Bréfaskriftir fjármálaráðuneytis
Miðvikudaginn 19. desember 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir að bera upp þessa fsp. Svarið við fyrstu spurningunni er já. Ráðuneytið svarar bréfum. Innan hvaða tímamarka? er spurt. Það getur verið nokkuð mismunandi, stundum fáeinir dagar, stundum lengri tími eftir því hvert efnið er og hve annir eru miklar í ráðuneytinu. En þeirri grundvallarreglu er fylgt að svara bréfum og gera ekki mannamun í þeim efnum.
    Ég tek eindregið undir þá skoðun fyrirspyrjanda að mikilvægt er að halda við því grundvallareinkenni íslenska stjórnkerfisins að það sé opið öllum einstaklingum á jafnréttisgrundvelli, óháð stétt eða stöðu.
    Spurning nr. tvö er hvort treysta megi því að reglan sé virt án tillits til þess hver einstaklingurinn er. Svarið við henni er einnig já og rík áhersla á það lögð að svara erindum einstaklinga bréflega og reyndar einnig oft persónulega þannig að ég held að fá dæmi séu um stjórnkerfi þar sem einstaklingar geta haft jafngreiðan aðgang að embættismönnum og stjórnendum ráðuneyta eins og hér á Íslandi. Að vísu er það nokkuð misjafnt eftir því hver erindin eru, hve fljótt þeim er svarað því að hinar einstöku deildir og sérsvið ráðuneytanna eru misjafnlega mönnuð. Ég vil t.d. geta þess að sá mikli þungi vinnu vegna viðræðna milli EFTA og Evrópubandalagsins á síðustu missirum hefur gert það að verkum að sú deild fjmrn. þar sem embættismenn sinna þeim verkum hefur átt erfitt með að sinna ýmsum öðrum verkefnum vegna þess að við höfum ekki bætt við starfsmönnum vegna þeirra miklu viðbótarverkefna sem komu vegna viðræðna EFTA og EB. En svarið við báðum spurningunum er já.