Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um sjóðshappdrætti til styrktar flugbjörgunarmálum og skák sem hér er flutt á þskj. 344. Tilgangurinn með því að leggja frv. fram er að freista þess að lögfesta ákvæði sem hjálpi til við fjármögnun nýrrar björgunarþyrlu fyrir Landhelgisgæsluna. Ef vel tekst til getur hér orðið um verulegan tekjustofn að ræða. Málefni þetta, þ.e. björgunarstarf sem þyrlusveit Landhelgisgæslunnar innir af hendi, nýtur velvildar og áhuga allrar þjóðarinnar. Ég tel því að landsmenn allir vilji hjálpast að við að styrkja þetta starf og að hver og einn sé tilbúinn til þess að leggja þar nokkuð af mörkum jafnframt því að eiga von um að hljóta vinning.
    Frv. er byggt á samkomulagi Landssambands flugbjörgunarsveita og Skáksambands Íslands um rekstur happdrættis. Þó að hér séu aðeins tvö landssambönd, þ.e. Skáksamband Íslands og Landssamband flugbjörgunarsveita, upphafsaðilar þessa máls er augljóst að fleiri aðilar, einkum þeir sem vinna að björgunarmálum og hafa mikinn áhuga á endurnýjun þyrluflotans, svo sem Slysavarnafélag Íslands og Landssamband hjálparsveita skáta, koma vel til greina sem þátttakendur í þessu átaki sem hér er verið að leggja grunn að. Ekki er óeðlilegt að slíkt yrði athugað nánar í þingnefnd og ég vil raunar leggja það til. Fyrirhugað er að happdrættið fari fram með þeim hætti að þátttakendur greiði tiltekna fjárhæð eða margfeldi þeirrar fjárhæðar í sérstakan sjóð sem safnað er upp um tiltekinn tíma en um vinninga verði síðan dregið með tilviljunarkenndum hætti. Gert er ráð fyrir að ákveðið hlutfall, t.d. helmingur þess fjár sem inn kæmi, færi í greiðslu vinninga. Vinningar yrðu í formi ríkisskuldabréfa og mundu stuðla að innlendum sparnaði á sama tíma. Af ágóðanum yrðu 40% eftir hjá rekstraraðilum en 60% mundu renna í sjóð sem yrði þátttakandi í fjármögnun nýrrar björgunarþyrlu.
    Það er mjög brýnt fyrir Landhelgisgæslu Íslands að eins fljótt og hægt er verði keypt önnur stór þyrla til að sinna því björgunarstarfi sem Landhelgisgæslan hefur sinnt og til þess að efla það og styrkja. Happdrættið gæti, ef vel tekst til, aflað verulegra fjármuna auk þess sem það mundi auka möguleika á að aðrar fjármögnunarleiðir yrðu farnar jafnframt.
    Verður nú vikið að einstökum greinum frv.
    1. gr. felur í sér heimild til þess að veita greindum landssamböndum leyfi til þess að starfrækja sjóðshappdrætti. Með orðinu sjóðshappdrætti er átt við happdrætti þar sem vinningsfjárhæð er ekki ákveðin fyrir fram heldur ræðst hún af þeirri fjárhæð sem safnast hefur í sjóð fram að einhverju ákveðnu tímamarki þegar sölu er hætt.
Leyfi til starfrækslu happdrættis af þessu tagi verður ekki veitt án lagaheimilda og lagt er til að heimildin verði tímabundin.
    Í 2. gr. er fjallað um að happdrættið er óvenjulegt að því leyti að fyrir fram er ekki vitað hversu háir vinningar verða heldur ræðst það af þátttöku í happdrættinu. Ekki er skilgreint nákvæmlega með hvaða hætti dráttur skuli fram fara en gert ráð fyrir að það verði með svipuðum hætti og tíðkast um önnur happdrætti. Dráttur fari fram undir eftirliti borgarfógetans í Reykjavík en eftir 1. júlí 1992 sýslumannsins í Reykjavík. Kveða þarf á um fyrirkomulag þessa í reglugerð.
    Í 3. gr. segir að samkomulag sé nú þegar milli Landssambands flugbjörgunarsveita og Skáksambands Íslands um fyrirkomulag í stjórn þess félags sem ætlað er að starfrækja happdrættið. Þar er gert ráð fyrir að hvort samband skipi tvo stjórnarmenn en dómsmrh. skipi formann. Um rekstur happdrættis er gert ráð fyrir að aðilar geri samkomulag, sem dómsmrh. staðfesti. Þar verði kveðið á um ábyrgð á rekstri félagsins.
    4. gr. er í samræmi við það sem gildir um happdrætti almennt.
    Í 5. gr. er lagt til að ráðherra kveði á um vinningshlutfall en fjárhæð vinninga ræðst af þátttöku. Sem meginregla er í upphafi miðað við að a.m.k. 50% af heildarsöluverði miða hverju sinni verði varið til vinninga. Ekki þykir rétt að lögfesta ákvæði um vinningshlutfall enda geta ýmsir þættir, svo sem rekstrarkostnaður og markaðsaðstæður á hverjum tíma, leitt til þess að heppilegt geti verið að breyta vinningshlutfallinu.
    Einstakir vinningar verða ákveðnir sem tiltekinn hundraðshluti af þeirri fjárhæð sem fellur til greiðslu vinninga. Það að vinningar megi vera í formi ríkisskuldabréfa veitir þessu happdrætti sérstöðu umfram önnur. Í því felst ekki bann við að vinningar verði aðrir en ríkisskuldabréf en beinir peningavinningar eru ekki heimilir.
    Í 6. gr. er kveðið á um það í hvaða skyni ágóða af rekstri happdrættisins skuli varið. Annars vegar er það til eflingar starfsemi landssambandanna tveggja og hins vegar til kaupa á björgunarþyrlu.
    Í 7. gr. er gert ráð fyrir að um starfsemi happdrættisins verði kveðið nánar í reglugerð. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um einstakar greinar en vísa til frv. og athugasemda með því.
    Ég vil síðan, hæstv. forseti, fara þess á leit að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. allshn.