Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 19. desember 1990


     Friðrik Sophusson :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kemur á þskj. 372 styðja þingmenn Sjálfstfl. þetta frv. í meginatriðum. Get ég í því sambandi vísað til orða hv. frsm. sem hér var að ljúka máli sínu.
    Það er þó ástæða til að benda á þá tillögu sem kemur fram í 6. gr. frv. Þar er um það að ræða að bæta orðinu ,,ríkisbréf`` á eftir orðinu ,,ríkisvíxla`` í 2. mgr. 78. gr. Til þess að skýra þetta aðeins nánar þá er um það að ræða að bæta ríkisbréfunum við það ákvæði sem nú er í skattalögunum þar sem greint er frá því að ýmis bréf sem ríkið gefur út skuli njóta sérstakra skattfríðinda, þ.e. séu frádráttarbær frá eignarskattsstofni. Þetta hefur þá þýðingu að ríkið getur náð til sín fjármagni á innlenda fjármagnsmarkaðinum með lægri vöxtum og er talið að reiknað til vaxta þá þurfi að bæta öðrum
það upp með 1,5 prósentustigi í vöxtum og er þá um það að ræða að viðkomandi aðili sem kaupir bréf borgi eignarskatt, en það eru auðvitað fyrst og fremst slíkir aðilar sem hafa efni á því að spara og kaupa verðbréf ríkisins og önnur slík bréf.
    Ég kýs að nefna þetta hér, virðulegi forseti, vegna þess að hér er verið að gera mun á möguleikum ríkisins annars vegar og atvinnulífsins hins vegar til þess að afla fjár með útgáfu skuldabréfa.
    Þá vil ég að það komi fram að þingmenn Sjálfstfl. sem sæti eiga í nefndinni styðja framkomna brtt. á þskj. 351 en flm. þeirrar tillögu er hv. 17. þm. Reykv. Geir H. Haarde og er það skýringin á því hvers vegna í nál. er sagt að fulltrúar Sjálfstfl. áskilji sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. er fram kunna að koma.