Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 19. desember 1990


     Halldór Blöndal :
    Herra forseti. Það er svo að hér er um undantekningarákvæði að ræða þar sem við erum að tala um það að eigi skuli greiða stimpilgjald af tilteknum framkvæmdalánasamningum sem eru skilgreindir þröngt. Hin almenna regla hlýtur því að vera sú að stimpilgjaldið sé greitt og slíkar greiðslur hljóta að vera bundnar við staðreyndir en ekki einhverjar ætlanir. Þess vegna hlýtur það að vera alveg ljóst að stimpilgjaldið hlýtur að gjaldfalla um leið og lánið er veitt að þeim hluta sem ekki er búið að selja fyrir fram íbúðir til aðila sem falla undir þá tekjuviðmiðun sem er í hinu félagslega kerfi. Ég held að það sé alveg deginum ljósara. Ekki er hægt að hugsa sér það að sýslumenn eða innheimtumenn ríkissjóðs fari að stunda almenna lánastarfsemi fyrir einn þátt húsnæðismála. Það er alveg gjörsamlega út í bláinn. Ég fæ því ekki betur séð en hér sé mjög vanhugsað af stað farið.
    Það er auðvitað óviðkunnanlegt þegar embættismenn í félmrn. eða ráðherra félagsmála lýsir því yfir að Alþingi hafi eitthvað misskilið sjálft sig í lagagerðinni sl. vor. Síðan er það notað sem átylla til þess að benda innheimtumönnum ríkissjóðs á að þeir þurfi ekki að innheimta tiltekin opinber gjöld með tilvísan til þess að Alþingi hafi ekki vitað hvað það var að gera og með þeim hætti verið að mismuna mönnum gagnvart lögunum og gagnvart ríkissjóði. Nóg er nú skattheimtan samt.
    Ég mælist ekki til þess, herra forseti, að þessu frv. verði frestað. Ég geri ráð fyrir að Ríkisendurskoðun muni taka fyrirmæli hæstv. fjmrh. til athugunar því ég álít að þau standist ekki lög. Þau séu ámælisverð og óheimil. Ég geri ráð fyrir að Ríkisendurskoðun muni samkvæmt þeim ábendingum, sem m.a. koma fram í minni ræðu eða af eigin hvötum, fylgjast grannt með framkvæmd þessara laga og sjá svo til að ekki sé mismunað fram yfir það sem í þrengsta skilningi er ætlast til skv. þessu lagafrv. Ég hef áður og margsinnis vakið athygli á því hér í þessum ræðustól hvernig verið er að mismuna þegnunum með einum og öðrum hætti. Það er verið að mismuna hér og það er verið að mismuna þar. Nú er svo komið gagnvart ýmsum þjóðfélagsþegnum íslenskum að þeir mega ekki auka við sig vinnu, þeir mega ekki fá meiri tekjur til þess þeir komist af því að hver ný króna sem við bættist mundi kalla á svo og svo mikil útgjöld. Þannig er nú kerfið orðið.
    Stimpilgjald af framkvæmdalánasamningi er ekki óskaplega há upphæð en þegar við erum að tala um að aðrir verði að borga 12,33% afföll af þeim lánum sem þeir fá vegna húsbygginga og þegar við erum að tala um að fólk sem á í greiðsluvandræðum verði að borga a.m.k. 12,33% afföll af þeim lánum sem þetta fólk fær til að bæta úr sínum greiðsluerfiðleikum og þarf ofan í kaupið að borga 6,5% vexti af heildarupphæðinni erum við auðvitað farin að tala um ekki litla mismunun. Þar erum við að tala um 7,35% raunvexti eða þar um bil og að lánið sé til 25 ára. Hér erum

við að tala um 1% raunvexti til 50 ára og við erum að tala um að þetta fólk hafi ekki efni á því að borga stimpilgjald af framkvæmdalánasamningi. Í þessum dæmum er það einnig svo hjá þessu fólki sem er að kaupa nýjar félagslegar íbúðir að afborganir falla ekki til fyrr en á þriðja eða fjórða ári ef ég kann lögin rétt. Þannig að einungis vextirnir falla til á fyrstu árunum, 60 þús. kr. á ári, 5.000 kr. á mánuði. Hitt fólkið verður að sætta sig við 12,33% afföll og borga 6,5% vexti. Það eru úrlausnir sem fólk í greiðsluerfiðleikum fær.
    Það er eðlilegt, herra forseti, að það sé sérstaklega lagt á sig að skrifa innheimtumönnum ríkissjóðs og segja þeim að Alþingi hafi ekki gáð að sér og það hafi verið að samþykkja einhverja vitleysu, ekki vitað hvað það var að gera. Það var ekki mismunað nóg. Þeir í ráðuneytinu vildu láta mismuna meira. Spurningin er: Hvar er næsta exemplar af þessu tagi sem kemur fyrir þingið? Það er verst að maður skuli vera búinn að gefa einu barna sinna hið góða rit Félagi Napóleon svo maður getur ekki kíkt í það þegar maður kemur heim þar sem lifað var eftir kenningunni að auðvitað væru allir jafnir. En þó er einn jafnari en annar og svínin jöfnust af þeim öllum.