Virðisaukaskattur
Miðvikudaginn 19. desember 1990


     Jón Sæmundur Sigurjónsson :
    Virðulegi forseti. Aðeins vegna orða hv. 1. þm. Norðurl. v. hvernig stóð á því að ég minntist ekki á þessa brtt. á fundi fjh.- og viðskn. í morgun. Auðvitað er hv. formanni þeirrar nefndar kunnugt um það að ég hafði ekki tækifæri til að sitja fund nefndarinnar nema í hálftíma þar eð ég varð að fara á annan boðaðan fund heilbr.- og trn., þar sem ég er formaður. Meðan á þessum hálftíma stóð sem ég sat fund nefndarinnar var allt annað mál til umræðu þannig að það kom alls ekki til greina að ég bryddaði upp á þessari brtt. meðan annað mál var til umræðu í nefndinni. Hins vegar var formanni hv. nefndar fullkunnugt um það að ég hafði flutt frv. um nákvæmlega sama mál. Og hvað snerti hið ágæta höfuðhögg sem ég fékk hér á dögunum þá hafði hv. formaður nefndarinnar einmitt hælt mér vegna þess að það höfuðhögg hafði leitt til þess að ég hafði flutt ákaflega skynsamlegar tillögur að hans áliti. Meðal þeirra tillagna var einmitt sú brtt. sem ég hef flutt núna við þetta tækifæri og vegna orða hv. formanns nefndarinnar þá geri ég ekki ráð fyrir öðru en því að hann sé eindreginn stuðningsmaður brtt.