Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 19. desember 1990


     Friðrik Sophusson :
    Virðulegi forseti. Það er eðlilegt að þetta mál taki nokkurn tíma þegar það er hér til 2. umr. Ég rifja það upp að húsnæðismálin voru til umræðu fyrr í vetur í Sþ. Þá féllust hv. þm. Sjálfstfl. á að láta ýmis brennandi mál sem varða þetta frv., og reyndar húsnæðismálin í heild, bíða vegna þess að málið kæmi aftur til deildarinnar.
    Mig langar í fyrsta lagi til þess að spyrjast fyrir um það sem reyndar hefur komið fram í ræðum hv. þm. hvort það sé á döfinni að breyta því fyrirkomulagi sem kallað er ,,útdráttarfyrirkomulag``. Spurningin er sett fram vegna þess að það hefur heyrst að bæði einstaklingar og kannski ekki síður lífeyrissjóðir hafi forðast að kaupa þau húsbréf sem seld hafa verið vegna þess að það hentar þeim illa að vita ekki nákvæmlega hvernig bréfin greiðast til baka. Þetta útdráttarfyrirkomulag gerir það að verkum að greiðsla getur farið fram innan nokkurra vikna, daga, mánaða og svo upp í fjölda ára. En vegna þess hve óvenjulegt þetta er þá virðist það hafa gerst að ýmsir aðilar sem leggja fjármagn til hliðar, spara, hafa forðast að kaupa húsbréf.
    Í öðru lagi vil ég taka undir með öðrum þeim sem rætt hafa um þetta mál að það er til bóta að dreifa nokkuð útgáfu á þeim bréfum sem verða væntanlega gefin út á næsta ári þegar húsbréfin ná til fleiri þátta varðandi kaup og endurnýjun á húsnæði, svo eitthvað sé talið. Það er ljóst að það kann að valda erfiðleikum ef of mikið er gefið út af slíkum bréfum með ríkisábyrgð á skömmum tíma, ekki síst ef haft er í huga að gera má ráð fyrir verulegum halla á ríkissjóði umfram það sem hefur gerst á undanförnum árum og ætlun mun vera að fjármagna þann halla á innanlandsmarkaði. Þetta er á sama tíma og gera má ráð fyrir að atvinnulífið þurfi á auknu fjármagni að halda til þess að byggja sig upp, skapa hér atvinnu og leggja þannig grundvöll að bættum lífskjörum í framtíðinni. Slíkt þarf auðvitað að hafa í huga þegar menn eru að freista þess að laga til í húsnæðiskerfinu. En ég skal viðurkenna, og ég held að undir það geti allir hv. þm. Sjálfstfl. tekið, að húsbréfakerfið getur verið til bóta ef rétt er að því staðið.
    Nú er annað kerfi enn þá í gildi hér á landi, kerfi sem við þekkjum öll. Satt að segja hefur það undrað mig mjög hvernig hefur verið liðið það aðgerðarleysi sem hefur einkennt stefnu eða stefnuleysi stjórnvalda á undanförnum árum. Ég hef margoft sagt, og það eru engar fréttir út af fyrir sig, að ég tel að það hafi verið stórkostleg mistök að breyta ekki vöxtum samkvæmt skuldabréfum Húsnæðisstofnunar, en í þeim skuldabréfum eru ákvæði um breytilega vexti, þannig að vaxtastigið færðist til eftir almennu vaxtastigi í landinu. Þetta var augljóslega það sem löggjafinn hafði í huga þegar kerfið frá 1986 var sett á laggirnar, en reyndar eru slík ákvæði í skuldabréfum, a.m.k. frá árinu 1984 ef ekki á eldri bréfum líka sem ég man ekki, það skiptir ekki máli.
    Hæstv. félmrh. hjó reyndar af sér hendurnar þegar hann á sínum tíma lofaði Kvennalistanum því að hækka ekki vexti afturvirkt, eins og það væri kallað, ef Kvennalistinn vildi styðja húsbréfafrv. sem var til umræðu hér fyrir einu og hálfu ári síðan. Þessi afleikur ráðherrans er sjálfsagt miklu dýrari en nokkurn tíma sá koss sem hefur verið talsvert í umræðunni að undanförnu og síðast hér í þessari umræðu.
    Hér áðan voru lagðar fram nokkrar spurningar til hæstv. ráðherra. Það verður að segjast eins og er að þeim fyrirspurnum hefur hæstv. ráðherra ekki svarað. Þvert á móti hefur hæstv. ráðherra sagt að svörin þurfi að liggja fyrir áður en 3. umr. fjárlaga fari fram. En okkur er kunnugt um að sú umræða á að fara fram á morgun. Nú vil ég rifja það upp að þegar þessi mál voru til umræðu, því að auðvitað hanga húsnæðismálin öll saman hvort sem um er að ræða húsbréfakerfi eða svokallað gamla húsnæðiskerfið, að síðast þegar við ræddum þetta, þá vísaði hæstv. félmrh. á forsrh. og sagði að það væri hæstv. forsrh. að svara til um það hver væri stefnan varðandi Byggingarsjóð ríkisins, Byggingarsjóð verkamanna og gamla húsnæðiskerfið og hvernig ætti að leysa þann vanda. Og ég man eftir því að hæstv. forsrh. kom hér í ræðustól og sagði að sá vandi yrði leystur.
    Nú vil ég, virðulegi forseti, spyrjast fyrir um það hvort svo vilji til að hæstv. forsrh. sé hér í húsinu því nú er nokkur tími liðinn frá því að hæstv. forsrh. tók að sér að svara fyrir hæstv. ríkisstjórn. Mér finnst vel við hæfi að hann sé spurður að því í þessari umræðu hver sé stefna hæstv. ríkisstjórnar í þessum málum og er ég þá ekki að spyrja að öðru en hæstv. félmrh. hefur áður gert. ( Forseti: Forseti vill upplýsa að það vill einmitt svo vel til að hæstv. forsrh. er í húsinu og hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að fá hann til að hlýða á umræðuna.) Ég held, virðulegi forseti, að það sé full ástæða til þess að fulltrúi frá Alþb. sé hér viðstaddur líka og ef hæstv. fjmrh. er í húsinu væri gott að hann væri hér innan seilingar.
    Það var ekki ætlunin að flytja langa ræðu, enda ástæðulaust. Hér er um tiltölulega auðskildar breytingar að ræða. En það er auðvitað athygli vert sem kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem þingflokkur Framsfl. bað um. Þar segir mjög skýrt í niðurstöðum skýrslunnar fremst, að húsbréfakerfið geti aldrei tekið við öllu hlutverki sem áður var ætlað gamla húsnæðiskerfinu, einfaldlega vegna þess að húsbréf byggjast á þeirri grundvallarforsendu að þau eru markaðshæf og bera markaðsvexti.
    Virðulegi forseti. Ég sé að hæstv. forsrh. er genginn í salinn og skal ég ekki hafa langan formála að því erindi sem ég á við hann. Ég rifjaði það upp, hæstv. forsrh., að fyrir nokkrum vikum var rætt um húsnæðismál í Sþ. þar sem ýmsum spurningum var beint til hæstv. ríkisstjórnar, þar á meðal þeim spurningum sem brenna á vörum mjög margra, þ.e. hvað eigi að gera við gamla kerfið, hvernig eigi að leysa fjárhagsvanda Byggingarsjóðs ríkisins, hvernig eigi að leysa fjárhagsvanda Byggingarsjóðs verkamanna, hvað eigi að gera í vaxtamálum vegna skuldabréfanna sem hafa verið gefin út og munu verða gefin út í gamla

kerfinu. Þetta eru allt spurningar sem snerta það mál sem hér er til umræðu. Hæstv. félmrh. sagði rétt áðan að samkomulag yrði að vera um þetta mál á milli stjórnarflokkanna áður en 3. umr. færi fram og 3. umr. fjárlaga fer fram á morgun. Þá rifjast það upp fyrir þeim sem hér eru inni að á þessum fundi í Sþ. fyrir nokkrum vikum síðan vísaði hæstv. félmrh. á hæstv. forsrh. þegar spurt var um hver væri stefna hæstv. ríkisstjórnar í þessum málum. Nú eru liðnar nokkrar vikur. Þá var því lýst yfir af forseta Sþ. að innan tíðar gæfist tækifæri til að ræða þessi mál frekar því að lögð yrðu fram næstu daga frv. um húsbréfakerfið og í þeim gæfist tilefni og tækifæri til að ræða frekar um þetta mál.
    Þar sem hæstv. félmrh. svaraði engu þeim fyrirspurnum sem beint var til hans varðandi stefnu ríkisstjórnarinnar tel ég mér skylt að taka upp þráðinn og spyrja hann. Áður en við afgreiðum þetta mál út úr deildinni er nauðsynlegt að svör liggi fyrir því að umfang húsbréfakerfisins markast auðvitað af því hvað gera á við eldra kerfið. Spurningarnar eru þessar: Hefur ríkisstjórnin náð samkomulagi um það hvað gera eigi við gamla húsnæðiskerfið? Hefur hæstv. ríkisstjórn komið sér saman um það hvernig bjarga eða forða megi Byggingarsjóði ríkisins og Byggingarsjóði verkamanna frá þeim mikla fjárhagsvanda sem þessir sjóðir standa frammi fyrir? Hefur hæstv. ríkisstjórn komið sér saman og er til stjórnarstefna um það hvað gera eigi í vaxtamálum, þ.e. hvort breyta eigi vöxtum á þeim bréfum sem gefin hafa verið út af byggingarsjóðunum, þeim bréfum sem bera breytilega vexti, eða hvort það sé ætlunin að breyta vöxtum á bréfum sem verða gefin út?
    Í dag, 19. des., stendur þannig á að á morgun á að fara fram 3. umr. um fjárlög. Það er bráðnauðsynlegt að þessum fyrirspurnum sé hægt að svara hér og nú. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að hér sé á ferðinni enn eitt málið sem hæstv. ríkisstjórn hefur ekki komið sér saman um. Við höfum séð hvernig ástandið er núna í dag þegar lagt hefur verið fram frv. sem á að verða til þess að koma í veg fyrir sölu á hlutabréfum í Þormóði ramma. Við höfum orðið vitni að því hvað hefur gerst í sambandi við tryggingagjaldið. Enn hefur ekki tekist, sjálfsagt vegna deilna á stjórnarheimilinu, að afgreiða úr nefnd frv. um jöfnunargjald og svo mætti lengi telja. En þetta mál er þess eðlis að nú verður ekki lengur undan því vikist að fá svör við þeim spurningum sem spurt hefur verið vegna þess að svörin við þeim hafa afgerandi þýðingu um það hvað verður um húsbréfakerfið í framtíðinni.
    Virðulegur forseti. Í trausti þess að hæstv. forsrh. lýsi stefnu hæstv. ríkisstjórnar í þessu máli eins og hann gerði á sínum tíma þegar hæstv. félmrh. benti á hann lýk ég máli mínu.