Málefni aldraðra
Fimmtudaginn 20. desember 1990


     Frsm. 2. minni hl. heilbr.- og trn. (Guðrún J. Halldórsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. 2. minni hl. heilbr.- og trn. Í rauninni er það þannig með 1. og 2. minni hl. heilbr.- og trn. að við berum í brjósti álíka ugg um framvindu starfsemi þessa sjóðs því með útvíkkun starfseminnar sem boðuð er í þessu lagafrv. verða skyldur sjóðsins svo miklu meiri og margvíslegri að vandséð er að sjóðurinn geti staðið undir þeim skuldbindingum eða þeim skyldum sem honum eru lagðar á herðar. Það er heldur ekki tryggt að við það verði staðið að fella niður þau skerðingarákvæði sem haft er á orði að muni falla brott. Finnst mér það vera uggvænlegt. Jafnvel þó þessi skerðingarákvæði verði felld niður í ár, þá koma fleiri ár og á undanförnum árum er búið að skerða þennan sjóð ár eftir ár. Þetta er draugur sem hefur sífellt gengið aftur og jafnvel þó tvívegis sé búið að skattleggja þjóðina fyrir þessum umræddu fjárframlögum. Því tel ég engan veginn tryggt, jafnvel þó þetta sé haft á orði núna, að sjóðurinn verði ekki jafnilla staddur á næstu árum eins og hann er núna. Af þessum ástæðum er dálítið vafasamt að útvíkka starfsemi sjóðsins.
    Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa nál. 2. minni hl.
    ,,Nefndin var tekin að ræða þetta frv. jafnvel áður en fjallað var um það í 1. umr. í Ed. og verður að segjast að miklum þrýstingi var beitt við nefndarmenn til að koma því í höfn fyrir jólafrí. Því hefur gefist heldur naumur tími til að fjalla um málið. Telja verður varhugavert að veita fleiri verkefnum inn í sjóð sem aldrei hefur getað sinnt hlutverki sínu til fullnustu því að árum saman hefur hann verið skertur við afgreiðslu lánsfjárlaga. Óafgreidd mál munu hafa hlaðist upp hjá sjóðnum og vandséð hvernig hann á að geta staðið undir víkkuðu starfssviði þó að skerðingunni verði af honum létt og nokkurt fé bætist í sjóðinn að auki, svo mikið mun ásókn í úthlutunarfé sjóðsins aukast. Eigi að síður eru þeir þættir frv. sem varða víkkað verksvið sjóðsins nauðsynlegir og óhjákvæmilegir en 2. minni hl. treystir sér ekki til að styðja þá nema sjóðnum sé séð fyrir miklu meira fjármagni en nú mun ætlað í hann og mun því sitja hjá við afgreiðslu frv.``
    Og það er mergurinn málsins. Ef tryggt væri að sjóðurinn fengi miklu meira fé en honum mun vera ætlað þá gæti hann staðið undir öllum þessum verkefnum. En eins og stendur er ómögulegt að sjá að hann muni geta það.