Iðnlánasjóður
Miðvikudaginn 19. desember 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um Iðnlánasjóð. Þetta frv. er fylgifrv. með frv. til laga um Útflutningsráð sem var til umræðu hér næst á undan. Í því frv. um Útflutningsráðið er gert ráð fyrir að framlag iðnaðarins til ráðsins verði ákveðinn hundraðshluti af aðstöðugjaldsstofni fyrirtækja en ekki 2 / 7 hlutar af álagningu iðnlánasjóðsgjalds eins og nú er. Þess vegna er í þessu frv. sem ég hér mæli fyrir gerð sú tillaga að brott falli úr lögunum um Iðnlánasjóð það ákvæði þeirra að 2 / 7 hlutar gjaldsins af álagningunni renni til Útflutningsráðs og sú sjálfsagða fylgitillaga að álagningarstuðull gjaldsins lækki í samræmi við þetta um 2 / 7 eða úr 0,25% í 0,18%.
    Virðulegi forseti. Ég tel ekki þörf á að hafa fleiri orð um þetta frumvarp og legg því til að því verði að lokinni þessari 1. umræðu vísað til 2. umr. og hv. iðnn.