Lánsfjárlög 1990
Miðvikudaginn 19. desember 1990


     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Guðmundur Ágústsson) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 347 frá meiri hl. fjh.- og viðskn. um frv. til laga um breytingu á lánsfjárlögum fyrir árið 1990. Það eru lög nr. 116/1989.
    Í nefndarálitinu segir: ,,Nefndin hefur fjallað um frv. og fékk á sinn fund Árna Þór Sigurðsson, formann stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna, Þórð G. Valdimarsson, framkvæmdastjóra LÍN, Hauk Hauksson aðstoðarflugmálastjóra og þá Halldór Árnason og Jón Ragnar Blöndal frá Fjárlaga- og hagsýslustofnun.
    Meiri hl. nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt án breytinga.``
    Undir það rita Jóhann Einvarðsson, Skúli Alexandersson, Eiður Guðnason og Guðmundur Ágústsson formaður, með fyrirvara.
    Í þessu frv. er einkum tekið á tveimur atriðum. Annars vegar aukinni lántöku vegna Alþjóðaflugmálaþjónustunnar upp á 180 millj. kr. og hins vegar auknum heimildum til Lánasjóðs ísl. námsmanna upp á 450 millj. kr. Ég hef í sjálfu sér ekki athugasemdir við fyrri lið þessa frv., en varðandi seinni liðinn, þ.e. fjárveitingar til Lánasjóðs ísl. námsmanna, vil ég segja eftirfarandi og á því byggist sá fyrirvari sem ég geri.
    Það var ekki fyrr en í byrjun desembermánaðar sem þetta frv. var lagt fram. Þá lá ljóst fyrir, eftir því sem okkur var kunngert, að fjárhagsvandi Lánasjóðs ísl. námsmanna væri 450 millj. kr. og það stæði á þinginu að samþykkja lántökuheimild til þess að hægt væri að borga námsmönnum í námi erlendis út 3. des. og innan lands 10. des. Þá var nýbúið að afgreiða fjáraukalög og þetta
hafði ekki komið þar inn og ekki minnst á þennan fjárhagsvanda. Mér finnst þetta vinnubrögð sem eru stórháskaleg og fordæmi slíkt þar sem hér er um að ræða að ákveðnum upplýsingum er hálfpartinn leynt fyrir Alþingi.
    Ég neita ekki að afgreiða þetta frv. þar sem mér er ljóst að þarna er um skuldbindandi loforð að ræða sem námsmönnum hefur verið gefið, þess vegna get ég ekki staðið í vegi fyrir því að afgreiða þetta frv. en vil gera þennan fyrirvara að það eigi að haga lánsfjárlögum og fjárlögum þannig að vandinn verði kunngerður eins fljótt og hægt er en ekki á síðustu stundu að koma með frv. inn á Alþingi og segja: Svona er vandinn, leysið hann.
    Annað vildi ég nú ekki segja um þetta lánsfjárlagafrv., en þetta er breyting á lánsfjárlögum fyrir árið 1990.