Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Herra forseti. Tillögumaður, hæstv. ráðherra, hefur ekki orðið við ósk minni um að knýja ekki á um að málið gangi til nefndar og 2. umr. Hann beinlínis sagðist mundi halda því til streitu og leggja á það áherslu. Það eru furðuleg vinnubrögð að geta ekki orðið við þessu. Þetta þýðir auðvitað ekkert annað en að við í stjórnarandstöðunni, sem höfum haldið uppi störfum hér í deildinni vegna þess að stjórnarþingmennirnir hafa ekki mætt ærið vel hér og höfum viljað greiða fyrir framgangi mála, hljótum að endurskoða afstöðu okkar.
    Ég lýsi því hér og nú yfir að verði ráðherrann ekki við þessari sjálfsögðu og sanngjörnu ósk þá erum við auðvitað ekki til reiðu til þess að veita afbrigði fyrir öðrum málum sem þurfa að komast fram. Ég geri það a.m.k. ekki. Og það verða þá engir samningar um neitt annað. En mér skilst nú að forseti ætli að fresta þessari umræðu og vonandi verður hún ekki tekin upp aftur fyrr en eftir jól.