Stjfrv. um tryggingagjald
Þriðjudaginn 18. desember 1990


     Þorsteinn Pálsson :
     Herra forseti. Ég skal ekki lengja þá þingskapaumræðu sem fór fram í upphafi þessa fundar. En hún staðfesti að það verklag er nú af hálfu hæstv. ríkisstjórnar að frv. eru lögð fram án þess að um þau sé samkomulag milli stjórnarflokkanna. Það hefur jafnframt komið hér fram af forsetastóli að eðlilegt væri að sá ágreiningur væri ræddur á milli hlutaðeigandi aðila utan þingsalar. Ég tók undir þá hugmynd sem forseti kom með í því efni og vil nú að gefnu því tilefni beina þeirri fyrirspurn til forseta hvort ekki sé eðlilegt að
skjóta umræðu um þetta mál á frest þangað til að hlutaðeigandi aðilum hefur gefist betra tóm til að ræða það sín í milli því að af augljósum ástæðum eru þingmenn svolítið í lausu lofti með að taka afstöðu til frv. meðan ekki er vitað hver stjórnarstefnan er og upplýst hefur verið að ágreiningur er jafnmikill um grundvallaratriði í þessu efni eins og hér hefur komið fram. En spurning mín er einfaldlega þessi, hvort hæstv. forseti telji ekki rétt að framkvæma þá tillögu sem hann sjálfur bar fram um málsmeðferð.