Endurreisnar- og þróunarbanki Evrópu
Miðvikudaginn 19. desember 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Hæstv. forseti. Frv. til laga um hlut Íslands í stofnfé Endurreisnar - og þróunarbanka Evrópu, European Bank for Reconstruction and Development, sem kemur frá hv. Nd. og ég mæli nú fyrir, er flutt í framhaldi af till. hæstv. utanrrh. til þál. um heimild til að fullgilda samning um stofnun þessa banka sem var samþykkt á fundi í Sþ. í fyrradag.
    Samningur 40 þjóðríkja og tveggja alþjóðastofnana um stofnun Endurreisnar - og þróunarbanka Evrópu var undirritaður í París í maílok sl. Hlutverk þessa banka er að stuðla að endurreisn efnahags - og lýðræðislegra stjórnarhátta í ríkjum Mið - og Austur - Evrópu. Stofnun hans er táknræn fyrir þær miklu breytingar sem átt hafa sér stað í þessum ríkjum á aðeins einu ári. Þessar breytingar eru bæði örari og meiri en nokkurn hefði órað fyrir fyrir ári eða svo. Þessar þjóðir varpa nú af sér oki kommúnisma og miðstýringar. Frelsisvindar feykja burt þrúgandi andrúmslofti einangrunar og ofstjórnar kommúnismans.
    Skipting Þýskalands í Austur - og Vestur - Þýskaland heyrir nú sögunni til og nýtt ríki hefur orðið til við sameiningu þeirra. Sovétríkin ganga nú í gegnum miklar hörmungar vegna breytinga í hagkerfinu og vegna miðflóttaafls sjálfstæðishreyfinga ýmissa ríkja innan þess ríkjabandalags. Þar eru mikil tíðindi að gerast.
    Það er ljóst að endurreisnin og umbreytingin á efnahag þessara ríkja mun krefjast mikilla fjármuna. Verksmiðjur eru úreltar, samgöngumannvirki úr sér gengin og önnur þjónusta, sem hið opinbera lætur vanalega í té, eins og vatn, rafmagn, fjarskipti sem er í raun forsenda þess að einkaframtak fái notið sín, er víða í þessum löndum afar vanþróuð. Þá hefur komið í ljós að umhverfisspjöll og mengun af ýmsum toga eru mun alvarlegri í þessum ríkjum en menn óraði fyrir og brýn þörf er á meiri háttar hreinsunaraðgerðum og umhverfisvörnum. Hinum nýja banka er ætlað að veita þessum ríkjum liðsinni til að glíma við þessi miklu vandamál.
    En hinn nýi banki verður líka annað og meira en uppspretta fjármagns. Hann verður mikilvægur nýr vettvangur fyrir skoðanaskipti og miðlun þekkingar frá vestrænum sérfræðingum til starfsbræðra í ríkjum Mið - og Austur - Evrópu um ýmis atriði á sviði efnahagsmála, fjármála og stjórnunar. Á þessum sviðum standa þessi fyrrverandi kommúnistaríki ríkjum Vesturlanda langt að baki.
    Ein forsenda þess að umbreytingin yfir í markaðsbúskap heppnist eins og vonir standa til er að þjóðirnar öðlist þekkingu á því hvernig best sé að nýta sér þá kosti sem valddreifing og markaðsbúskapur býður umfram miðstýrðan áætlunarbúskap kommúnismans.
    Stofnendur bankans eru 42 eins og ég nefndi í upphafi míns máls. Stofnféð nemur 10 milljörðum evrópskra mynteininga sem er jafnvirði 748 milljarða kr. miðað við gengi í októberbyrjun. Hlutur Bandaríkjanna er stærstur, 10%. Síðan koma Bretland, Frakkland, Ítalía, Japan og Vestur - Þýskaland með rúmlega

8,5% hvert ríki. Til samans leggja aðildarríki Evrópubandalagsins, Efnahagsbandalag Evrópu og Evrópski fjárfestingarbankinn fram 51% af stofnfénu. Hlutur Íslands í stofnfénu er 0,1%.
    Bankaráð skipað einum fulltrúa frá hverjum af stofnendum bankans mun fara með æðsta vald í málefnum hans. Bankastjórn skipuð 23 mönnum mun fara með daglega stjórn mála fyrir hönd bankaráðsins. Það hefur tekist um það samkomulag milli Íslendinga og Svía að þessar þjóðir standi saman að kjöri fulltrúa í bankastjórnina. Framkvæmdastjórn bankans verður svo í höndum eins bankastjóra og nokkurra aðstoðarbankastjóra.
    Að því er varðar lagafrv. sem ég mæli hér fyrir vil ég taka fram að skv. II. kafla stofnsamningsins um bankann skal stofnfé hans vera eins og ég nefndi 10 milljarðar evrópskra mynteininga, jafnvirði 748 milljarða kr. Hlutur Íslands í stofnfénu, hinu upphaflega hlutafé í bankanum, yrði samkvæmt tillögunni 10 millj. evrópskra mynteininga eða jafnvirði 748 millj. kr. Af þessari fjárhæð er greiðsluhlutaféð 3 millj. evrópskra mynteininga eða 224 millj. kr. og skal inna þær greiðslur af hendi á fimm árum með jöfnum árgreiðslum, í fyrsta sinn árið 1991. Það er ætlað fyrir þessari greiðslu í frv. til fjárlaga. Ábyrgðarhlutaféð, 7 millj. evrópskra mynteininga eða 524 millj. kr., þarf aðeins að inna af hendi að öllu leyti eða að hluta til ef á þarf að halda vegna fjárhagslegra áfalla eða slita bankans. Það má taka fram að ákvæði stofnsamningsins um ábyrgðir taka mið af samsvarandi ákvæðum í stofnsamningi um Alþjóðabankann og þótt Ísland hafi verið aðili að Alþjóðabankanum um áratuga skeið hefur aldrei reynt á þær ábyrgðarskuldbindingar landsins.
    Virðulegi forseti. Endurreisnar - og þróunarbanka Evrópu er ætlað að greiða fyrir þeim stórkostlegu og langþráðu breytingum sem eru að verða í ríkjum Mið- og Austur - Evrópu og hann á eflaust eftir að gegna þar veigamiklu hlutverki. Íslendingum ber sem velmegandi lýðræðisþjóð að styðja stofnun bankans líkt og önnur iðnvædd og tekjuhá lýðræðisríki gera og hafa gert. Um leið og Evrópubankinn nýi kemur ríkjum Mið - og Austur - Evrópu til góða mun hann einnig ljúka upp dyrum fyrir íslenskum fyrirtækjum og sérfræðingum til þess að starfa á hans starfsvettvangi og vinna að verkefnum í samvinnu við erlenda aðila með stuðningi bankans.
    Virðulegi forseti. Ég legg til að þessu frv. verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og hv. fjh. - og viðskn.