Stjórnarráð Íslands
Þriðjudaginn 18. desember 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Það er eðlilegt að umræður um þetta frv. tengist þeim áformum sem uppi eru um róttækar breytingar á Stjórnarráði Íslands og ráðuneytaskiptingu þess. Það er rétt ábending hjá hv. 17. þm. Reykv. að það hafa verið gerðar tvær fyrirkomulags- og framkvæmdabreytingar innan Stjórnarráðsins sem eru af sama tagi. Hér er gerð tillaga um lögfestingu annarrar þeirra. Mér finnst eðlilegt að þingnefndin sem um málið fjallar hugleiði hvort ekki sé þá eðlilegt að lögfesta þær báðar. Ég tek það fram að ég hef að mörgu leyti sama skilning á þessu máli eins og kom fram í máli 1. þm. Suðurl. og 17. þm. Reykv., að það eigi að tengja það áformunum um breytingar á Stjórnarráðinu í víðara samhengi. Hins vegar tel ég að hvor tveggja breytingin sem hér er nefnd, bæði sú að sameina Fjárlaga- og hagsýslustofnun og fjmrn. undir einum ráðuneytisstjóra og viðskrn. og iðnrn. undir einum og sama hatti, njóti svo víðtæks stuðnings að það skaði alls ekki hið stærra málið að staðfesta þessi skref.