Staðgreiðsla opinberra gjalda
Þriðjudaginn 18. desember 1990


     Forseti (Árni Gunnarsson) :
    Forseti ætlaði að reyna að ná fram atkvæðagreiðslu í tveimur veigamiklum málum sem samkomulag var um að færu til nefndar í dag. En það er alveg ljóst að hv. stjórnarandstæðingar hyggjast ekki koma til starfa í hv. þingdeild og þykir forseta það lakara. Þingsköp kveða skýrt á um það að þingmönnum ber skylda til að taka þátt í atkvæðagreiðslu, sama hvort um er að ræða stjórnarsinna eða stjórnarandstæðinga. Í húsi eru núna 25 hv. þingdeildarmenn, þar af 18 stjórnarliðar og sjö stjórnarandstæðingar. Það hefði því átt að vera raunhæfur kostur að ná hér fram atkvæðagreiðslu. Enn vantar tvo hv. þingdeildarmenn til þess að unnt sé að ná fram þessari atkvæðagreiðslu. Er forseta næst skapi að gera hlé á þessum fundi á meðan stjórnarliðar eru kallaðir út, ef hv. stjórnarandstaða hyggst ekki taka þátt í lögbundnum þingstörfum.