Frsm. utanrmn. (Jóhann Einvarðsson) :
    Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. forsetum Alþingis fyrir þá tillitssemi að leyfa okkur að fá fund hér í Sþ. í kvöld til að ræða um þessa tillögu sem flutt er af utanrmn. allri og undir hana skrifa allir fulltrúar í utanrmn.
    Ég þarf ekki að lýsa því fyrir þingmönnum hve mikið hefur verið rætt hér í Alþingi og í utanrmn. um málefni Eystrasaltsríkjanna. Þó að miklar breytingar hafi orðið núna í veröldinni á síðustu vikum og mánuðum, þá höfum við Íslendingar kannski ekki síst fylgst með litlu ríkjunum þremur við Eystrasaltið, Eistlandi, Lettlandi og Litáen. Alþingi sýndi þetta í verki með samþykkt þáltill. 12. mars á þessu ári þegar samþykkt var hér að senda heillaóskir til litáísku þjóðarinnar í tilefni af sjálfstæðisyfirlýsingu þeirra og var hún að sjálfsögðu samþykkt samhljóða hér í Alþingi. Síðan hafa mál þessara ríkja margoft verið rædd í nefndinni og fluttar um það þáltill. m.a. af hv. þm. Þorsteini Pálssyni og fleirum.
    Í gær var haldinn fundur í utanrmn. að beiðni forsrh. þar sem hann gerði okkur grein fyrir stöðu mála að höfðu samráði við Landsbergis, forseta Litáens. Og í framhaldi af því var þessi tillaga samþykkt í utanrmn. sem ég ætla nú að lesa og liggur svo síðan fyrir til umræðu hér að sjálfsögðu. Tillagan hljóðar svo:
    ,,Alþingi ályktar að ítreka stuðning sinn við sjálfstæðisbaráttu Litáens og minnir á að íslensk stjórnvöld hafa viðurkennt sjálfstæði Eistlands, Lettlands og Litáens óslitið frá 1922 eins og Alþingi og ríkisstjórn Íslands hafa staðfest.
    Alþingi áréttar ályktun frá 12. mars 1990 þar sem lýst var yfir því að sjálfsákvörðunarréttur þjóða með lýðræðislega kjörin þing væri grundvöllur frjálsra samskipta þjóða í milli og stuðlaði að heimsfriði.
    Alþingi leggur áherslu á að afar mikilvægt er að jákvæð niðurstaða fáist í sérstökum viðræðum Eystrasaltsríkjanna við stjórn Sovétríkjanna eins og fram kom í ræðu forsætisráðherra á leiðtogafundinum í París 19. -- 20. nóv. 1990. Alþingi telur að á meðan Eystrasaltsríkin hafa ekki fengið fulla viðurkenningu á sjálfstæði sínu vanti enn mikið á að settar hafi verið niður deilur í Evrópu.
        Alþingi leggur áherslu á rétt Eystrasaltsríkjanna til sjálfsákvörðunar og lýsir yfir stuðningi við allar friðsamlegar aðgerðir til að leysa ágreining þeirra og Sovétríkjanna. Alþingi lýsir yfir stuðningi við boð íslenskra stjórnvalda um Reykjavík sem fundarstað til viðræðna milli aðila og beinir því til ríkisstjórnarinnar að hún beiti sér fyrir því á alþjóðavettvangi að finna farsæla lausn á sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna.``
    Með þessari till. fylgir örstutt grg. sem hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Þróun mála í sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna gefur tilefni til þess að Alþingi álykti á ný um málefni Eistlands, Lettlands og Litáens. Samkomulag hefur tekist í utanrmn. um till. þá sem hér er flutt.``

    Ég vil taka það fram að lokum að sú hugmynd var lítillega rædd í utanrmn. í gær að til greina gæti komið að fulltrúi frá Alþingi færi til Litáens og afhenti forseta Litáens þessa samþykkt okkar ef samþykkt verður hér á eftir og leggi á þann hátt aukna áherslu á stuðning okkar Íslendinga við málstað þeirra.
    Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til síðari umr. Ég tel ekki ástæðu til að vísa því til nefndar, enda eru allir nefndarmenn sammála um flutning þessarar till.