Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 19. desember 1990


     Kristinn Pétursson :
    Hæstv. forseti. Í sambandi við umræðu um húsbréfakerfið sem mikið hefur verið rætt hér í þinginu vil ég fyrst varpa fram þeirri spurningu: Hvað eigum við almennt að gera við kerfi? Væri ekki ágætis ráð að þessi hæstv. ríkisstjórn sendi Gorbatsjov telefax í fyrramálið og spyrði hvað ætti að gera við kerfi? Hvort ekki væri kominn tími til þess að stoppa bara strax og staldra við og skoða það á hvaða leið við erum? Hvort rétt sé að búa til kerfi á Íslandi 1990 þegar þeir eru í vandræðum með að skera sig út úr öllum kerfunum þarna fyrir austan tjald?
    Þrátt fyrir góð fyrirheit og falleg orð og falleg frv. um að hjálpa fólki sem á í erfiðleikum, eins og það frv. sem hér er til umræðu, bendir nú allt til þess að útkoman verði þveröfug við það sem sagt er og stefnt er að. Því allt bendir til þess, eins og nú er stjórnað peningamálum þjóðarinnar, að verið sé að fórna þjóðarsáttinni og öllum fallegu orðunum fyrir dýrustu kossa í Íslandssögunni. Ég held að fjárþörf ríkissjóðs sé einn af þeim hlutum sem maður verður að ræða í samhengi við umræður um aukið fjármagn í húsbréfakerfið eða til þess að lána fólki meiri peninga. Því allt sem við erum vitni að þessa dagana ber keim af vaxandi spennu vegna stjórnleysis og miðstýringar á peningamarkaðnum. Og einn milljarður í viðbót við alla vitleysuna sem þegar er orðin á þessu ári og stefnir í enn þá meira á næsta ári þýðir auðvitað bara hækkandi raunvexti. Það er því ekkert verið að leysa vandamál fólksins, þvert á móti er verið að skapa vandamál. Það er ljóst að efnahagsstefna þessarar ríkisstjórnar, ef stefnu skyldi kalla, öll þessi efnahagsóstjórn leiðir auðvitað til hnignunar og samdráttar og skertra lífskjara þannig að minna verður til skiptanna heldur en þó allar þessar fínu áætlanir segja til um, sem við vitum fyrir að hvort eð er ekkert er að marka.
    Það er von að spurt sé í þessu sambandi: Hver verður heildarlánsfjárþörf ríkisins á næsta ári? Verður hún eins og gert er ráð fyrir í lánsfjáráætlun eða verður hún meiri? Reynslan hefur alltaf verið sú að fjárþörfin sé margfalt meiri. Það þýðir auðvitað hækkaða raunvexti. Það þýðir ekkert að tala hér um falleg fyrirheit og að lækka vexti á sama tíma og þeir eru að hækka. Af hverju eru vextir að hækka þessa dagana, hæstv. forseti? Af hverju eru líkur á því að vextir muni hækka núna fyrir jólin? Ekki er það sjálfstæðismönnum að kenna núna. Er það frjálshyggjuófreskjan sem er komin í gang núna? Hver er þessi frjálshyggjuófreskja? Hvar er hún núna? Hvar er hæstv. forsrh. núna? Ræður hann ekki við að stjórna landinu? Getur hann ekki bjargað þessu öllu saman núna? Það hefði eitthvað verið sagt ef Sjálfstfl. hefði verið við völd.
    Raunverulega er sú þjóðarsátt sem gerð var á þessu ári nokkurs konar bænarskrá aðila vinnumarkaðarins um breytta efnahagsstefnu stjórnvalda þar sem fólk er að gefa eftir af kjörum sínum í þeirri von að stjórnvöld á Íslandi taki til á borðinu hjá sér og reyni að

hugsa hlutina upp á nýtt eins og það ágæta fólk var að gera sem samdi upphaflega um svokallaða þjóðarsátt, þ.e. aðilar vinnumarkaðarins. En það hefur akkúrat ekkert verið gert til þess að slaka á spennunni hjá ríkinu á fjármagnsmarkaðnum, heldur þvert á móti. Bæði eru skattar hækkaðir, sem þýðir aukna spennu, og lánsfjárþörf ríkisins er aukin. Hæstv. félmrh., sem vill heldur auka á þessa spennu en hjálpa til við að draga úr henni eftir frv., nema leggja jafnframt til að minnka verði það fjármagn sem fer í húsbréfakerfi handa fólki sem ekki á í erfiðleikum. Það er hægt að taka þessa fjármuni þar. Það verður ekki sleppt og haldið. Eða ætlar hæstv. félmrh. að láta prenta þetta allt saman? Er það framkvæmd á þjóðarsáttinni? Er það í anda þjóðarsáttar að auka yfirdráttinn enn þá meira í Seðlabankanum? Um síðustu mánaðamót var hann 7,2 milljarðar og ekki held ég að það sé nein ófreskja ljótari en sá yfirdráttur og ógnun við þjóðarsátt.
    Ég held að samfylgjandi frv. eins og því sem hér er til umræðu sé lágmarkskrafa að þingmenn fái í hendurnar nýja lánsfjáráætlun og greiðsluáætlun ríkissjóðs og hæstv. ráðherrar taki sig saman í andlitinu og reyni nú að semja þetta af samviskusemi en ekki eftir einhverjum hugmyndum út í loftið sem samrýmast ekki raunveruleikanum að neinu leyti. Það er mikil ábyrgð hjá ráðherrum í hæstv. ríkisstjórn í dag að valda ekki enn meiri spennu á lánsfjármarkaðinum en þeir eru þegar búnir að og þannig enn þá meiri skaða í þjóðfélaginu en búið er að valda vegna þess að engri ríkisstjórn síðari árin hefur verið boðið upp á annað eins tækifæri og þessari hæstv. stjórn. Það eru ekki líkur á því að verð sjávarafurða muni hækka um 30% á næsta ári eins og það hefur gert á þessu ári. Og hvar væri efnahagsstefnan stödd og stjórnunin ef sjávarafurðir hefðu ekki hækkað í verði jafnmikið og raun ber vitni?
    Eins og flestum á að vera kunnugt, en allt of fáum virðist vera kunnugt, þá er uppruni fjármagns að verulegu leyti kominn frá sjávarútvegi og margfeldisáhrif sjávarútvegs á iðnað, verslun og þjónustu hér á landi, og þar með á tekjur ríkissjóðs gegnum alla þessa veltu, er það sem skiptir höfuðmáli. Ef það á að auka tekjur ríkisins og skapa framboð á peningum þannig að meira geti verið til skiptanna og vextir lækkað og meira fjármagn sé í boði, þá þarf að skapa meiri verðmæti í landinu, það verður að byrja á því. Það er ekki hægt að byrja á því að prenta, hæstv. forseti. Ég held að það þurfi einmitt að læsa og innsigla þessa prentvél niðri í Seðlabanka. Það væri fín framkvæmd á þjóðarsáttinni að innsigla þá maskínu fyrir fullt og allt. En það er eins og gefist lítið tóm til að ræða slíkar staðreyndir. Fólk vill ekkert ræða svoleiðis hluti. Hér á bara að lifa í draumaheimi eins og krakkar í Lególandi. Það þykir fínt hjá þessari hæstv. ríkisstjórn.
    En ég ítreka að ef það á að tryggja hagsmuni fólks sem á í greiðsluerfiðleikum er besta tryggingin sem þetta fólk getur fengið ekki sú að lána því meiri peninga með því að láta vexti hækka í leiðinni, hæstv.

félmrh. Ef skrúfuð er upp enn þá meiri þensla á íslenska lánsfjármarkaðinn leiðir það til þess að vextir hækka enn þá meira og þetta fólk lendir í enn þá meiri erfiðleikum eftir 1 -- 2 ár. Það hefur stundum verið kallað bjarnargreiði að gera fólki slíkan greiða.