisrekstri og gerð fjárlaga. Það er þess vegna sannfæring allra þeirra embættismanna sem að þessu máli hafa komið, og fleiri sem ég hef rætt við, m.a. ýmissa fyrirrennara minna, að fjmrn. og sú starfsemi sem verið hefur í Fjárlaga- og hagsýslustofnun yrði mun áhrifaríkari og ódýrari við það að sameina þær stofnanir með þessum hætti eins og við höfum gert í reynd núna í rúmlega hálft ár eftir að sama embættismanninum, Magnúsi Péturssyni, var falið að stjórna bæði fjmrn. og Fjárlaga- og hagsýslustofnun. Sú að mörgu leyti óeðlilega verkaskipting að annars vegar væru embættismenn í Fjárlaga- og hagsýslustofnun sem undirbyggju fjárlög og hins vegar embættismenn í fjmrn. sem framkvæmdu fjárlög hefur í reynd verið afnumin og menn taka upp eðlilegri skiptingu þar sem menn fjalla um verkefni eftir því hvort þau tengjast tekjum eða gjöldum eða öðrum stjórnsýslulegum verkefnum ráðuneytisins. Ég vona að þingið geti afgreitt þetta frv. vegna þess að ég tel það hafa töluvert mikla sérstöðu saman borið við hina almennu endurskoðun á stjórnarráðslögunum og fækkun ráðuneyta. Hér er fyrst og fremst verið að óska eftir lagalegri staðfestingu á þeirri hagkvæmni og betri vinnubrögðum í rekstri fjmrn. sem mikið hefur verið kallað á að undanförnu. Ég vil mælast til þess að í meðferð málsins íhugi menn í fullri vinsemd hvort þeir eru ekki reiðubúnir að gefa þeirri vinnu traustan lagagrundvöll þó ég skilji vel að menn séu orðnir óþolinmóðir eftir að fá heildarendurskoðun á lögunum um Stjórnarráð.