Lánsfjárlög 1991
Miðvikudaginn 19. desember 1990


     Frsm. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Mér finnst fjmrh. reyna að afgreiða hlutina heldur billega. Þegar við, bæði ég og hv. 18. þm. Reykv., erum að tala um hallatölur fjárlaga höfum við lagt til grundvallar lánsfjárþörf A - hluta ríkisreiknings samkvæmt þeim brtt. sem fyrir liggja og samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum fengið frá Þjóðhagsstofnun og Seðlabanka. Ég held að það liggi alveg ljóst fyrir hver verður heildarlánsfjárþörf ríkissjóðs á næsta ári samkvæmt þeim tillögum sem nú liggja fyrir opinberlega. Og þá liggur það líka fyrir að raunvextir munu hækka á næsta ári. Það er álit bæði Þjóðhagsstofnunar og Seðlabanka.
    Þá vil ég spyrja hæstv. fjmrh., úr því að hann fór inn á þetta eina mál en ekki önnur í ræðum okkar 18. þm. Reykv., hvað mun draga úr lántökuþörf ríkissjóðs á innlendum lánsfjármarkaði? Við höfum ákveðnar upplýsingar um það hver sú lánsfjárþörf verður. Hefur eitthvað breyst í þeim efnum frá því að við áttum fund með fulltrúum Seðlabanka og fulltrúum Þjóðhagsstofnunar í gærmorgun? Ég spyr. Ef ekkert hefur breyst, þá er hæstv. fjmrh. að slá hér keilur, lygakeilur, því að forsendurnar fyrir okkar ályktunum voru þær upplýsingar sem hans eigin menn höfðu gefið okkur.
    Ég vil í annan stað finna að því við hæstv. fjmrh. að hann skuli álykta sem svo að fjvn. standi að þeim niðurstöðutölum sem eru á útgjaldalið vegna einstakra hafna. Að sjálfsögðu er það meiri hl. fjvn. en ekki fjvn. í heild. Þetta er ekki aðeins ónákvæmni hjá hæstv. fjmrh. heldur eru þetta ósannindi eins og hann talaði hér áðan. ,,Niðurstaða fjvn. er ...`` o.s.frv. Það er einfaldlega ekki rétt.
    Ég vil aðeins að síðustu segja að nauðsynlegt getur verið að bjóða hæstv. fjmrh. norður til Húsavíkur svo hann geti sjálfur séð með eigin augum það sem þar er að gerast, hvernig aðbúnaðurinn er. Algerlega er útilokað að hægt sé að tala um Sandgerði og Húsavík í sömu andránni með hliðsjón af því að hægt sé að notast við aðrar hafnir. Það er auðvitað algerlega rangt ef hæstv. fjmrh. heldur það. Og það er algerlega út í bláinn líka að tala um að einungis náttúruhamfarir geti valdið því að skyndileg nauðsyn kemur upp í einstaka höfnum. Það voru ekki náttúruhamfarir sem ollu því í Sandgerði að þörf er á þessari miklu dýpkun. Það sem veldur þörfinni á Húsavík er að nú eru menn farnir að nota stærri skip en áður.
    Ég held ég verði, herra forseti, að óska eftir því að samgrh. komi hér. Svo held ég að það verði svona almennt talað að óska eftir því að starfsmenn ráðuneyta séu ekki inni í salarkynnum þingsins ef það veldur jafnmiklum óróa í þingsölum og að þessu sinni. Ef ráðherrar ætlar að færa skrifstofur sínar hingað inn í hliðarherbergin held ég að það sé nauðsynlegt að forsetar þingsins fari að skapa nýjar umgengnisvenjur. Ekki geta einstakir þingmenn dregið hingað inn með sér hjálparkokka. Það hefur ekki verið amast við því að ráðherrar taki hér með sér einn og tvo menn til

þess að svara sérstökum spurningum sem upp kunna að koma í umræðum eða veita þannig upplýsingar og vera til ráðuneytis, en hitt er algerlega útilokað að haga þingstörfum þannig að hér séu litlir ráðherrafundir og starfsmenn ráðuneytisins séu hér í hliðarsölum við embættisstörf sín. Í dag gat hæstv. fjmrh. ekki verið við af því að hann var á öðrum fundi sem var mikilvægari en fundurinn hér í deildinni. Og nú er hann rokinn út. Ég held að ég biðji um það að þessum fundi verði frestað svona í stundarfjórðung. Er ekki hægt að verða við því? Það er alveg útilokað að það sé hægt að tala þegar ráðherrann hleypur svona á milli herbergja og ekki hægt að halda efnisþræði í ræðu. ( Forseti: Hæstv. samgrh. er kominn.) Ég var að biðja um að hæstv. fjmrh. sé hér líka. Forseti verður að reyna að halda einhverjum skikk hér. Ég vil ítreka það sem ég sagði, að það dugir ekki að vera að fylla öll hliðarherbergi af starfsmönnum ráðuneytanna sem valda stöðugum umgangi og truflun á þingstörfum. Svo vil ég láta í ljósi sérstaka ánægju mína yfir því að ég sé að formaður þingflokks Alþfl. er kominn hér í salinn.
Hann á sæti í fjh.- og viðskn. og hefur stundum verið við í nefndinni þegar þessi mál hafa verið til umræðu þar. Má vera að ýmislegt sem síðar kemur muni kalla á nærvist hans. En að öðru leyti er ekki ástæða til að gera harðar umræður.
    Ég var að skýra frá því, hæstv. samgrh., að ég hefði kallað hann á fund fjh.- og viðskn. --- Ég held að það sé nauðsynlegt að hafa svolítinn aðdraganda að þessu máli og biðja hæstv. fjmrh. að vera í salnum á meðan og vera ekki í hliðarsölum.
    Ég var að skýra frá því að ég hefði kallað samgrh. á fund fjh.- og viðskn. og innt hann eftir því hvort hann teldi koma til greina að sams konar lán yrði tekið vegna annarra hafna en Sandgerðis ef upp kæmi mjög mikil nauðsyn, t.d. vegna breyttrar tækni við flutninga vegna þess að skip stækkuðu og vegna þess að flutningatækni hefði breyst á landi. Ég nefndi þar sérstaklega höfnina á Húsavík. Eins og hæstv. samgrh. veit er mjög mikil þörf fyrir lánsfé einmitt til þeirrar hafnar nú.
    Við vorum sammála um það fyrir þremur árum að nauðsynlegt væri að fara í það, helst á einu ári, ekki fleiri en tveim, að ljúka við norðurgarðinn og ganga frá því að sú vöruhöfn gæti notast vegna flutninga frá Kísiliðjunni.
    Nú hefur hæstv. fjmrh. skýrt frá því að samkomulag hafi tekist um það í fjvn., hann sagði í allri fjvn. sem ég fullyrti að gæti ekki verið rétt. (Gripið fram í.) Hann sagði ,,að fjvn. hefði orðið sammála um``, það eru óbreytt orð ráðherrans, að slíkar lántökur yrðu ekki teknar vegna annarra hafna nema upp kæmu náttúruhamfarir, það mætti ekki verða regla. Og ég skildi ummæli ráðherra svo að með því væri búið að ýta því út af borðinu að nokkrar aðrar hafnir en Sandgerði gætu komið inn á næsta ári.
    Nú veit ég auðvitað ekki hversu mikla og ríka áherslu þeir Húsvíkingar mundu leggja á það að eiga kost á slíkri lántöku. Mér er heldur ekki ljóst hvort

svo kynni að standa á í öðrum höfnum að sveitarstjórnarmenn þar mundu vilja njóta sams konar fyrirgreiðslu. En spurning mín lýtur að hinu, hvort hæstv. samgrh. sé þeirrar skoðunar að slíkar lántökur skuli, þegar sérstaklega stendur á, vera á valdi sveitarstjórna þannig að þær geti ráðist í hin miklu verkefni þegar þær eru undir það búnar og þeim hentar frekar en þegar sérstakur byr er fyrir slíkar framkvæmdir á Alþingi. Nú fer hv. 1. þm. Reykn. Matthías Á. Mathiesen af þingi eftir næstu kosningar og þeir Reyknesingar geta þá ekki lengur notið hans dugnaðar og framsýni. Er auðvitað þakkarvert að bæði hæstv. samgrh. og hæstv. fjmrh. skuli hafa lýst því yfir að það sé fyrst og fremst fyrir forgöngu og framsýni hv. 1. þm. Reykn. sem ráðist er í hinar miklu framkvæmdir í Sandgerðishöfn sem sýnir auðvitað að sjálfstæðismenn hafa meiri skilning á þessum málum en aðrir. Spurning mín er einföld. Ég vil biðja hæstv. samgrh. að svara því hvort skilningur hans sé sá sami og hæstv. fjmrh., að ekki komi til greina að á næsta ári verði veittar verulegar lántökur með sérstakri lánsfjárheimild til annarra hafna en þeirra tveggja sem tilgreindar eru í sambandi við lánsfjáráætlun núna.