Tekjuskattur og eignarskattur
Þriðjudaginn 18. desember 1990


     Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. Það er ætíð fagnaðarefni þegar menn viðurkenna mistök sín og misgerðir og láta iðrun sína koma fram í verki. En það háttar einmitt þannig til um það síðasta atriði sem hæstv. ráðherra gerði hér að umtalsefni og varðar ákvæði til bráðabirgða í því frv. sem hér er til umfjöllunar.
    Þetta ákvæði til bráðabirgða gerir ráð fyrir því að afturkölluð verði sú ósvinna sem hér var ákveðin að frumkvæði fjmrh. um þetta leyti á síðasta ári, er skilgreiningu vaxta var breytt í desembermánuði og sú skilgreining látin ná til alls ársins. Á þessa ósvinnu hef ég margbent, m.a. hér í þinginu á síðasta vori þegar ég lagði fram frv. um að afturkalla þessa breytingu, sömuleiðis eftir skattálagningu á síðasta sumri þegar í ljós kom að hér áttu hlut að máli hópar manna sem ekki höfðu átt sér neins ills von þegar þeir gerðu fjárhagslegar ráðstafanir á árinu 1989 á grundvelli laganna eins og þau voru þá. Síðan lagði ég hér fram frv., virðulegi forseti, sem er 105. mál þingsins um að leiðrétta afturvirk ákvæði bæði að því er þetta atriði varðar og eins að því er varðar útreikning húsnæðisbóta.
    Nú háttar þannig til, herra forseti, að ákvæði til bráðabirgða í frv. ráðherra er orðrétt upp úr frv. því sem ég hef hér flutt, upp úr 2. gr. frv. Vænti ég að hv. formaður fjh. - og viðskn. veiti því athygli að ákvæði til bráðabirgða í frv. ráðherra er orðrétt tekið upp úr því frv. sem ég flutti hér um leiðréttingu á afturvirkum ákvæðum og eru það tvær málsgreinar í 2. gr. þess frv. sem ég flutti. Þessu hlýt ég að sjálfsögðu að fagna því hér er viðurkenning ráðherrans, eins og ég gat um, á hans fyrri mistökum í þessu máli og ég fagna því að hann skuli einfaldlega taka þetta ákvæði óbreytt upp úr mínu frv. Hins vegar sakna ég þess, virðulegi forseti, að það skuli þá ekki gengið hreint til verks og þessi afturvirkni leiðrétt að öllu leyti, líka gagnvart því fólki sem varð fyrir barðinu á henni að því er varðar húsnæðisbætur. Ég býst við að það sé miklu minni hópur heldur en vaxtabótaákvæðið og vaxtaskilgreiningin bitnaði á, ég hugsa að það sé minni hópur vegna þess að eflaust hafa margir þeirra sem reiknuðu með húsnæðisbótum getað nýtt sér ákvæði laga um vaxtabætur í þeirra stað.
    Hins vegar vil ég láta það koma fram hér við 1. umr. --- um leið og ég fagna því að ákvæði til bráðabirgða eins og það er skuli tekið upp úr mínu frv. --- að ég mun flytja brtt. við frv. ráðherra um að 1. gr. þess frv. sem ég flutti verði einnig tekin inn í ákvæði til bráðabirgða, en þar er um að ræða þá aðila sem urðu fyrir barðinu á afturvirkni ákvæða varðandi húsnæðisbætur. Ég tel eðlilegt að þetta mál verði klárað í einu lagi og um leið og ég fagna því að ráðherrann skuli ætla að stíga hálft skref, þá skora ég á hann að koma enn frekar til móts og stíga skrefið til fulls og leiðrétta þessa afturvirkni alveg. Býð ég honum sem sé til samstarfs um það að breyta frv. með þeim hætti sem brtt. mínar munu gera ráð fyrir, en ég vænti þess að þær muni koma til umfjöllunar í fjh. - og viðskn.

samtímis frv.
    Ég skal ekki eyða fleiri orðum að þessu atriði en allir eiga leiðréttingu bæði orða sinna og gerða að svo miklu leyti sem þær verða aftur teknar og ég sem sagt fagna því enn á ný að ráðherrann hefur viðurkennt sín fyrri afglöp í þessu máli og er tilbúinn til að leiðrétta þau að hluta til þó svo ég telji rétt að ganga enn lengra og mismuna ekki á milli þeirra sem urðu fyrir barðinu á þessari afturvirkni.
    Að því er varðar önnur ákvæði frv., herra forseti, þá er ekki ástæða til þess að hafa um þau mörg orð. Ég tel það að sjálfsögðu eðlilegt að breyta viðmiðunum í lögunum að því er varðar eignarskattsfrelsi og að því er varðar þá liði aðra sem tengjast eignum manna til þess að skattbyrði þyngist ekki með hækkuðu fasteignamati og það er ástæða til þess að fagna því að þetta frv. gerir ráð fyrir því að hækkun fasteignamatsins verði ekki nýtt sem tekjustofn fyrir ríkið. Ég hygg að 2. og 3. gr. frv. auk hinnar 7. séu þessa efnis.
    Auk hinna tæknilegu breytinga sem þetta frv. gerir ráð fyrir og varða lögheimili og aðfararhæfni gagnvart aðila í sjálfstæðum atvinnurekstri sem eigi hefur staðið skil á staðgreiðslufé, þá er hér eitt atriði annað sem ástæða er til að gera að umtalsefni og það er 6. gr. frv. sem gerir ráð fyrir því að hin svonefndu ríkisbréf sem nýlega eru komin á markað njóti skattfrelsis með sama hætti og ríkisskuldabréf, húsbréf og ríkisvíxlar. Það er út af fyrir sig eðlilegt að öll skuldabréf ríkisins njóti sömu skattmeðferðar. En mér finnst ástæða til að spyrja þeirrar spurningar hér til umhugsunar fyrir alla aðila hvort ekki sé ástæðulaust að ríkið njóti eitt sérstakra forréttinda með sín verðbréf og skuldabréf umfram aðra aðila í landinu að því er varðar skattfrelsi. Ég held að það hljóti óhjákvæmilega að enda með því fyrr eða síðar að allir aðilar sitji við sama borð á þessum markaði að því er varðar eignarskattsfrelsi að skattalögum.
    Þetta vildi ég eingöngu nefna hér, virðulegi forseti, af því að ég tel tímabært að ræða það í fullri alvöru hvort þetta eignarskattsfrelsi ríkisskuldabréfa eigi áfram fullan rétt á sér en hef þó ekki í hyggju að flytja neinar breytingar við þetta atriði á þessu stigi.
    Að öðru leyti, herra forseti, sé ég ekki ástæðu til þess að fjölyrða um frv. þetta.