Tryggingagjald
Þriðjudaginn 18. desember 1990


     Þorsteinn Pálsson :
    Herra forseti. Ég skal fyrir mitt leyti verða við þeim tilmælum að lengja ekki þessa umræðu. Ég lít hins vegar svo á að reiðirispa hv. 12. þm. Reykv. beri þess nokkurn vott að athugasemdir mínar hafi komið við viðkvæman blett. Hvað sem líður öllum hugsjónum þá geta menn ekki vikist undan þeirri staðreynd að sé kostnaður atvinnufyrirtækjanna af launum hækkaður um 2%, þá rýrir það möguleika þeirra að sama skapi til þess að bæta kjör starfsfólksins. Sú staðreynd er afar augljós og þarf ekki að fara í langar ræður þar um. Það kann að vera almennt eðlilegt markmið að samræma skattheimtu en við núverandi aðstæður sýnist mér að það sé alveg augljóst að sú jöfnun verður gerð á kostnað þeirra atvinnugreina sem í hlut eiga og þess starfsfólks sem þar vinnur. Ég hlaut að vekja athygli á því að stór hluti þess starfsfólks eru einmitt konur sem Kvennalistinn hefur verið að bera fyrir brjósti í orðræðum undanfarin ár.
    Ég minni á það að launaskattur var með öllu lagður niður í þessum tveimur atvinnugreinum í tengslum við kjarasamninga sem gerðir voru árið 1986. Vegna hvers? Vegna þess að það var að mati launafólksins sjálfs og atvinnurekendanna eina leiðin til þess að bæta kaupmáttinn og kaupmáttur hefur ekki batnað meira á einu ári um langan tíma en einmitt á því ári. Ég minni á að þegar sú ráðstöfun hafði verið gerð þá voru gerðir samningar, sem um margt voru taldir tímamótasamningar á þeim tíma, á milli atvinnurekenda og launafólks vegna þess að þá voru í fyrsta sinn sett sérstök ákvæði um lágmarkslaun sem ég hygg að hafi fyrst og fremst þjónað þeim sem þá höfðu lægst laun í þjóðfélaginu. Ég hygg að það sé líka rétt fullyrðing sem Kvennalistinn hefur lengi borið fram að að stærstum hluta séu það konur sem eru á lægstu launatöxtunum. Einmitt í kjölfar þessarar breytingar sem gerð var til þess að auðvelda atvinnufyrirtækjunum að bæta kaupmáttinn 1986 var samið um slíka breytingu í kjarasamningum og það var, svo maður grípi til orða úr orðasafni hæstv. fjmrh., nokkuð einstæður viðburður og nokkur tímamót í kjarasamningagerð í landinu. Ég er því þeirrar skoðunar að reynslan færi rök að þeim fullyrðingum sem ég hef hér fært fram og þeim athugasemdum, hvað sem líður öllum hugsjónum.