Málefni aldraðra
Fimmtudaginn 20. desember 1990


     Frsm. meiri hl. heilbr.- og trn. (Valgerður Sverrisdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti á þskj. 381 frá hv. heilbr.- og trn. um málefni aldraðra.
    Nefndin hefur fjallað um frv. og fékk á sinn fund Hrafn Pálsson, deildarstjóra í heilbr.- og trmrn., og séra Sigurð H. Guðmundsson sem sæti á í samstarfsnefnd um málefni aldraðra, sem jafnframt er stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra.
    Nefndin er ekki sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl. hennar leggur til að gerð verði sú breyting á frv. að ráðstöfunarfé vegna annarra verkefna, sem sjóðsstjórn ákveður og ráðherra samþykkir, skv. 5. tölul. 1. efnismgr. 1. gr., komi einungis af þriðjungi árlegs ráðstöfunarfjár. Þannig er tryggt að tveir þriðju hlutar af árlegu ráðstöfunarfé fara til verkefna skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 1. gr. frv.
    Meiri hl. nefndarinnar leggur áherslu á það að í frv. er gert ráð fyrir að árlegt ráðstöfunarfé Framkvæmdasjóðs aldraðra verði jafnhátt heildarálagningu þess sérstaka gjalds sem lagt er á tekjuskattsskylda einstaklinga vegna sjóðsins, sbr. 10. gr. laga nr. 82/1989, um málefni aldraðra. Með þessu er tryggt að ríkissjóður ber hallann ef innheimta verður lægri.
    Auk þess leggur meiri hluti nefndarinnar til að lög þessi öðlist þegar gildi eftir samþykkt frumvarpsins en ekkert gildistökuákvæði er í frumvarpinu. Ástæða er til að nefna það hér að með samþykkt þessa frumvarps fellur niður ákvæði í lánsfjárlögum þar sem kveðið er á um skerðingu á Framkvæmdasjóði aldraðra.
    Meiri hl. nefndarinnar mælir með samþykkt frv. með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þskj.
    Undir nefndarálitið rita Margrét Frímannsdóttir, Karl Steinar Guðnason, Stefán Guðmundsson og Valgerður Sverrisdóttir. Aðrir nefndarmenn hafa skilað sérstökum nefndarálitum.