Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 19. desember 1990


     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Hér í kvöld væri fullt tilefni til þess að taka upp umræðu um framtíð húsnæðismála í landinu og ég tek undir þær spurningar sem ræðumaður hér á undan lagði fyrir hæstv. félmrh. og ítreka það að við þeim þurfum við að fá svör. Ég efast ekki um að þau svör munu koma með einhverjum hætti nú í þeirri umræðu sem fram undan er þar sem ekki verður lengur undan komist að taka afstöðu til þessara mála. En þar sem hér er efnislega annað mál á ferð, þótt nátengt sé, þá mun ég hér fyrst og fremst fjalla um það frv. um Húsnæðisstofnun ríkisins sem nú er til umræðu og afgreiðslu í deildinni.
    Því er einkum ætlað þrenns konar hlutverk: Að húsbréfakerfið taki til endurnýjunar og endurbóta á notuðu húsnæði, að hægt sé að fá lán er nemi allt að 75% af matsverði húseignar og til þess að aðstoða fólk í greiðsluerfiðleikum tímabundið þannig að það geti breytt skammtímaskuldum sínum í húsbréf, a.m.k. hluti þess hóps sem á í greiðsluerfiðleikum. Því miður er því ekki að heilsa að þetta frv. muni leysa vanda allra. Engu að síður er mikilvægt að með einhverjum hætti verði tekið á þessum málum og þar af leiðandi tel ég efnislega að þetta frv. eigi að ná fram að ganga.
    Frv. tók nokkrum breytingum í meðförum efri deildar og það til bóta. Þótt lítill tími hafi gefist til umræðna um frv. í seinni deild tel ég þó að fjallað hafi verið um þau helstu vafaatriði sem þessu frv. fylgja. Því miður kom fram að ekki er unnt að svara veigamiklum spurningum um afleiðingar þessa frv. Hvorki til hve stórs hóps þessar breytingar ná og hverjir verði út undan, falli á milli kerfa, ef svo má segja, né hvaða kostnað frv. mun hafa í för með sér. Og það, sem e.t.v. er einnig mjög alvarlegt, hver hugsanleg þensluáhrif frv. geta orðið.
    Skýrsla Ríkisendurskoðunar, sem kom á borð nefndarmanna um hálfsexleytið í gær og til þingmanna nú í dag, og svör þeirra manna sem komu á fund nefndarinnar gáfu þó tilefni til þeirrar niðurstöðu að kostir frv. vægju þyngra en gallarnir. Sýnt er að húsbréfakerfið hentar ekki öllum þeim sem ekki eiga kost á húsnæði skv. félagslega húsnæðiskerfinu. Mat á greiðslugetu útilokar ákveðinn hóp sem kemst ekki inn í félagslega íbúðakerfið og framtíð kerfisins frá 1986 er óljós. Með því að heimila að lán nemi 75% matsverðs eignar í ákveðnum tilvikum fækkar þó þeim sem hvorugu kerfinu tilheyra en þeirri spurningu er ósvarað hvaða hús þeir sem eftir sitja eigi í að venda.
    Við kvennalistakonur ítrekum enn þá afstöðu okkar að efla verði félagslega íbúðakerfið á meðan ástandið er slíkt sem það er. Hins vegar er nauðsynlegt að setja því einhverjar skorður hve margir geti fengið lán fyrir 75% kostnaðar við íbúðarkaup og vonandi að ákvæðum sem bætt var inn í 2. gr. þessa frv. í meðförum efri deildar dugi til þess að halda því jafnvægi sem vonast var til að húsbréfakerfið mundi skapa í fjármögnun húsnæðiskaupa. Það er að vísu dæmi sem ekki hefur verið reiknað til enda.

    Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur ekki tekist að fá svör við þeirri spurningu hve mikil þensla gæti fylgt þessu frv. sem við nú fjöllum um. Né heldur til hve margra ný lán tækju og hve há þau yrðu. Varasamt er að afgreiða frv. án þess að sjá fyrir með vissu hvað það hefur í för með sér. Hér er því aðeins hægt að byggja á líkindum. Samkvæmt greinargerð vegna fyrirspurnar þingflokks Framsfl. um húsbréfakerfið, þeirrar sem mikið er hér vitnað til, er áhætta ríkisstjórnarinnar tæplega meiri en skv. eldra kerfi þótt þetta frv. verði afgreitt. Fyrir því eru færð sæmilega trúverðug rök. Dæmin sanna hins vegar að ekki er alltaf hægt að sjá fyrir þróun mála í íslensku efnahagslífi.
    Það er athyglisvert að lesa klausu á bls. 10 í þessari sömu greinargerð því þar þykja mér þau sjónarmið ráða að menn gefi sér það að húskaupendur lúti lögmálum fjármagnsmarkaðarins og séu e.t.v. að spila einhvers konar verðbréfaspil. Mig langar, með leyfi forseta, að vitna í klausu hér: ,,Ekki er líklegt að Húsnæðisstofnun mundi draga saman útgáfu húsbréfa þótt fyrirsjáanlegt væri að eftirspurn eftir húsbréfum á fjármagnsmarkaði væri ekki nægjanleg til að taka við bréfum með óbreyttri ávöxtun þar sem sú leið mundi orsaka sams konar biðröð eftir lánum og í gamla húsnæðiskerfinu. Það er reyndar yfirlýst markmið kerfisins að engar biðraðir myndist eftir afgreiðslu á lánum hjá Húsnæðisstofnun. Það sem mundi eiga sér stað í húsbréfakerfinu væri að afföll húsbréfa hækkuðu en það jafngildir hærri ávöxtun bréfanna. Hærri afföll hefðu það í för með sér að:
    1. Eftirspurn eftir húsbréfum hjá þeim sem spara ykist og þannig fengist meira fjármagn til kerfisins en þó því aðeins að ávöxtun annars lánsfjár á markaðnum hækkaði ekki samsvarandi.
    2. Framboð á húsbréfum minnkaði þar sem eigendur bréfanna vildu fremur bíða eftir að fá þau greidd út hjá Húsnæðisstofnun en sæta miklum afföllum við sölu bréfanna á markaði eða í fasteignakaupum.
    Fyrra atriðið þýðir raunvaxtahækkun. Það síðara að fasteignaviðskiptum fækkar þar sem húsbréf væru í minna mæli notuð í fasteignaviðskiptum.``
    Í stað þess að ætla að fólk í húsnæðishraki reyni eftir bestu getu að leysa húsnæðismál sín með hverjum þeim hætti sem hægt er og eigi sjaldan möguleika á því að bíða og leika sér í verðbréfaleik þá er hér búist við að lögmál markaðarins ráði. Hér er um að ræða fólk af holdi og blóði sem vantar húsnæði, fjölskyldur sem bíða ekki með börn og buru eftir góðum byr í verðbréfalotteríinu heldur þurfa að vita hvar þær búa sér heimili, koma börnum sínum í skóla og skjóta rótum í eirðarlausu samfélagi nútímans. Þessi mynd passar ekki við slíkan texta sem ég vitnaði hér í.
    Þrátt fyrir þetta er ekki vert að vefengja þá niðurstöðu sem fram kemur í skýrslu þessari og hjá viðmælendum nefndarinnar, að tæpast sé verið að hrinda af stað óviðráðanlegri þenslu þótt þessi leið verði farin til að leysa bráðavanda fólks í greiðsluerfiðleikum. Ég er því samþykk því að þessi leið verði reynd, að

gefa kost á húsbréfalánum í þessu skyni og einnig til endurbóta á notuðu húsnæði, svo og að opnuð sé leið til hærri húsbréfalána sé skynsamlega með þá heimild farið en það er nokkuð sem sett er í vald ráðherra.
    Þótt mörgum spurningum sé ósvarað um raunverulega framtíð húsnæðismála hér á landi tel ég að þetta frv. eigi fullan rétt á sér og styð því þá meðferð þess sem hér er lögð til, að það verði samþykkt, en ítreka að mörgum spurningum þarf að svara nú á næstu dögum um framtíð húsnæðismála hér á landi.