Málefni aldraðra
Fimmtudaginn 20. desember 1990


     Frsm. 1. minni hl. heilbr.- og trn. (Salome Þorkelsdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nál. 1. minni hl. heilbr. - og trn. Eins og fram kom í máli formanns nefndarinnar, hv. 5. þm. Norðurl. e., skilar minni hl. tveimur nefndarálitum.
    Ég verð að byrja á því að lýsa vonbrigðum mínum með meðferð þessa máls í þessari hv. deild. Það er óhætt að segja að þessu máli hafi verið lætt inn á síðustu dögum þingsins. Það eru ekki nema tveir dagar síðan mælt var fyrir því, eða í fyrradag. Áður en hæstv. ráðherra mælti fyrir þessu máli hafði nefndin komið saman til þess að fjalla um frv. Annar fundur nefndarinnar var haldinn hér í hliðarherbergi á meðan þingdeildarfundir stóðu yfir eða voru að hefjast og þriðji fundur nefndarinnar var haldinn í gærmorgun. Á öllum þessum fundum var illa mætt af nefndarmönnum. Má segja að það hafi aðeins verið stjórnarandstöðuþingmenn sem fjölluðu um þetta frv. ásamt formanni nefndarinnar og einum öðrum hv. nefndarmanni sem tókst að koma þó hann lægi í flensu heima, en það var hv. 4. þm. Reykn. Þetta segi ég til þess að lýsa því hvernig ástandið er á síðustu dögum þingsins. Ég er ekki að ásaka nefndarmenn um að þeir hafi að yfirlögðu ráði ekki mætt á nefndarfundum heldur þykir mér þetta lýsa því að menn eru út og suður í störfum í sambandi við þingstörfin og þannig er á þessu máli tekið þegar svo er ástatt. Það þykir mér vera mjög miður vegna þess að hér er um mikilvægt mál að ræða sem hefði þurft að fá ítarlega og góða umfjöllun.
    Það hefur einnig komið fram að ekkert samráð hefur verið haft t.d. við stjórn Framkvæmdasjóðs eða samstarfsnefnd alraðra um þetta mál meðan það var í undirbúningi. Sá aðili sem er í samstarfsnefndinni eða stjórn Framkvæmdasjóðsins og kom hér á fund nefndarinnar hafði ekki séð þetta frv. fyrr en hann sat með okkur á fundi í hliðarherbergi. Og ritari nefndarinnar, sem er starfsmaður í ráðuneytinu, hafði heldur ekki séð frv. fyrr en búið var að prenta það og ganga frá því.
    Ég get ekki látið hjá líða, hæstv. forseti, að láta þetta koma hér fram. Þetta eru mér mikil vonbrigði og ég hefði talið það farsælla að reyna að taka höndum saman og standa að svo mikilvægu máli þannig að það væri tryggt að hér væri verið að styrkja stöðu Framkvæmdasjóðs aldraðra. En eins og þetta frv. er í pottinn búið, og verður afgreitt hér úr þinginu af stjórnarliðum, þá er ekki hægt á nokkurn hátt að sjá að það sé trygging fyrir því að þetta styrki stöðuna nema síður væri. Eins og fram hefur komið er verið að útvíkka verksvið sjóðsins. Það er talað um að það eigi að tryggja að skerðingarákvæði verði fellt niður. Ég vil aðeins benda á að hér var til umræðu í gær í þessari hv. deild frv. til lánsfjárlaga. Það var afgreitt út úr deildinni. Það var ekki minnst einu orði á að það ætti að fella niður skerðingarákvæðið sem snýr að Framkvæmdasjóði aldraðra. Þetta fannst mér nauðsynlegt að láta koma fram, hæstv. forseti.

    Ég leyfi mér að renna yfir nál. sem er undirritað af okkur hv. 14. þm. Reykv. Guðmundi H. Garðarssyni og mér. Með leyfi forseta hljóðar það svo:
    ,,Nefndinni barst þetta frv. með mjög óvæntum hætti rétt fyrir jólahlé. Lítið svigrúm var gefið af hálfu meiri hl. nefndarinnar til að leita eðlilegra umsagna um málið eða afla nauðsynlegra gagna. Að vísu voru kvaddir á einn fund með nefndinni tveir kunnáttumenn um málefni aldraðra, þeir Hrafn Pálsson og séra Sigurður H. Guðmundsson, sem gáfu glöggar og góðar upplýsingar. Þrátt fyrir það hefðu verið eðlilegri vinnubrögð að frv. væri sent til aðila er fjalla um málefni aldraðra og leitað skriflegra umsagna.
    Fyrsti minni hl. nefndarinnar mótmælir þessum vinnubrögðum og telur þau óþingleg. En þrátt fyrir það telur hann sig knúinn til að reyna til hins ýtrasta að forða Framkvæmdasjóði aldraðra frá stóráföllum með því að leggja fram brtt. við frv. á sérstöku þskj.
    Eins og fram kemur í brtt. er lögð áhersla á að Framkvæmdasjóður aldraðra fái að fullu þær tekjur sem sjóðnum ber samkvæmt lögum með því að skerðingarákvæði frv. til laga um lánsfjárlög verði niður felld.
    Enn fremur er lagt til að sjóðurinn verði ekki samhliða framkvæmda - og rekstrarsjóður. Er sérstaklega varað við þeirri stefnu þar sem hún getur eyðilagt megintilgang Framkvæmdasjóðs aldraðra. Rekstrarfjárþörf stofnana aldraðra verður að mæta með öðrum hætti.
    Sú leið, sem felst í frv. því til laga um Framkvæmdasjóð aldraðra sem meiri hl. nefndarinnar stendur hér að, skerðir enn frekar fjárhagsstöðu stofnana aldraðra og mun auka vanda þeirra. Brtt. 1. minni hl. miðar hins vegar að því að styrkja stöðu Framkvæmdasjóðs aldraðra.``
    Ég vil svo að lokum, hæstv. forseti, benda á það að þetta er ekki í fyrsta sinn sem þessi sjóður er skertur. Á sínum tíma var með lögum lagður á nefskattur sem rann í Framkvæmdasjóð aldraðra. Þegar staðgreiðslukerfi skatta var komið á var þessi nefskattur felldur niður og felldur inn í staðgreiðslukerfið. Nú er þessi skattur inni í staðgreiðslukerfinu og auk þess hefur honum verið bætt á að nýju sem nefskatti. Svo er verið að tala um skerðingarákvæði sem varðar þessar áætluðu tekjur en þessi skerðing á sjóðnum er miklu, miklu meiri. Það er líka inni í staðgreiðslukerfinu. Við sem erum í minni hl. í þessu máli teljum að það sé nægjanlegt ráðstöfunarfé sem rennur beint í ríkissjóð, sem ríkissjóður hefur tekið sér, ég vil leyfa mér að segja ófrjálsri hendi, sem ætlað var og á að fara í Framkvæmdasjóð aldraðra.
    Varðandi brtt. eru þær tvær eða í tveimur liðum. Þær eru á þskj. 406 og hljóða svo, með leyfi hæstv. forseta:
 ,,1. Síðari efnisgrein 1. gr. orðist svo:
    Heimilt er að veita allt að þriðjungi af árlegu ráðstöfunarfé Framkvæmdasjóðs aldraðra til verkefna skv. 2., 3., 4. og 5. tölul. 1. mgr.
    2. Við 1. gr. bætist ný mgr. svohljóðandi:
    4. tölul. 1. mgr. skal aðeins gilda árið 1991 en

kemur því aðeins til framkvæmda að skerðingarákvæði lánsfjárlaga fyrir árið 1991 um sjóðinn falli brott.``
    Með þessu móti viljum við fá staðfestingu á því að það sé rétt að skerðingarákvæðið eigi að falla brott því að það er á engan veg hægt að tryggja það með því sem segir t.d. í athugasemdum í lánsfjárlögum um þetta atriði. Í athugasemdum við frv. til lánsfjárlaga á bls. 15 segir m.a. að fé úr Framkvæmdasjóði aldraðra megi ráðstafa til reksturs og almenns viðhalds auk stofnframkvæmda. Þarna er talað
um að heilbrrh. muni væntanlega leggja fram á Alþingi frv. til laga um breytingu á lögum um málefni aldraðra. Verði breyting gerð á hlutverki þessara sjóða, þá er átt við fatlaðra og aldraðra, gætu --- takið eftir því --- gætu ákvæði 28. og 29. gr. þessa frv. fallið niður í meðförum Alþingis. Það er ekki sagt: munu falla niður, heldur: gætu gert það ef hæstv. fjmrh. væri það nú t.d. þóknanlegt. Og þess vegna eru þessar brtt. fluttar.