Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 19. desember 1990


     Hreggviður Jónsson :
    Hæstv. forseti. Það er ekki nýlunda hér á hinu háa Alþingi að húsnæðismál séu tekin til umræðu því aðalreglan hefur verið sú að hæstv. félmrh. hefur komið með breytingar á þessum málaflokki á hverju þingi.
    Nú hlýtur maður að verða að spyrja hæstv. félmrh. veigamikilla spurninga í þessu sambandi varðandi stuðning stjórnarflokkanna við þetta frv. til laga. Er þetta í rauninni stjfrv., er það stutt af öllum stjórnarflokkum? Í fyrsta lagi hefur það vakið athygli að hv. 1. þm. Vesturl. hefur ekki verið viðstaddur afgreiðslu málsins í nefnd svo ekki liggur fyrir hans álit í þessu máli. Í öðru lagi vekur ekki minni athygli að formaður þingflokks Borgfl., Guðmundur Ágústsson, hefur lagt fram frv. til laga um húsnæðislánastofnanir og húsbanka. En í greinargerð með því frv. segir, með leyfi forseta:
    ,,Í ljósi þess að enn á ný er hafin mikil umræða um húsnæðislánamál þjóðarinnar og vandamálin hafa aukist frekar en minnkað við tíðar breytingar sem hafa verið gerðar á húsnæðislánakerfi landsmanna virðist ekki vanþörf á að taka þetta frv. til rækilegrar meðferðar á hinu háa Alþingi nú. Það er skoðun flutningsmanns að húsnæðismálin séu komin í algert óefni. Hinar sífelldu breytingar sem hafa verið gerðar á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins á kjörtímabilinu hafa ekki orðið til þess að bæta ástandið í húsnæðismálum þjóðarinnar.``
    Hæstv. forseti. Það er nauðsynlegt að fá því svarað við þessa umræðu hvort Borgfl. styður þetta frv. Ef marka má þá greinargerð sem fylgir frv. hv. 5. þm. Reykv., sem er jafnframt formaður þingflokks Borgfl., styður Borgfl. ekki þær brtt. sem hér liggja fyrir. Sú árás sem kemur fram í greinargerð hv. þm. á stefnu hæstv. félmrh. er með þeim hætti að það verður að fá svör við því hver er afstaða Borgfl. í þessu máli. Og fyrst svo vel í veiði ber að hæstv. dómsmrh. situr hér, þá væri hann vís til þess síðar í umræðunni að láta álit Borgfl. í ljós varðandi þessi mál. En það verður að segjast eins og er að sú greinargerð sem fylgir því frv. til laga sem hv. 5. þm. Reykv. hefur lagt fram bendir til þess að það sé verulegur ágreiningur um þessi mál í ríkisstjórninni.
    En það sem vekur líka athygli er það að á síðasta hausti, á svipuðum tíma og nú, þegar núverandi ríkisstjórn fékk sparnaðarkast, þá var eina tillaga hæstv. félmrh. að strika út framlög til húsnæðismála. Og nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort það hefði ekki verið skynsamlegra að spara á einhverjum öðrum sviðum. Það liggur alveg ljóst fyrir að ef sú ráðstöfun hefði ekki verið gerð þá ættu byggingarsjóðirnir ekki við þann vanda að etja sem nú er raunin.     Síðan er þetta kossaflens hæstv. ráðherra. Í Þjóðviljanum, fimmtudaginn 18. okt. 1990, segir m.a. á forsíðu um húsnæðismál: ,,Kossinn kostar hálfan milljarð.``
Er nú ljóst, hæstv. forseti, að ekki má kyssa hæstv. ráðherra oft. Það getur orðið þjóðinni dýrt. Og þarf að fá skýringar á þessu ef svo er sem hér stendur.
    Í Dagblaðinu, þriðjudaginn 16. okt. 1990, segir

menntmrh., með leyfi forseta: ,,Námsmenn borga ekki heimilisböl Alþýðuflokksins.`` Væri fróðlegt að fá hér talsmenn Alþb. til að tjá sig um ummæli hæstv. menntmrh. Það er alveg ljóst að þetta eru dýrar gjörðir og þjóðin hlýtur að fara fram á það að ekki verði mikið kysst í Alþfl. á næstunni. En ég vil segja það sem ég hef sagt áður, og ætla ekki að hafa mjög langa ræðu um það frv. sem hér liggur fyrir, að það er nauðsynlegt að tekið verði á þessum málum í eitt skipti fyrir öll og það verði ekki, eins og ég hef margoft sagt, gert með þeim hætti sem hæstv. félmrh. hefur gert. Það hefur komið í ljós að ekki var rétt staðið að því kerfi sem hæstv. félmrh. lagði til um breytingar á húsnæðiskerfinu vegna þess að ekki var farið alla leið eins og lagt var til, m.a. eins og gert er ráð fyrir hér í frv. hv. 5. þm. Reykv. Guðmundar Ágústssonar.
    Ég vil ítreka það að stefna hæstv. félmrh. hefur leitt til þess að fólki hefur verið mismunað í æ ríkari mæli með skattalögum, vaxtabreytingum og með þeim hætti að menn eru ekki settir við sama borð. Það er ekki heldur lagt til grundvallar þegar menn eru að byggja hvort þeir hafi möguleika á að greiða lánin til baka. Allir sem hafa sparað eru sektaðir því að með því að tekju- og eignartengja vexti er verið að koma í veg fyrir að menn geti undirbyggt þessa dýru gjörð, sem húsbygging er, á lengri tíma, safnað sér fyrir því og staðið að því með þeim hætti að viðunandi fjármögnun sé fyrir hendi. Nú er allt kapp lagt á það að þess verr sem maður stendur sig, þess meira á að leggja honum upp í hendur. Þeir sem vilja standa sig vel eru sektaðir á fjölmörgum sviðum.
    Hæstv. forseti. Ég held að það hljóti að vera nauðsynlegt að hæstv. félmrh. geri grein fyrir því hvort hún megi vænta stuðnings hjá Borgfl. í þessu máli eða hvort hún megi vænta stuðnings hjá Framsfl. í þessum málaflokki eða hvort hún megi vænta stuðnings hjá Alþb. í þessum málaflokki. Miðað við þau ummæli sem forustumenn þessara flokka hafa viðhaft er ekki stuðningur við félmrh. í hennar gjörð í húsnæðismálum.