Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 19. desember 1990


     Friðrik Sophusson :
    Virðulegi forseti. Þetta er örstutt. Ég vil ítreka það sem hv. 1. þm. Suðurl. sagði þegar hann rifjaði það upp að hæstv. félmrh., sem hefur kosið að þegja nú um sinn, sagðist hafa lagt til að leggja niður gamla kerfið frá 1986. Hún hefði sent þessar tillögur til stjórnarflokkanna og bætti síðan við að hún óskaði eftir svari um til hvaða bragðs ætti að taka ef viðkomandi stjórnarflokkur væri ekki tilbúinn til að loka þessu kerfi.
    Síðar í þessari umræðu kemur varaformaður Alþb., hæstv. samgrh., hér í ræðustól og segir: Alþb. er á þessari stundu, þótt málið sé ekki útrætt, ekki tilbúið til þess að loka kerfinu frá 1986 og verður ekki tilbúið til þess fyrr en það veit hvað eigi að taka við.
    Mér finnst það harla einkennilegt ef málið er í þessari stöðu kvöldið áður en 3. umr. á að fara fram. Hæstv. félmrh. hefur sagt mjög skýrt að þessi svör þurfi að liggja fyrir áður en efnt er til 3. umr. fjárlaga, einfaldlega vegna þess að það hefur þýðingu vegna framlaga ríkisins í sjóðinn og reyndar sjóðina. Þess vegna er ekki hægt að enda þessa umræðu, virðulegi forseti, án þess að hæstv. samgrh. svari því til hvað Alþb. vilji að gerist, hvað Alþb. leggi til að gert verði ef afdrif gamla kerfisins verða ekki þau að því verði lokað. Skýrari svör þurfa að fást því annars er ekki séð annað en þessi mál séu enn óleyst með öllu.