Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 19. desember 1990


     Stefán Valgeirsson :
    Herra forseti. Ég ætla ekki að eyða löngum tíma hér því sjálfsagt veitir ekki af tímanum til að koma einhverju af því fram sem samstaða næst um. Ég er sammála hæstv. félmrh. um að þetta út af fyrir sig breytir ekki miklu, en það er ekki annað en gálgafrestur ef ekkert annað gerist, það er ekkert annað en gálgafrestur. Það kom til mín maður í dag með fjögurra manna fjölskyldu. Hann þarf að leigja og leigan var 37 þús. kr. fyrir utan ljós og hita og hann hefur í tekjur 62 þús. kr. Ef hæstv. ríkisstjórn og Alþingi yfirleitt skilja ekki að það þarf að stokka allt upp, allt kerfið, þá er þetta engin lausn. Það lengir svolítið dauðastríð þeirra sem eru komnir með sínar íbúðir á uppboð nú, það er ekki annað sem það gerir. Það er náttúrlega alveg hneykslanlegt, það er undravert, ef hæstv. ríkisstjórn ætlar ekki að hreyfa hönd né fót við vaxtahækkun sem bankarnir eru að ræða um á morgun. Það er svo dæmalaust og það er alveg þvert ofan í allar yfirlýsingar sem hafa verið gefnar um þessi mál, þvert ofan í þær. Ég tel þetta hreint hneyksli, hvorki meira né minna.
    Við heyrðum það fyrir nokkrum dögum að árið 1988 voru Íslendingar, miðað við fólksfjölda, taldir fimmta ríkasta þjóð veraldar. Og hver er svo vitnisburðurinn frá þeim sem eru að reyna að hjálpa fólki sem er í nauðum? Þrátt fyrir þetta eykst sá fjöldi verulega, a.m.k. eftir því sem fjölmiðlar segja og hafa eftir þeim stofnunum sem með þessi mál fara. Þið hafið sjálfsagt, hv. alþm. og ráðherrar, heyrt í Guðmundi J. Guðmundssyni í kvöld. Hann sagði að ef vextir hækkuðu gæti hann ekki annað séð en að þjóðarsáttin væri búin og þeir lægst launuðu mundu þá væntanlega taka til sinna ráða.
    Það var haft eftir mér í sambandi við vextina, ég ætla ekki að fara mikið ofan í það, ég ætla bara að endurtaka að þó vextirnir á pappírunum, lægstu vextir, séu 6,5% eða 6,75% þá er það ekki nema 1 eða 2% sem er lánað út á þessum vöxtum. Það er lánað út á vöxtum sem eru 8,25% og 8,75%. Og svo þegar skuldbreytt er þá er bætt við. Þetta eru vextirnir. Kostnaður við lántökur hefur hækkað verulega á þessu ári. Það verður auðvitað að líta á það líka. Það er fjármagnskostnaður fyrir þá sem þurfa að taka lán. Og þeir sem eru alltaf að tala um frelsi peninganna hafa allt annað í fjötrum, ekki síst launin. Það hlýtur að koma að því að ekki verður tekið mark á slíku fóki, það hlýtur að koma að því. ( Gripið fram í: Gera bara hrossakaup.) Við hvern á að gera hrossakaup, hv. þm.? Á að gera hrossakaup við þá sem hafa ekki fyrir mat? Það er staðreynd að það er stór hópur í dag.