Virðisaukaskattur
Miðvikudaginn 19. desember 1990


     Jón Sæmundur Sigurjónsson :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir brtt. við 1. gr. frv. til laga um breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.
    Flm. ásamt mér eru Geir Gunnarsson, Anna Ólafsdóttir Björnsson, Geir H. Haarde og Guðmundur G. Þórarinsson.
    Brtt. gengur út á það að bæta við í 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. laganna að sala og útleiga veiðiréttar verði gerð virðisaukaskattsskyld.
    Leitast hefur verið við með setningu laga um virðisaukaskatt að komast af með sem fæstar undantekningar á skattskyldu. Þessi viðleitni hefur valdið nokkru fjaðrafoki í þjóðfélaginu þegar vörur og þjónusta sem áður voru undanþegnar í gamla söluskattskerfinu urðu skyndilega skattskyldar. Er skemmst að minnast deilna um svokallaðan matarskatt sem enginn var þar eð mikilvægustu matvælin voru greidd niður um það sem munaði skattinum. Jafnmiklum deilum og jafnframt undrun hafa svo þau atriði valdið sem af einhverjum ástæðum hafa sloppið við þessa skattskyldu. Eitt þeirra atriða eru veiðileyfi hvers konar, en skattfrelsi þeirra virðist vart hægt að styðja með neinum skynsamlegum rökum miðað við fjölmarga hluti hins daglega lífs sem hinn venjulegi borgari getur ekki veitt sér nema að greiða af þeim virðisaukaskatt. Það er því alveg einsýnt að þeir sem alveg ótilneyddir verða sér úti um laxveiði-, silungsveiði- eða fuglaveiðileyfi sér til ánægju geti líkt og aðrir lagt eitthvað til samneyslunnar. Verðlagning slíkra veiðileyfa virðast oftast nær heldur ekki vera í neinu samræmi við þann tilkostnað sem lagt er í af veiðisölumönnum þannig að þessi skattlagning ætti að færa ríkissjóði nokkrar tekjur.
    Það er hins vegar ljóst að með þessari brtt. er ekki lagt til að keypt eða útleigð aflahlutdeild fiskiskipa verði skattskyld. Þetta atriði er rökstutt í bréfi ríkisskattstjóra sem fylgdi með frv. sem ég flutti um sama mál en hef breytt hér til og legg nú til að þetta atriði komi hér inn sem brtt. við stjfrv. sem einmitt er flutt um virðisaukaskatt. En það kemur fram í bréfi ríkisskattstjóra sem undirritað er af Ólafi Ólafssyni að engan veginn komi til skattskylda á aflahlutdeild fiskiskipa.