Lánsfjárlög 1991
Miðvikudaginn 19. desember 1990


     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Guðmundur Ágústsson) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 355 frá meiri hl. fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar um frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1991.
    Nefndin klofnaði í afstöðu sinni til frv. Fjórir nefndarmenn rita undir nál. meiri hl. Eru það Jóhann Einvarðsson, Skúli Alexandersson, Eiður Guðnason og Guðmundur Ágústsson með fyrirvara.
    Minni hl. fjh.- og viðskn. skilar séráliti á þskj., sem hefur ekki verið dreift eftir því sem mér hefur skilist, en leggur þar til að frv. verði fellt geri ég ráð fyrir.
    Ég hef sem formaður nefndarinnar tekið að mér að fylgja nál. úr hlaði, og gera grein fyrir efnisinnihaldi þess og skýra þær brtt. sem meiri hl. nefndarinnar hefur orðið ásáttur um að gerðar verði á frv. Þær brtt. koma fram á þskj. 364. Um afstöðu mína gerði ég fyrirvara, eins og ég kom að áður, og kem að undir lok ræðu minnar.
    Nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. hljóðar svo:
    ,,Nefndin hefur haft frv. til athugunar um nokkurt skeið og fékk til fundar við sig Steingrím J. Sigfússon samgrh., Tómas Árnason, Eirík Guðnason og Ingimund Friðriksson frá Seðlabanka Íslands, Leif Kr. Jóhannesson frá Stofnlánadeild landbúnaðarins, Benedikt Jónsson frá Lífeyrissjóði bænda, Hermann Guðjónsson og Eyþór Elíasson frá Vita- og hafnamálastofnun, Harald Andrésson frá Hafnabótasjóði, Kristínu Halldórsdóttur og Magnús Oddsson frá Ferðamálaráði, Jóhönnu Leópoldsdóttur og Snorra Tómasson frá Ferðamálasjóði, Þorstein Jónsson frá Kvikmyndasjóði, Braga Hannesson frá Iðnlánasjóði, Þorvald Alfonsson frá Iðnþróunarsjóði, Guðmund Malmquist frá Byggðastofnun, Markús Örn Antonsson og Hörð Vilhjálmsson frá Ríkisútvarpinu, Pál Hersteinsson veiðistjóra, Jóhönnu Ottesen frá Útflutningslánasjóði, Hrafn Pálsson frá Framkvæmdasjóði aldraðra, Hauk Halldórsson frá Stéttarsambandi bænda, Gísla Karlsson frá Framleiðnisjóði, Þórð Skúlason og Birgi Blöndal frá Bjargráðasjóði, Sveinbjörn Óskarsson frá fjmrn., Magnús Jónasson og Tryggva Jónasson frá Herjólfi hf., Þórð Friðjónsson frá Þjóðhagsstofnun, Hilmar Þórisson, Hauk Sigurðsson og Hönnu Bj. Ragnarsdóttur frá Húsnæðisstofnun ríkisins, Hauk Hafsteinsson frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóði hjúkrunarkvenna, Margréti Margeirsdóttur og Grétu Aðalsteinsdóttur frá Framkvæmdasjóði fatlaðra, Stefán Thors frá Skipulagi ríkisins, Helga Hallgrímsson og Hannes Sigurðsson frá Vegagerð ríkisins, Hauk Hauksson frá Flugmálastjórn, Árna Þór Sigurðsson og Þórð G. Valdimarsson frá Lánasjóði ísl. námsmanna, Þórleif Jónsson frá Landssambandi iðnaðarmanna, séra Guðmund Þorsteinsson dómprófast, Helga K. Hjálmsson frá leikmannaráði þjóðkirkjunnar og biskup Íslands, herra Ólaf Skúlason.
    Halldór Árnason, skrifstofustjóri Fjárlaga- og hagsýslustofnunar, og Jón Ragnar Blöndal frá fjmrn. hafa verið nefndinni til ráðuneytis og aðstoðar við yfirferð

málsins.``
    Hér á eftir verður gerð grein fyrir þeim brtt. sem meiri hl. nefndarinnar hefur orðið sammála um að flytja.
    Samkvæmt tillögunum hækka lántökuheimildir frv. um 2.411 millj. kr. og eru meginástæður þess eftirtaldar:
    Í fyrsta lagi er lagt til að lántökuheimild fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs hækki um 2.185 millj. kr. og verði 14.060 millj. kr. Aukin lánsfjárþörf stafar af eftirfarandi:
    1. Auknum rekstrarhalla A-hluta ríkissjóðs sem er 1 milljarður. Um það hefur víst orðið samkomulag í ríkisstjórninni að hætta við ýmis fyrirhuguð tekjuöflunarfrv. og auka hallann úr 3,7 milljörðum í 4,7 milljarða á næsta ári.
    2. Gert er ráð fyrir aukinni lántökuheimild Alþjóðaflugþjónustunnar og er þar um að ræða 385 millj. en í lánsfjárlagafrv. var gert ráð fyrir 115 millj. Með þessum 385 millj. verður samtals
til Alþjóðaflugmálaþjónustunnar 500 millj. og kem ég aðeins nánar að því síðar.
    Í þriðja lagi eru auknar afborganir af lánum ríkissjóðs, 800 millj. Samtals er þarna um að ræða 2 milljarða 185 millj. kr.
    Miðað við núverandi stöðu frv. til fjárlaga fyrir árið 1991 má ætla að halli A - hluta ríkissjóðs aukist eins og ég áður sagði um 1 milljarð kr. Lántökuheimild Alþjóðaflugmálaþjónustunnar fyrir árið 1991 nemur samtals 500 millj. kr. Í athugasemdum við 1. gr. frv. er gert ráð fyrir heimild fyrir 115 millj., eins og ég kom að áðan, en hún hækkar um 385 millj. kr. Þetta fé fæst endurgreitt frá Alþjóðaflugmálastofnuninni á 10 ára tímabili með 10% ársvöxtum. Andvirði lánsins verður notað í áframhaldandi uppbyggingu flugstjórnarkerfisins fyrir norðanvert Atlantshaf ásamt byggingu nýrrar flugstjórnarmiðstöðvar í Reykjavík og til kaupa á nauðsynlegum tækjabúnaði í hana.
    Ríkissjóður hefur yfirtekið skuldir Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins, sbr. lög nr. 34/1990, og kemur fyrri hluti þeirra, 800 millj., til greiðslu á árinu 1991. Lagt er til að flóabátnum Baldri verði veitt 15 millj. kr. lántökuheimild á árinu til að ljúka frágangi skipsins til þess að það öðlist haffærniskírteini, en skipið hefur aðeins haffærniskírteini til bráðabirgða sem rennur út 28. febr. 1991. Einnig er lagt til að Skallagrími hf., útgerðarfélagi Akraborgarinnar, verði veitt heimild til að taka 11 millj. kr. skuldbreytingarlán sem notað verður til að greiða upp erlent lán sem félagið hefur hjá Landsbanka Íslands. Það lán er með lokagjalddaga á næsta ári en fyrirsjáanlegt mun að Skallagrímur hf. geti ekki staðið undir þeirri greiðslu.
    Að lokum er lagt til að Hitaveitu Suðurnesja verði veitt 200 millj. kr. lántökuheimild á næsta ári til að gera nýja 132 kv. háspennilínu og tilheyrandi aðveitustöð, auk ýmissa annarra framkvæmda.
    Í frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1990 var tekið fram að af 900 millj. kr. lántökuheimild Byggðastofnunar væru 150 millj. kr. ætlaðar til endurlána vegna viðgerða og endurbóta skipa innan lands. Í athugasemdum við 7. gr. frv., sem fjallar um Byggðastofnun, er ekkert tekið fram um þessi endurlán. Nefndinni barst bréf frá iðnrh. þann 17. des. sl. þar sem hann væntir þess að af 900 millj. kr. lántökuheimild Byggðastofnunar fyrir árið 1991 verði 150 millj. ætlaðar til endurlána vegna viðgerða og endurbóta skipa innan lands eins og verið hefur. Meiri hl. nefndarinnar vill taka undir og ítreka þessa ósk iðnrh. og væntir þess að Byggðastofnun fari að þessum vilja þingsins og iðnrh.
    Breytingar á II. kafla frv. eru í samræmi við fjárlagafrv. fyrir árið 1991 og breytingar á því í meðförum fjvn. og Alþingis, auk þess sem nokkrar lagfæringar eru gerðar á frv. og kem ég að því síðar. Lagt er til að tekjustofnar Menningarsjóðs verði óskertir. Einnig er gert ráð fyrir að engin skerðing verði á hlutdeild sókna, skráðra trúfélaga og Háskólasjóðs í óskiptum tekjuskatti, þ.e. sóknargjöld. Í stað þess er lagt til að skerðing á hlutdeild kirkjugarða í óskiptum tekjuskatti, kirkjugarðsgjöldum, hækki úr 15% í 20%.
    Meiri hl. nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þskj.
    Ég hef hér farið yfir allt nál. og gert grein fyrir þeim brtt. sem meiri hl. nefndarinnar leggur til og ætla ekki að fara nánar út í þær breytingar. Hins vegar eru nokkur ákvæði sem ekki hafa verið tekin upp í nál. sem ég tel ástæðu til að fjalla hér um í nokkrum orðum áður en ég skýri afstöðu mína og þann fyrirvara sem ég hef gert til þessa frv.
    Það hefur verið lenska að ákveðnir lögbundnir tekjustofnar séu skertir í lánsfjárlagafrv. og eru það yfirleitt árlegar skerðingar. Er þetta hinn versti siður, að þingið ákveði við afgreiðslu ákveðinna laga, góðra málefna, að búa til ákveðna tekjustofna en síðan er það Alþingi, það sama Alþingi sem með lánsfjárlögum skerðir þá frá ári til árs. Má þar nefna Framkvæmdasjóð aldraðra, Framkvæmdasjóð fatlaðra og aðrar stofnanir eins og í þessu fjárlagafrv., líka varðandi Ríkisútvarpið sem ég tel að þurfi að byggja upp á komandi árum. Þar er einnig um að ræða tekjustofn um eyðingu minka og refa og sé ég ekki mikið eftir því þó að sá tekjustofn verði látinn niður falla, enda tel ég að ástandi þessara dýra hér á Íslandi stafi nú ekki mikil hætta af og er reyndar gert ráð fyrir því í brtt. meiri hl. að þær reglur verði endurskoðaðar og meira mið tekið af því að verðlauna þá veiðimenn sem deyða þessi dýr í staðinn fyrir að gera út menn til skipulagsbundinna veiða. En það kom fram í máli veiðistjóra að aðeins lítill hluti af þeirri fjárhæð sem varið er til eyðingar refa og minka fer til verðlauna en stærsti hlutinn fer til skipulagsbundinna veiða.
    Ég hef þá farið yfir það sem ég vildi segja um þessi atriði en þau meginmarkmið sem að er stefnt í þessu fjárlagafrv. tel ég rétt að fara yfir og að því beinist sá fyrirvari sem ég hef gert á þessu nál.
    Í frv. er gert ráð fyrir mjög miklum lántökum á næsta ári af hálfu ríkissjóðs. Það er í sjálfu sér mjög gott að fjármagna allan halla ríkissjóðs hér innan

lands í staðinn fyrir að taka lán erlendis. Hins vegar hefur þessi ákvörðun ýmislegt annað neikvætt í för með sér eins og fram hefur komið á þessu ári og kemur fram í máli þeirra sem fyrir nefndina komu. Þá minnist ég sérstaklega álits Þjóðhagsstofnunar og Seðlabankans.
    Á þessu ári hafa raunvextir hækkað nokkuð vegna þessarar gífurlegu lánsfjárþarfar ríkissjóðs og stefnan á næsta ári, að öllu óbreyttu miðað við sömu stöðu og er í dag, hækka raunvextir enn frekar. Búast má við því að raunvextir á næsta ári verði 8,5% en þeir eru áætlaðir á þessu ári 8,2 -- 8,3%. Það má búast við því að aðstæður verði aðrar á næsta ári heldur en eru nú þar sem gera má ráð fyrir því að hjól efnahagslífsins fari af stað aftur. Það hefur verið mjög lítil þörf fyrir fyrirtæki að leita á lánamarkaðinn á þessu ári en gera má ráð fyrir því, ef kippur kemur í efnahagslífið, að fyrirtæki fari að leita á lánamarkaði og ef sú samkeppni milli fyrirtækjanna og ríkissjóðs verður meiri, þá má búast við því að raunvextir hækki enn frekar og er ekki óeðlilegt að telja að þeir geti farið upp í 9% eða um það bil.
    Þegar lánsfjárlög eru rædd þá er fleira sem ber að hyggja að og taka til athugunar, en það virðist vera nokkur lenska, ekki bara þessarar ríkisstjórnar heldur ríkisstjórna fyrri ára, að velta vandamálum fjárlaga yfir á lánsfjárlög og byggist það á þeim grunni sem fjárlögin eru byggð á, en þau eru byggð á svokölluðum greiðslugrunni en ekki rekstrargrunni þannig að eðlilegum greiðslum sem ættu að koma í fjárlög er varpað yfir á lánsfjárlögin og lántökur koma út þannig að þær koma ekki sem áfallinn rekstrarliður á fjárlögum. Það má í þessu dæmi nefna Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins, en þar liggur það ljóst fyrir að á næsta ári fellur á ríkissjóð um 800 millj. kr. greiðsla og ætti með réttu að færast inn á fjárlög og auka þar með fjárlagahallann. Þess í stað er tekin sú ákvörðun með lánsfjárlögum að taka nýtt lán á næsta ári upp á 800 millj. til að brúa það sem með réttu ætti að falla á þetta ár og greiðsluna yfir á fleiri ár.
    Það eru fleiri mál þessu lík sem er tekið á í þessum lánsfjárlögum sem hafa ekki minni þýðingu fyrir þjóðarbúið heldur en fjárlögin. Má sem dæmi nefna, sem væntanlega kemur inn, vanda Húsnæðisstofnunar en það hefur komið fram að það vantar 850 millj. á næsta ári til þess að standa við kaup á 500 félagslegum íbúðum. Það má búast við því að þegar þessi lánsfjárlög fá nánari umfjöllun við 3. umr. hér í deild og jafnvel 1. og 2. umr. í Nd., verði reynt að ýta vanda fjárlaga yfir á lánsfjárlögin.
    Að lokum, og það kom fram í nefndinni hvað ríkissjóður er orðinn stór á lánamarkaðinum hér innan lands, þá kom það fram að af lánsfjármarkaðnum sem er áætlaður um 40 milljarðar á næsta ári ætli ríkið að taka til sín um 55 -- 57% af því og láta atvinnulífið og einstaklinga bítast um restina. Ég held að þetta sé orðið nokkuð stórt hlutfall sem ríkið ætlar sér á næsta ári og ef, eins og ég sagði áðan, hjól atvinnulífsins fara af stað aftur með aukinni eftirspurn eftir lánum, þá megi búast við að raunvextir hækki hér töluvert.

    Ég ætla ekki að hafa framsögu mína öllu lengri um þetta frv. en vildi taka fram það sem ég sagði hér áðan að ég geri ákveðinn fyrirvara við þessi lánsfjárlög en tel ekki rétt á þessari stundu að standa í vegi fyrir því að þau verði samþykkt. Þegar málið var lagt fram átti ég aðild að því að það yrði gert með þessum hætti og ætla ekki að skjóta mér undan þeirri ábyrgð. Hins vegar finnst mér ýmsir þættir hér vera orðnir nokkuð ískyggilegir og bera þess nokkuð keim að það er von á kosningum á næsta ári.