Samskiptamiðstöð heyrnarlausra
Miðvikudaginn 19. desember 1990


     Frsm. menntmn. (Eiður Guðnason) :
    Herra forseti. Menntmn. hefur fjallað um frv. til laga um samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra. Nefndin fékk til viðræðna við sig ýmsa aðila, þar á meðal Guðrúnu Ágústsdóttur, aðstoðarmann menntmrh., sem greindi frá aðdraganda þessa máls. Enn fremur komu til fundar við nefndina Haukur Vilhjálmsson og Margrét Sigurðardóttir frá Félagi heyrnarlausra, Gunnar Salvarsson, skólastjóri Heyrnleysingjaskólans, Helgi Seljan og Ásgerður Ingimarsdóttir frá Öryrkjabandalaginu, Bryndís Víglundsdóttir, skólastjóri Þroskaþjálfaskólans, og Valgerður Stefánsdóttir, táknmálskennari við Þroskaþjálfaskólann.
    Ég hygg að eftir þær umræður sem fram fóru í nefndinni séu nefndarmenn verulega miklu fróðari um það sem hér er um að tefla. Nefndin varð sammála í afstöðu sinni til málsins.
    Sú samskiptamiðstöð sem hér er gert ráð fyrir að koma á laggirnar verður fyrst og fremst þjónustumiðstöð við þann minni hluta, þann u.þ.b. 200 manna hóp hér á landi sem notar táknmál. Ég hygg að ég mæli fyrir munn okkar velflestra í nefndinni þegar ég segi frá því að við, a.m.k. flest okkar, öðluðumst svolítið nýjan skilning á því sem hér er um að tefla, þ.e. að táknmál heyrnarlausra er sérstakt tungumál. Hlutverk þeirrar samskiptamiðstöðvar, sem hér er gert ráð fyrir að koma á laggirnar, verður kannski fyrst og fremst að annast rannsóknir á íslensku táknmáli, beita sér fyrir kennslu í táknmáli og táknmálstúlkun.
    Það kom fram í þessum samtölum okkar að þessi 200 manna hópur heyrnarlausra á við margháttaða erfiðleika að etja sem skapast hafa vegna þess að ekki eru til nægilega margir túlkar til þess að sinna þeirra málum og aðstoða þá við sín skipti við kerfið, þó ekki sé nema það eitt nefnt. Það kom líka fram að vangefnir geta sumir hverjir í sumum tilvikum nýtt sér þetta táknmál, lært það og notað til góðs.
    Í II. kafla frv. er fjallað um stjórnun og um það urðu nokkrar umræður í nefndinni. Nefndin gerir ekki tillögur um breytingar þar. Þó að auðvitað megi margar skoðanir á því hafa hvernig slíka stjórn skuli skipa, þá virðist vera bærilegur friður um þá tilhögun sem hér er gert ráð fyrir.
    Í 2. gr. frv. er kveðið á um að stofnunin skuli hafa samstarf við svæðisstjórnir um málefni fatlaðra, Ráðgjafar - og greiningarstöð ríkisins, Heyrnleysingjaskólann, Heyrnar - og talmeinastöð, Námsgagnastofnun og aðra opinbera aðila varðandi málefni er snerta starfsemi þeirra. Það kom fram í samtölum í nefndinni að auðvitað liggur það í hlutarins eðli að þessi stofnun hlýtur líka að hafa náið samráð við ýmsar æðri menntastofnanir eins og Háskóla Íslands og Kennaraháskólann því þetta snertir ekki síst menntunarmál þeirra sem búa við heyrnarleysi.
    Ég ætla ekki, herra forseti, að hafa um þetta langt mál. Það var mikill einhugur um þetta í nefndinni. Það eru fluttar tvær brtt. við málið. Það er orðalagsbreyting við 2. gr., að segja ekki ,,lög þessi taka til`` heldur bara: Hlutverk samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra er að annast. Síðan í öðru lagi að í stað orðanna ,,Ráðgjafar - og greiningarstöð`` komi: Greiningar - og ráðgjafarstöð. Einhverjum kann nú að finnast þetta smávægilegt en Greiningar - og ráðgjafarstöð er hið rétta heiti þeirrar stofnunar sem hér um ræðir. Í þriðja lagi vantaði í frv. eins og það kom til nefndarinnar gildistökuákvæði. Þess vegna leggur menntmn. til að við bætist ný grein svohljóðandi, sem verður þá 7. gr.:
    ,,Lög þessi öðlast þegar gildi. Lögin skal endurskoða innan fjögurra ára frá gildistöku þeirra.``
    Vegna þess að hér er um nýja starfsemi að ræða, starfsemi sem ekki er reynsla fengin fyrir hér og menn þurfa að feta sig áfram og læra af reynslunni, þá töldum við eðlilegt, og ég vona að enginn hafi á móti því, að hér yrði sett endurskoðunarákvæði, þ.e. að lögin skuli endurskoða innan fjögurra ára frá gildistöku.
    Ég ætla ekki, herra forseti, að hafa um þetta fleiri orð, en undir þetta nál. skrifa sex menntamálanefndarmenn. Einn, Halldór Blöndal, var fjarverandi við afgreiðslu málsins.